Að komast út úr skelinni

Ef þú ætlar þér eitthvað stórt og vinnur fyrir því og trúir á þig, þá getur þú allt. Ekki láta neinn segja þér hvað þú getur og hvað þú getur ekki. Vertu þú sjálf/ur, treystu á þig og þínar hugsanir. Þú uppskerð því sem þú sáir.

Ég er Ágústa Árna og er ég gift Ægi Þór Lárussyni, við eigum Ágúst Þór (2005) og Örnu Maríu (2002) en Örnu var ég svo heppin að fá inn í líf mitt þegar ég hitti Ægi. Að verða mamma svona ung, varð ég að læra að verða fullorðin á mjög stuttum tíma og ákvað ég, þá 17 ára, að flytja frá mínu verndaða æsku heimilli, í mitt eigið húsnæði sem Ægir keypti handa okkur. 

Í grunnskóla var ég ekki sterk, ég var barnið sem lítið fór fyrir og allir héldu að ég væri „alveg með þetta“ en það var ekki alveg svo. Ég féll í öllum samræmdu prófunum og þurfti að taka núll-áfanga þegar ég byrjaði í FS. Í FS fann ég mig og var á því að núna væri minn tími kominn og að ég gæti þetta alveg, en þá uppgötvaði ég að Ágúst var kominn undir.

Sautján ára og ólétt, það voru ekki réttu aðstæðurnar í litla samfélaginu á Suðurnesjum og var skömmin hjá mér mikil. Í stað þess að fólk kæmi fram við mig sem verðandi móður þá var litið framhjá mér og talað við mömmu, eins og hún væri að fara að ala upp barnið mitt því ég væri svo ung. En svo var nú ekki. Ég ætlaði að sýna fólkinu sem dæmdi mig úr öllu áttum, að ég gæti þetta alveg. Sem ég gerði með aðstoð frá öllu mínu fólki.

Þegar ég horfi tilbaka til áranna sem ég var að læra á lífið, þá var það sem skipti mig mestu máli, að ég væri alltaf góða og ljúfa Ágústa. Ég kunni ekki að segja nei og var fólk farið að notfæra sér það. Ég var notuð í alla „leiðinlegu hlutina“ því ég gat ekki sagt nei við neinn, hvorki samstarfsfólk né yfirmenn. Ég sagði ekki það sem mér fannst, heldur gerði það sem fólk vildi að ég gerði, þar til einn daginn. Ég sprakk innra með mér og byrjaði að segja það sem ég vildi og hvað mér fannst vera rétt. Frá þeim degi kom fólk öðruvísi fram við mig og þarna sá ég hversu sterk ég gæti verið. Ég ákvað að nú skildi ég fara að gera einhvað við líf mitt, fyrir mig fyrst og svo fyrir fjölskylduna. Því þegar manni er farið að líða vel með sig þá getur maður gert mikið meira fyrir alla í kringum sig.

Mig langaði að komast út úr skelinni. Ég fann að ég þurfti að komast aftur í að hreyfa mig. Einu sinni var ég þessi geggjaða fótboltastelpa sem nú var hún farin að öskra eftir hreyfingu og nýjum áskorunum. Ég byrjaði að fara í ræktina eða í litla líkamsræktarsalinn í íþróttarhúsinu og þá var ekki aftur snúið. Frá þeim degi sem ég sneri aftur hef ég verið í einhverskonar líkamsrækt. Þarna í litla salnum ákvað ég að mig langaði að reyna meira, fara lengra og gera meira.

Ég tók ákvörðun um að keppa og tók þátt í fitnessmóti. Að keppa í fitness þýddi það að ég þurfti að taka skref, ekki bara stór skref heldur risa skref út fyrir þægindarammann. Ég passaði mig á því að vera vel undirbúin í ferlinu því auðvitað mátti ekkert fara úrskeiðis. Á þessum tíma var ég með rosalega fullkomnunaráráttu. Ég keypti þjónustu einkaþjálfara sem kenndi mér allt sem hún kunni og er hún enn góð vinkona mín.

Litla stelpan sem gekk meðfram veggjum var komin upp á stórt svið í engu nema risa hælum, glimmer brjósthaldara og g-streng að láta dæma útlit sitt. Fyrsta keppinn fór beint í reynslubankann og ég vildi meira. Ég tók þátt aftur og aftur og fannst alltaf jafn gaman en alltaf jafn erfitt. Út úr skelinni skildi ég fara.

Þegar taka á þátt í svona móti þarf að stilla hugann af því það má ekkert fara úrskeiðis og til að þetta gangi upp þarftu á öllum þeim stuðning að halda, sem þú mögulega getur fengið, frá öllum í kringum þig. Þetta krefst mikils aga og getur orðið algjör vitleysa.

Hvert mót kenndi mér meira en ég kunni. Ég lærði á líkamann minn og lærði á það hvernig þetta allt virkar og fer fram. Reynslubankinn minn stækkaði við hvert mót og sjálfstraustið varð meira. Litla stúlkan sem gekk meðfram veggjum var ekki lengur uppvið vegginn.

Ég lærði að vera naglafræðingur og í framhaldi af því fór ég í snyrtifræði. Ekki voru allir á því að ég ætti að verða snyrtifræðingur, af hverju ekki einkaþjálfari? En ég fór í snyrtiskólann og keyrði alla virka daga í „borg óttans“. Ægir var einnig í námi á þeim tíma og þurftum við mikla hjálp með son okkar til þess að þetta myndi allt ganga upp hjá okkur.

Alla daga fórum við fulla ferð og ekkert var gefið eftir. Skólinn átti hug minn allann og ekkert mátti fara úrskeiðis. Það kom oft upp á að ég vildi hætta því mér fannst þetta of mikið en það stóðst ekki allt mína fullkomnunaráráttu og ég vildi frekar gefast upp heldur en að klára með meðaleinkunn.

Ég ofhugsaði næstum allt og skalf eins og hrísla þegar ég átti að tjá mig fyrir framan fulla stofu af fólki. En þetta hófst allt á endanum og ég var farin að hafa gaman af því standa fyrir framan samnemendur þó blundaði það alltaf í mér að ekkert mætti klikka, fullkomnun varð að eiga sér stað sama hvað.

Ég fór að vinna hlutastarf með skólanum því við þurftum á smá auka pening að halda, með öllum námslánunum. Ég vann í Líkama og lífstíl nokkrar klukkutíma á dag til að byrja með en áður en ég vissi var ég farin að vinna þar alla daga. Á endanum var ég farin að reka búðina fyrir eigendurna og þar fann ég mig aftur. Að vinna við það sem ég hafði áhuga á, mæta í ræktina og síðan að hjálpa fólki að ná sínum árangri. Ægir var farinn að vera aðeins með mér þar ásamt því að vera sjálfur í námi.

Svo kom sá dagur að mér bauðst fyrirtækið, ég sló til því ég vildi ekki sjá eftir því seinna meir. Ef þetta gengi ekki þá væri lítið annað í stöðunni en að selja. Þegar þetta tækifæri býst þá erum við bæði að stíga úr námi, þó ekki námi sem tengist því að reka fæðubótaverslun á neinn hátt. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun, að hafa stokkið á þetta tækifæri og opnað búðina mína Líkami&boost.

Ég taldi mig þekkja þá hugmyndafræði sem þyrfti til, til að koma fyrirtækinu áfram með þeirri grunnhugsun að bjóða uppá eins persónulega þjónustu við fæðubótaefnaráðgjöf og best væri á kosið.

Við erum öll ólík og höfum misjafnar þarfir. Enn þann daginn í dag er ég að þróa mína framför í að veita bestu fæðubótaráðgjöf fyrir hvern og einn. Á meðan það gengur hjá mér mun ég halda áfram að aðstoða fólk úr öllum áttum, stórum sem smáum.

Í búðinni hefur mér boðist fullt af nýjum tækifærum. Ég hef fengið tækifæri á að gerast hópatímaþjálfari í Sporthúsinu og þar læri ég alltaf einhvað nýtt um það hvernig líkaminn virkar því við erum öll einstök og ekki gengur það sama upp fyrir alla. Ég hef verið að aðstoða fólk við að finna ánægjuna í því að hreyfa sig og líða betur í eigin líkama.

Það er svo magnað að vera í búðinni og fylgjast með fólki hugsa um sig og sína heilsu, auðvitað getum við öll „fallið“ og verið „sófaklessur“ en þá er það bara að rífa sig í gang og reyna aftur.

Vertu jákvæð. Þú kemst langt á því hugarfari, stattu með þér og brostu. Vertu sama hvað öðrum finnst um þig. Það tók mig 28 ár að læra og sjáið mig í dag. 🙂

Ég hef gaman að lífinu og lífið hefur kennt mér margt, ef þú ætlar þér eitthvað þá þarft þú að taka stjórnina, hugsa um þig, hvað er þér fyrir bestu og ekki hlusta á aðra í kringum þig því það ert þú sem uppskerð því sem þú sáir og það mun enginn taka það af þér.

Við erum alltaf að læra eitthvað á hverju degi, það er allt í góðu að gera mistök, mistök eru til þess að læra af þeim, en þú þarft líka að geta viðurkennt mistök þín. Stöndum upp og höldum áfram, tökum einn dag í einu. Settu þig í fyrsta sætið, vaknaðu jákvæð og gerðu lífið að þínu eins og þú vilt hafa það, ekki lifa fyrir aðra og vera í „glansmynd“, VERTU ÞÚ!

 

Endilega fylgist með mér og Likama&Boost á Instagram

agustaarna32 https://www.instagram.com/agustaarna32/

likamiogboost https://www.instagram.com/likamiogboost/

Fyrir áhugasama þá er ég með facebooksíðu fyrir almenning og allir velkomnir að nota æfingarnar mínar.

Heimaæfingar með Ágústu Árna. https://www.facebook.com/groups/heimaaefingar/

og auðvita vil ég benda ykkur á netsíðu Líkama&boost likamiogboost.is


Facebook


Instagram