Að komast niður á jörðina

Mín leið upp….

Satt að segja var það ekkert auðvelt og þurfti ég að takast á við margar hraðahindranir og miserfið verkefni og kannski allt of mörg ósanngjörn fyrir manneskju sem er aðeins 32 ára, en nóg um það við skulum bara byrja á byrjuninni.

Ég, Sandra 32 ára bý í Njarðvík og er í sambúð með Júlla. Samtals eigum við þrjú börn (eitt saman og svo sitthvort úr fyrri samböndum).

Ég ólst upp hjá mömmu og var mikið með ömmu og afa á yngri árum, ábyggilega mjög mikið því flestar mínar minningar fyrstu árin á ég með þeim. Blóðfaðir minn var aldrei inn í myndinni þannig séð, þar sem hann var svona vesenis-pési, man t.d oft þegar hann hringdi og sagðist vera á leiðinni að sækja mig en kom svo aldrei… ófá símtöl þar sem hann spurði hvað mig langaði í og ætlaði svo að koma með það daginn eftir en aldrei kom neitt. Á endanum tók ég ákvörðun um að vilja ekki þennan mann í líf mitt. 

Ég datt heldur betur í lukkupottinn þegar mamma kynnist fósturpabba mínum þegar ég var um 5 ára, hann tók mér strax eins og hann ætti mig, og hef ég verið mikil pabba stelpa síðan og um leið og ég varð 18 ára þá bað ég hann um að ættleiða mig, sem hann auðvitað gerði án þess að hugsa sig um.

Æskan og unglingsárin voru ekki beint auðveld. Þegar ég var ellefu ára var ég beitt kynferðisofbeldi af ókunnugum manni, hann var svo dæmdur og sat inni í tvö ár. Út frá því varð ég rosalega lokuð og kvíðin – átti erfitt í skóla og sótti mikið í krakka í öðrum bæjarfélögum. 

Daginn eftir ferminguna mína er ég á heimleið úr sundi og verð fyrir mjög hrottalegri líkamsárás frá eldri stelpu sem ég hafði aldrei séð áður eða vitað af, en ástæðan var einhver kjaftasaga að hennar sögn frá krökkum sem voru með mér í skóla, við þetta slasast ég illa á baki og hálsi og hætti þar af leiðandi að spila handbolta. Ég leiðist fljótt út í slæman félagsskap, byrja að reykja og fikta við drykkju og sótti mikið í eldri krakka.

Upp úr þrettán, fjórtán ára aldri fer móðir mín að drekka mikið – pabbi var sjómaður og var lítið heima. Mamma drakk illa og varð þetta mikill feluleikur hjá mér, ég bauð engum heim, heilu og hálfu dagana sá ég um yngri bróðir minn þar sem mamma var annaðhvort áfengis dauð eða ekki viðræðuhæf.

Svona gekk þetta öll mín unglingsár þar til ég flutti að heiman átján ára og byrjaði að búa með barnsföður mínum… Það samband var ekkert dans á rósum. Við eignuðumst svo saman strák þegar ég var tvítug, en hann hafði nú lítinn tíma fyrir það, en án þess að fara í details á því þá loks slítum við sambandinu endanlega þegar strákurinn var þriggja ára, sem var stórt og gott skref upp á við.

Ég var alltaf dugleg að vinna, og passaði mig á að hafa nóg að gera. Dagarnir lituðust svolítið á símtölum frá móðir minni (oft upp í tuttugu símtöl á dag), sem snérust annað hvort um það hversu dásamleg ég væri eða þá hvað hún væri alls ekki stolt af mér og sæi eftir því að hafa átt mig!

Nota bene þó svo unglingsárin og árin þar til ég átti strákinn minn, þá djammaði ég mikið og prófaði allskonar! En snéri svo blaðinu við algjörlega. Byrjaði svo með núverandi kærasta um mitt árið 2011 og gekk sambandið hálf brösulega fyrsta árið, líklegast vegna þess að þar voru tvö börn fyrir og tveir fyrrverandi makar á hliðarlínunni, en við tækluðum við það vel eins og okkur einum er lagið, við erum rosalega lík en samt ólík. Við höfum bæði gengið í gegnum ófá verkefnin sem hafa ýmist styrkt okkur eða dregið okkur niður.

Árið 2018 tökum við ákvörðun um að fara í magaermis aðgerð enda bæði í ofþyngd. Ég fer í ágúst 2018 og hann svo í Desember 2018. Hjá mér gekk allt eins og í sögu….hrikalega fljót að ná mér og komin til vinnu sirka tveimur vikum seinna. Júlli aftur á móti fer í aðgerð og allt fór niður á við. Hann var lengi að jafna sig, fékk mikið þunglyndi og hreinskilið þá held ég að lífsviljinn hans hafi týnst þarna á einhverjum tímapunkti. Ég vann, planaði jólin, mætti í ræktina, sá um krakkana og skreytti fyrir jólin og passaði upp á að allt væri nú í lagi sem það var auðvitað ekki.

Eftir nokkra mánaðar þunglyndi og erfiðleikana sem fylgdu því fóru hlutirnir að fara upp á við hjá okkur (að við héldum). Ég næ honum með mér á æfingar og árangurinn leyndi sér ekki.

Þessi aðgerð var svo frábær og allt svo dásamlegt að ég hélt. En hún gjörsamlega rústaði á manni hausunum og andlegu hliðinni. Þetta er svo brenglað all saman – matarfíkill fer í aðgerð og maginn minnkaður og svo bara hent út í þjóðfélagið aftur, án allrar aðstoðar. Matarfíkillinn færir þá auðvitað fíknina yfir í aðra fíkn sem í mínu tilfelli var ræktin. Kannski alveg góð fíkn en allt er gott í hófi er það ekki?

Sjálfsdýrkunin var orðin svo mikil að ég hugsaði ekki um neitt nema sjálfan mig og hvernig ég leit út en samt svo brotin að innan, En hey ! Ég er með mastersgráðu í „poker-face“ sem ég lærði strax á unglingsárum og sýndi aldrei að neitt væri að.

Það var svo í júní 2019 nánar tiltekið 9.júní seinni partinn sem ég fæ símtal um að mamma mín hefði verið bráðkvödd á Spáni….. heimurinn hrundi bókstaflega, já hún drakk sig í hel…. þessi fallega unga og yndislega manneskja sem hafði gert mér lífið svo ótrúlega erfitt en samt svo góð þegar allt gekk vel hjá henni var dáin, ekki orðin fimmtug!

Næstu dagar voru helvíti bókstaflega! Plana ferð erlendis til þess að kveðja hana í síðasta sinn og vera til staðar fyrir pabba sem var einn úti með henni og kom að henni látinni. En alltaf stóð minn maður Júlli eins og klettur við bakið á mér í þessu ferli, studdi mig í einu og öllu. Við systkinin og Júlli flugum út. Við tóku dagar í að skipuleggja bálför, halda kistulagningu og kveðja hana elsku mömmu sem hafði svo sannarlega ekki átt farsælt líf og hvað þá síðustu árin. Bakkus hafði gjörsamlega heltekið hana! Heimleiðin til Íslands var svo erfið, hversu ósanngjarnt að þurfa að ferðast með mömmu sína í duftkeri heim.

Þetta var allt svo óraunverulegt og ég held að ég hafi dottið algjörlega út, hætti að finna tilfinningar var köld og varð slétt sama um allt og alla – vikurnar og mánuðir liðu og um miðjan nóvember 2019 er ég orðin svo tilfinningalega dofin og örugglega á barmi taugaáfalls… aftur hugsa bara um mig…

Gerði nákvæmlega það sem mér sýndist, leitaðist eftir athygli út á við og hélt framhjá heimsins besta manninum mínum sem hafði alltaf gert allt fyrir mig hvort sem ég var feit eða mjó, leið eða kát, frek eða bara hvað sem er … hann gafst aldrei upp á mér!

Lenti í klóm alræmds glaumgosa, sem nýtti sér svo sannarlega ástand mitt og hann vissi það vel og er þekktur fyrir það eitt og sér…. Framhjáhald korter í jól og ég gjörsamlega rústaði fjölskyldunni og manninum mínum, þarna var minn botn, ég komst ekki neðar.

Jólin, áramótin, utanlandsferð með fjölskylduna í janúar ’20, að halda andlitinu fyrir krakkana og allt árið 2020 hefur verið virkilega erfitt, mikil vinna!

Við tókum ákvörðun um að halda áfram að vera saman, það hefur svo sannarlega ekki verið auðvelt svo langt því frá… eftir magaermis aðgerðina, misstum við nánast alla gömlu vinina (því það var ekkert hægt að gera nema hittast og borða – mikil afbrýðisemi um hversu vel okkur gengi, greinilega!) En i dag höfum við eignast vini og æfingar félaga sem taka okkur nákvæmlega eins og við erum og heilbrigðari á allan hátt!

En ég komst aftur niður á jörðina og rankaði við mér, þegar ég hugsa til baka allt frá því að mamma dó og það sem eg gerði sambandinu þá er þetta allt í móðu – mér finnst eins og ég muni ekki eftir þessu en man þetta samt, skrítið! Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að maðurinn minn gaf mér annan séns og fyrir okkar fáu en traustu vini sem stóðu þétt við bakið á okkur!

Tilfinnanlegur rússibani, hlátur og grátur, mikil reiði og allt þar í kring þá stöndum við tveimur árum seinna sterkari en nokkru sinni fyrr, sem sýnir svolítið og sannar að ástin sigrar allt.

Þetta er mín leið upp ef svo má segja og ég lærði svo sannarlega af þessum mistökum, hef ég náð botninum og þurft að klífa ansi margar hæðir til þess að ná á toppinn! Með hörkuna að vopni og hef þurft að berjast fyrir mínu. Ég þorði loksins að segja hvað ég vil og vera með bein í nefinu…

Í dag tek ég einn dag í einu og hugsa um mig og mína..

Leyfi fólki að hneykslast á því hvernig við lifum lífinu og hef bara pínu gaman af því – því allt sem skiptir máli fyrir rest er að við séum að njóta og lifa fyrir okkur… ekki aðra.

Mitt ráð til þín kæri lesandi

Ef þú ert að hugsa um að fara í magaaðgerð þá skalt þú leita þér hjálpar og taka hausinn í gegn áður með hjálp fagmanna og vera meðvitaður um þetta ástand sem getur skapast. Farðu í aðgerðina með því hugarfari að nota þetta sem hjálpartæki – þetta er engin lausn! ÞÚ þarft að vinna vinnuna og breyta um lífsstíl svo þetta virki og viðhaldist. Ég hef allt of oft heyrt að við höfum bara keypt okkur það að verða mjó, nei svo langt því frá við höfum lagt blóð svita og tár í að ná þeim árangri sem við höfum náð. Æfingar – mataræði og agi. Veit um mörg dæmi þar sem fólk “kaupir sér megrun” en nær engum árangri af því það hefur ekkert fyrir hlutunum og fer aftur í sama farið og verður jafnvel verr statt líkamlega en áður. Ekki halda framhjá!

Grasið er EKKERT grænna hinum megin, það mun ekki gera neitt fyrir þig nema láta þér líða illa og eyðileggja fyrir þér og þínum!

  

Facebook


Instagram