Að vera „vonda stjúpan“

by Reynslusaga

Stjúpmóðir kemur aldrei í staðinn fyrir blóðmóður, en getur hinsvegar hugsað mjög vel um börnin og viljað þeim allt það besta!

Ég varð svo heppin að verða stjúpmóðir þriggja barna þegar ég kynntist manninum mínum, árið 2010. Frá fyrstu kynnum elskaði ég börnin eins og mín eigin og ól þau upp á alveg sama hátt og ef þau væru mín.

Sjálf átti ég einn son fyrir. Við höfðum búið tvö ein frá því hann var 2ja ára og var (og er) tengingin okkar á milli órjúfanleg.

Í byrjun virtist allt svo gott og samskiptin á milli heimila voru fín. Ekki nógu góð, en í lagi. Litlu stelpurnar með ljósu lokkana sína tóku mér æðislega vel og leið mér strax eins og þær væru mínar eigin. Strákurinn hinsvegar átti erfiðara með að tengjast mér, enda ekki skrítið þar sem hann þurfti núna að deila pabba sínum með mér og syni mínum. Þrátt fyrir það elskaði ég hann strax eins og minn.

Drengurinn er ári eldri en minn og urðu þeir strax góðir vinir. Við, ég og sonur minn vorum búsett erlendis þegar við kynntumst og komu feðgarnir í heimsókn til okkar út og áttum við yndislegan tíma saman.

Ég tók ákvörðun um að nú væri ég búin að eignast manninn minn og ákvað að flytjast búferlum heim til Íslands, eftir um 10 ára dvöl erlendis. Við fluttum heim og byrjuðum að búa strax.

 

Ég er að eðlisfari mikil mamma og er það mér mjög mikilvægt að börn búi við góðan kost, séu hrein og vel tilhöfð, að þeim líði vel og hafi allt sem þau þurfa.

Fyrsta sumarið okkar á Íslandi voru stelpurnar hjá mér alfarið. Mamma þeirra var að vinna og vildi ég alls ekki að þær væru einar heima, svo ég tók þær til mín og hugsaði um þær þetta sumarið. Þetta sumar tengdumst við vel.

Fljótlega fór að bera á því að ekki væri allt með feldu og krakkarnir byrjuðu að forðast það að koma til okkar eins mikið og þau gerðu. Það þótti mér skrítið svo við báðum mömmu þeirra og stjúppabba að koma til okkar í kaffibolla svo við gætum sett eitthvað fast form á það hvenær þau væru hjá okkur og hvenær ekki. Markmiðið með því samtali var einfaldlega að útbúa ramma fyrir börnin, því öll vitum við að börn fúnkera best í sterkum ramma, rútínu og aga.

Án þess að ætla að þylja upp allt það sem gekk á, þá ætla ég að stikla á einstaka tilfellum sem gfa skýra mynd af barningnum sem við fórum í gegnum í þau ár, sem liðin eru. Það er hálf erfitt að stikla á stóru, því næstu árin gengu öll samskipti mjög brösulega, hvort sem það var á milli barnanna eða mömmu þeirra. (brösulega er þó væga orðið yfir það sem gekk á).

Fyrsta alvarlega atvikið, sem markaði framhaldið:

Um jólin árið 2011 gerðist það fyrst fyrir alvöru. Það varð áfall sem leiddi af sér erfiðleika sem við stóðum í þar til að við (eiginlega) gáfumst upp.

Það var á annan í jólum sem við vorum búin að koma okkur vel fyrir uppi í sófa, með popp og kók. Allir í náttfötum og búið að kveikja á Avatar, sem var þá í sjónvarpinu.

Bjallan hringdi og ég fór til dyra. Þar stóð mamma krakkanna. Hún var komin að sækja þau.

Ha? Af hverju? Þau voru hjá okkur þennan dag – einmitt í staðinn fyrir aðfanga- og jóladag því þá daga máttu þau ekki vera með okkur.

Hún var komin komin til að sækja börnin hvort sem okkur eða þeim líkaði það betur eða verr. Litlu stelpurnar með ljósu lokkana sína grétu því þær langaði ekki að fara með henni. Önnur þeirra hékk um hálsinn á mér þegar mamma hennar ruddist inn og reif hana úr fanginu mínu. Hún skipaði hinum börnunum að klæða sig og fara út í bíl.

Þau voru farin. Eftir sátum við, ég maðurinn minn og sonur minn, með tárin í augunum og rauð af reiði yfir mannvonskunni í henni.

Eftir þetta atvik ákváðum við að nú yrði að setja niður fasta daga, festa jól, áramót, páska, sumarfrí og aðra frídaga, auk þess að við vildum að þau ættu fasta viku hjá okkur og henni.

Illa gekk að ræða saman svo við ákváðum að leita til Sýslumanns til að fá aðstoð við að ná sáttum. Það þurfti nokkrar tilraunir svo hún gæfi eitthvað eftir, en samningurinn sem gerður var, var eftir hennar höfði því ekki skildi hún láta neitt eftir.

Skemst frá því að segja að sá samningur sem gerður var fyrir börnin var brotinn aftur og aftur, þrátt fyrir undirritun af henni og sýslumanni.

Hún tálmaði umgengni, hún læsti börnin inni á bakvið sig þegar var verið að sækja þau. Hún tók af þeim tíma með pabba sínum og okkur. Hún talaði mjög illa um okkur. Hún sagði mig vonda og bjó til sögur útí bæ um að við værum vond við börnin. Það var virkilega erfitt að heyra það úti í bæ og frá fjölskyldu mannsins míns, sem tók alltaf hennar hlið og studdi hana.

Við pössuðum okkur mikið á því að tala aldrei illa um hana við börnin, en ég viðurkenni það samt að þau heyrðu okkur eflaust oft tala um hana okkar á milli.

Þau voru oft illa til höfð, í litlum og slitnum fötum, götóttum skóm, með skemmdar tennur og höfðu ekki farið í sturtu í marga daga. Við fórum með þau til tannlæknis – sem fékk sjokk og sagði að ef ekkert skyldi aðhafast í tannheilsu þeirra, yrði þetta vandamál út lífið.

Við keyptum ný föt, nýja skó, hlífðarfatnað, úlpur og allt sem þau vantaði og ákváðum að það skyldi vera heima hjá okkur, því allt sem hafði farið með þeim heim hvarf og alltaf komu þau aftur skítug og úlpulaus.

Við reyndum að tala við mömmu þeirra um þetta, allt sem okkur lá á hjarta varðandi börnin, hvernig þau voru skítug, án hlífðarfatnaðs, kunnu ekki að þrífa sig og þannig frameftir götunum.

Hún svaraði okkur ekki svo við brugðum á það ráð að senda henni tölvupóst svo hún gæti þá lesið okkar vangavelur í næði og brugðist við með okkur.

Alltaf vildum við taka á málunum í sameiningu og var það tekið fram í öllum samskiptum. Allir tökvupóstar sem fóru fram á milli heimila eru enn til.

Í stað þess að ganga til liðs við okkur og hugsa vel um börnin þá brá hún á það ráð að kalla í þau og lesa upp úr bréfunum sem við sendum henni.

Hún túlkaði því bréfin meðal annars með því að segja: „pabbi ykkar segir ykkur skítug og ljót. Hann segir ykkur með ljótar tennur, hann segir ykkur……“

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig börnunum leið. Svo ótrúlega sorglegt.

Auðvitað trúðu þau mömmu sinni, en ekki hvað? Enda er bara ein mamma og hún á að hugsa fyrir því besta fyrir mann, ekki satt?

Á hverju ári fórum við í fjölskylduferðir, fórum til Spánar og í skíðaferðir til Akureyrar. Þetta var hefð hjá okkur. Börnin elskuðu þessar ferðir með okkur. Þau lærðu á skíði og snjóbretti, fóru til útlanda og kynntust menningunni á Spáni. Þau fengu leyfi til að fara með okkur – en því miður, þá reyndi hún allt sem hún gat til þess að skemma ferðirnar fyrir þeim.

Hún gat ekki með nokkru móti samglaðst börnunum sínum fyrir það að fá að fara til útlanda, læra á skíði, fara í útilegur og ferðast með okkur um Ísland.

Hún var í stanslausu símasambandi við þau. Segja þeim að gera eitthvað, segja eitthvað eða biðja þau að sýna sér eitthvað. Aumingja börnin náðu aldrei að njóta sín almennilega. Það var alltaf einhver pressa á þeim – líka í ferðalagi langt í burtu.

Eitt sinn þá komum við tveimur dögum inn í „hennar mánuð“ frá Spáni, það var vegna þess að það var ekki flug fyrr. Um leið og við lentum fóru þau heim, en við fengum ekki að sjá þau í tvo mánuði eftir það. Hún refsaði börnunum.

 

Ég á til svo margar frásagnir í þessum dúr. Svo mörg ömurleg atvik sem hafa orðið til þess að með tímanum þá fjarlægðust börnin okkur alltaf meira og meira. Við þurftum að „gefa eftir“ ef maður getur tekið svo til orða, því við vorum að hugsa um börnin. Börnin sem geta ekki með neinu einasta móti lifað þannig að það sé kvíðavaldandi að hitta pabba sinn og stjúpmömmu. Við reyndum í mörg ár. Við reyndum að fá sýslumann til liðs við okkur. Við reyndum að tala við hana. Við reyndum allt sem við gátum. En það er auðvitað takmarkað hvað hægt er að leggja á ung börn. Það skiljum við.

 

Árið 2018 setti endann.

Í lengri tíma höfðum við keypt sálfræðiþjónustu fyrir strákinn hans. Hann kom til okkar eitt vetrarkvöld í nóvember 2017 og opnaði sig fyrir okkur um vanlíðan sína. Hann sagði okkur hvað hann og systur hans höfðu þurft að lifa við í gegnum árin. Hann sagði okkur að hann vildi fá hjálp og spurði hvort við gætum hjálpað honum. Að sjálfsögðu!

Við fundum sálfræðing fyrir hann, sem hann hitti nokkrum sinnum. Sambandið á milli hans og okkar lagaðist verulega þennan tíma. Við hugsuðum með okkur að nú hefði hann séð hvað væri rétt og væri ekki að hlusta á lygar lengur. Mikið vorum við glöð!

Um páskana 2018, nokkrum mánuðum eftir samtalið okkar góða, voru börnin hjá okkur. Á páskadagsmorgun vöknum við og strákurinn var horfinn! Hvar var drengurinn? Hann svaraði ekki í síma og við vorum orðin skíthrædd um hann.

Við ákváðum að fara út og keyra til að finna hann. Við komum að honum heima hjá mömmu sinni þar sem hann hafði farið inn kvöldið áður og haldið partý. Við höfðum auðvitað samband við hana og létum hana vita af þessu atviki – en hún var úti á landi.

Strákurinn var ekki sáttur við okkur og afleiðingarnar sem voru þessu broti (af okkar hálfu) og strauk aftur á páskadagskvöld. Síðan þá höfum við ekki heyrt í honum.

Mamma hans studdi hann í því að strjúka og í því að hætta að tala við okkur. Hún laug að mér þegar ég ræddi við hana um strákinn. Hún laug og laug þar til það kom henni í klemmu, en þá sakaði hún mig um að vera fávita og skellti á mig. Ég ákvað að þetta skildi ég ekki láta ganga yfir okkur og hafði samband við barnaverndarnefnd í bænum okkar, sem tók vel á málinu. Kallaði þau á fundi og útveguðu stráknum sálfræðing sem hann fékk að hitta í fimm skipti. Við fengum takmarkaðar upplýsingar frá barnavernd, enda hún með fullt forræði (eitt af því sem hún gaf það ekki eftir í upphafi).

Hún blokkaði símana okkar svo við gátum ekki haft samband við hana né börnin. Sem betur fer komu stelpurnar samt áfram til okkar en eftir sumarið 2018 minnkaði það helling og koma þær núna örsjaldan en alltaf jafn dásamlegt þegar þær koma.

Það má segja að mamma þeirra hafi náð sínu fram, hún „vann“ en þessi slagur sem hún barðist í, í tíu ár koma til með að hafa áhrif á börnin hennar það sem eftir er.

Með þessum pistli eru tvö markmið. Annað er, fyrir mig að skrifa þetta aðeins frá mér og hitt markmiðið er að fá fólk til þess að hugsa.

Leggjum afprýðissemi, biturð, reiði og það sem er að angra þig, til hliðar þegar kemur að börnunum okkar. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Lífið er allskonar – og eins og ég byrjaði pistilinn á, þá kemur engin í staðinn fyrir blóðmóður EN stjúpmamma getur samt viljað börnunum alls hins besta.