13. júlí verður alltaf…

by Agnes Barkardóttir

Í dag er 13. Júlí. Ég vaknaði með stóran kvíðahnút í maganum. Skildi ekki alveg hvers vegna þar til ég fletti í gegnum facebook minningar og áttaði mig á því.

Það er eiginlega hálf magnað hvað dagsetningar sitja fastar í undirmeðvitundinni hjá okkur – allavega mér.
En í dag eru 6 ár frá því að ég upplifði stærsta áfall sem ég hef upplifað á minni lífsleið. 

Ég hef lent í þeim allmörgum, en þetta áfall hefur markað mig alveg síðan og ég hef verið greind með áfallastreituröskun sem ég þarf að eiga við í allskonar aðstæðum. 

Í dag eru sex ár liðin frá því að ég fékk erfiðasta og um leið hræðilegasta símtal sem ég hef upplifað. 
Ég var búin að vera í burtu á ferðalagi í New York og Las Vegas í rúmlega viku. 
Ferðin var á enda og við á leiðinni heim til Íslands aftur. 
Mér leið hálf skringilega þennan morgun og eins og alltaf þegar ég sest upp í flugvél, þá sofna ég nánast strax. Við vorum við það að lenda í New York eftir 5 tíma flug þegar ég hrökk upp úr svefni og í panikki. Ég fór strax að leita að símanum mínum, sem eðlilega var slökkt á. Ég kveikti á honum og sem betur fer náði hann sambandi. Þar voru ótal mörg skilaboð um að það væri verið að reyna að ná í mig, sms um að hringja strax. 

Ég fékk Taugaáfall!

Maðurinn minn skildi ekki hvað væri að mér – eðlilega, ég var alveg út úr kú í stjórnlausu panikki.

Ég náði að hringja heim úr háloftunum.
Ég gleymi aldrei röddinni í pabba mínum! 
Tinna, litla systir mín lá á gjörgæslu eftir að hafa fengið alvarlegt heilablóðfall – blóðtappa í hægri heila og ekki var vitað um framhaldið. Hún hafði legið ein heima hjá sér á baðherbergisgólfinu í rúma 6 klst, þar til hún fannst og komst undir læknishendur. 
Ég, sem alltaf er og vill vera til staðar, gat það ekki! Það var heill sólarhringur þar til ég myndi lenda á Íslandi. Ég vissi ekkert annað en að hún væri mjög illa farin og væri á gjörgæslu tengd snúrum og allskonar vélum.

Sem betur fer fór þetta betur en áhorfðist í byrjun en í kjölfarið tók við gríðarlega erfitt ár með áföllum ofaní áföll.  

Tinna var lögð inn á heila- og taugadeild LSH. Þar tóku við erfiðir dagar. Tinna var lömuð í öllum vinstri helmingi líkamans og gat sig hvergi hreyft. Til að útskýra ástand hennar enn frekar, þá gat hún t.d. ekki borðað sjálf. Starfsfólk deildarinnar gerðu meiriháttar mistök við umönnun hennar sem orsakaðist í því að hún fótbrotnaði á lamaða fætinum. Í kjölfarið þurfti hún að fara í aðgerð. 

Mistök ofaní mistök, áföll ofaní áföll og enginn ber ábyrgð. Læknaskýrslur voru rangar og gerði ég mikið í því að reyna að fá þær leiðréttar, án árangurs! Þó að við hefðum setið fund með deildarstjóra og leiðrétt skýrslurnar með blýanti voru leiðréttingarnar aldrei færðar inn í tölvukerfið. 
10 dögum síðar var Tinna flutt á Grensás þar sem hún var í 11 mánuði. 

Reiðin og biturðin út í deildarstjóra, starfsfólk og kerfið í heild byggist upp í mér aftur, þegar ég skrifa þetta. 

En systir mín er kraftakona (stelpukona eins og hún myndi segja). 

Hún kallar ekki allt ömmu sína og barðist mjög hetjulega. Samkvæmt læknum og umönnunarfólki átti hún ekki að geta gengið aftur. Hún átti ekki eftir að geta búið ein. Hún átti í raun ekki eftir að geta séð um sig sjálfa. Læknarnir sögðu þetta við okkur fjölskylduna aftur og aftur þegar við mættum á fjölskyldufundi. Þó að við fjölskyldan og vinir hennar hefðum öll fulla trú á henni og vissum að hún myndi sigrast á þessu eins vel og hún gæti, þá var mjög erfitt að upplifa það að læknarnir hefðu ekki sömu trú.

Ég gæti skrifað fleiri fleiri blaðsíður af vonbrigðum og lélegu heilbrigðiskerfi, en það er efni í annan pistil og geymi ég það, þar til síðar.

Að hafa gengið í gegnum þessa lífreynslu hefur kennt mér margt. Þetta kenndi mér í raun hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Ég er þakklát fyrir fólkið mitt. Ég er þakklát fyrir fjölskylduna mína.

Á hverjum degi í nokkur ár hef ég reynt að skrifa niður það sem ég er þakklát fyrir. Það gleymist oft, ég viðurkenni það, að sjá hvað skiptir máli og maður fer að velta sér upp úr litlum ómerkilegum hlutum, sem skipta ekki máli í stóru myndinni. 

Í gegnum þessa lífreynslu sá ég líka hvaða fólk það var sem ég gat treyst á. Það kom verulega á óvart í mómentinu að vinir sem ég hélt að væru mér nánir, hurfu og voru ekki til staðar. 

En ég lærði að þakka fyrir það fólk, fyrirgefa þeim og sætta mig við það að þau voru ekki lengur farþegar á mínu skipi. Það var erfitt að þurfa að læra á lífið á þennan hátt en lærdómur var það sannarlega.

Ég er svo þakklát fyrir það að systir mín skuli búa yfir þeim eiginleikum sem hún er gædd og þeim krafti og dugnaði sem henni var gefinn. Tinna er virkilega flott fyrirmynd fyrir aðra og hún hefur sýnt það og sannað, ítrekað, að það er flest hægt, ef viljinn er fyrir hendi. 

Njótum, föðmum, brosum, þökkum, elskum – lífið er núna, ekki á morgun, NúNa.