Að komast niður á jörðina

by Reynslusaga

Mín leið upp….

Satt að segja var það ekkert auðvelt og þurfti ég að takast á við margar hraðahindranir og miserfið verkefni og kannski allt of mörg ósanngjörn fyrir manneskju sem er aðeins 32 ára, en nóg um það við skulum bara byrja á byrjuninni.

Ég, Sandra 32 ára bý í Njarðvík og er í sambúð með Júlla. Samtals eigum við þrjú börn (eitt saman og svo sitthvort úr fyrri samböndum).

Ég ólst upp hjá mömmu og var mikið með ömmu og afa á yngri árum, ábyggilega mjög mikið því flestar mínar minningar fyrstu árin á ég með þeim. Blóðfaðir minn var aldrei inn í myndinni þannig séð, þar sem hann var svona vesenis-pési, man t.d oft þegar hann hringdi og sagðist vera á leiðinni að sækja mig en kom svo aldrei… ófá símtöl þar sem hann spurði hvað mig langaði í og ætlaði svo að koma með það daginn eftir en aldrei kom neitt. Á endanum tók ég ákvörðun um að vilja ekki þennan mann í líf mitt. 

Ég datt heldur betur í lukkupottinn þegar mamma kynnist fósturpabba mínum þegar ég var um 5 ára, hann tók mér strax eins og hann ætti mig, og hef ég verið mikil pabba stelpa síðan og um leið og ég varð 18 ára þá bað ég hann um að ættleiða mig, sem hann auðvitað gerði án þess að hugsa sig um.

Æskan og unglingsárin voru ekki beint auðveld. Þegar ég var ellefu ára var ég beitt kynferðisofbeldi af ókunnugum manni, hann var svo dæmdur og sat inni í tvö ár. Út frá því varð ég rosalega lokuð og kvíðin – átti erfitt í skóla og sótti mikið í krakka í öðrum bæjarfélögum. 

Daginn eftir ferminguna mína er ég á heimleið úr sundi og verð fyrir mjög hrottalegri líkamsárás frá eldri stelpu sem ég hafði aldrei séð áður eða vitað af, en ástæðan var einhver kjaftasaga að hennar sögn frá krökkum sem voru með mér í skóla, við þetta slasast ég illa á baki og hálsi og hætti þar af leiðandi að spila handbolta. Ég leiðist fljótt út í slæman félagsskap, byrja að reykja og fikta við drykkju og sótti mikið í eldri krakka.