Perla Sóley

by Fanney Marín Magnúsdóttir

Meira úr bókaklúbbnum

PERLA SÓLEY

UMSJÓN BÓKAKLÚBBS MLU

UMSJÓN BÓKAKLÚBBS MLU

Halló og velkomin! 

Perla Sóley heiti ég og er ég umsjónarmaður Bókaklúbbs Mín Leið Upp. Áður en ég kynni sjálfan Bókaklúbbinn, sem ég er ótrúlega spennt að gera! Þá langar mig aðeins að kynna mig fyrir ykkur. 

 

Ég er tvítug og verð 21 árs í sumar. Ég er sjúkraliði og starfa ég á bráðamóttökunni í Keflavík, ég elska vinnuna mína og samstarfsfólkið mitt. Stefnan er tekin á hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri í haust og er ég virkilega spennt að byrja í því námi.

 

Ég á tvo yngri bræður sem eru mér allt og foreldra sem hafa alltaf stutt við bakið á mér. Ég á einnig hund sem heitir Fluga og er hún að verða 13 ára í sumar, hún er heyrnarlaus, hálf blind og tannlaus en hún er samt sem áður voðalega hamingjusamur hundur. Ég hef mikinn áhuga á eldamennsku og er ég orðin nokkuð klár í eldhúsinu en ég er samt enginn bakari ...en er að æfa mig.

 

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að lesa og hef ég verið dugleg að lesa bækur í gegnum árin. Síðastliðin ár og sérstaklega núna í covid-ástandinu hef ég fengið aukna þörf fyrir að lesa. Vinkonur mínar deila ekki þessu áhugamáli...þannig að þær nenna langt í frá því að hlusta á mig tjá mig um allar þessar dásamlegu bækur…ég hef svalað þeirri þörf með því að vera fylgjast með bókaklúbbum erlendis - því ég hef ekki rekist á Íslandi sem höfðar til mín ...

 

Mín leið upp er jú vettvangur sem er ætlaður til þess að fá okkur saman, skapa umræður, fyllast innblæstri og hvatningu, akkúrat það sem góður bókaklúbbur gerir. Heimasíða Mín leið upp er því fullkomin vettvangur fyrir bókaklúbb!

 

Sameinumst í lestri

Mig langar að deila með ykkur einni bók í hverjum mánuði sem hefur veitt mér innblástur, vakið mig til umhugsunar, fengið mig til þess að hlæja eða jafnvel gráta, bæði flóknar sögur og léttar, stuttar eða í lengri kantinum og eiga þær allar að hafa það sameiginlegt að ég gat ekki lagt þær frá mér. 

 

Bækurnar sem ég ætla mér að deila með ykkur eru til dæmis sjálfshjálparbækur, skáldsögur, spennusögur og lífssögur.

 

Hægt verður að nálgast allar bækurnar sem verða kynntar á rafrænu formi og/eða í gegnum Storytel. 

 

Hver bók mun hafa sinn umfjöllunarþráð, þar getum við skapað skemmtilegar umræður, fengið innblástur og sameinast í gegnum lestur óháð stað og stund.  

 

Perla Sóley

 

FYLGSTU MEÐ