AÐ SEGJA NEI OG SETJA MÖRK

Ég hef lengi ítrekað fyrir mínu fólki mikilvægi þess að setja mörk og virða þau.

Með því að setja mörk ert þú að passa upp á sjálfan þig. Þetta er mikilvægur liður í því að byggja upp jákvætt, gott og hamingjusamt líf.

Í langan tíma átti ég í óeðlilegum samskiptum við fólk almennt.

Ég var ofboðslega meðvirk. Meðvirknin átti mjög stóran þátt í vanlíðan minni og vansæld. Ég var sú sem allir stóluðu á og um leið gleymdi ég sjálfri mér. Ég passaði alltaf upp á það að vera til staðar fyrir alla aðra en sjálfa mig, því enginn mátti í raun vita að mér leið illa.

„Ég er bara góð“ var setning sem ég notaði óspart. Ég faldi mig á bakvið grímuna mína, sem var óhaggandi í langan tíma.

Að vera meðvirkur getur verið mjög skaðlegt í samskiptum. Ef þú setur ekki mörk og virðir þau þá ert þú meðvirkur. Þú hugsar um aðra framyfir þig og þínar þarfir og það mun eingöngu bitna á þér. Þú gerir það sem aðrir vilja að þú gerir, þú getur ekki sagt nei við neinu, stekkur til ef einhver kallar og framvegis. Þó það brjóti í bága við það sem þú sjálfur vilt, við þína skoðun eða þinn vilja, þá gerir þú það samt. Þetta er meðvirkni.

Það var ekki fyrr en ég lenti í stóru áfalli að ég fór að endurskoða margt í lífinu og fann það út að ef maður er ekki með mörk, þá lifir maður ekki hamingjusömu lífi. Vanlíðan sem þú getur upplifað vegna þess að þú getur ekki staðið á þínu er mjög óþægileg og ekki staður sem neinn vill vera fastur á.

Það er í raun alveg sama í hvaða aðstæðum þú ert. Gagnvart vinum, fjölskyldu, börnum eða ókunnugu manneskjunni úti í búð, þú verður að hafa mörk og virða þau.

Afleiðing þess að hafa ekki mörk og að virða ekki mörkin sín, er að þú afsalar þér virðingu annarra. Það vill enginn upplifa það að ekki sé borin virðing fyrir sér. Það eiga allir skilið að borin sé virðing fyrir sér.

Vellíðunin sem fylgir því að geta staðið með sér, staðið með þinni skoðun, sagt þína skoðun og tekið gagnrýni er ómetanleg.

Við erum ólík eins og við erum mörg og öll höfum við rétt á því að hafa okkar skoðanir á aðtæðum – Já, öllum aðstæðum.

Ég hvet þig kæri lesandi til þess að skoða mörkin þín, hvar liggja þau og hvernig virðir þú þau? …eða gerir þú það yfir höfuð?

Mig langar að skora á þig.

Segðu hvað þér finnst! Ekki segja „mér er alveg sama“, „bara eins og þú vilt“ eða „jájá ég græja það“, ef þú hefur skoðun eða ef það er eitthvað í þér sem streitist á móti.

Ef eitthvað í líkamanum segir „oh“ eða „nei“ – þá þýðir það nei

Ef líkaminn bregst við með „JÁ!“ Gerðu það þá.


Facebook


Instagram