Að verða móðir

Af hverju verðum við ekki ólétt?

Að verða móðir er ekki öllum gefið. Þessi tilfinning sem gerir vart við sig þegar samband hefur varað í einhvern tíma; að eignast barn. Að verða fjölskylda. Að fullkomna okkur. En svo gerist ekkert og tíminn líður. Áhyggjurnar fara að gera vart við sig. Af hverju gengur þetta ekki upp? Af hverju verðum við ekki ólétt?

Í mínu tilfelli komu þessar pælingar upp þegar við vorum búin að vera saman í nokkur ár. Búin að koma okkur fyrir, komin með heimili. Það vantaði bara barnið. Þegar í ljós kom að það var ekki að gerast með eðlilegum hætti byrjuðum við að huga að því hvaða möguleikar væru í stöðinni. 

Engin skýring fannst fyrir ófrjóseminni

Ég leitaði til kvensjúkdómalæknis en enginn sérstök orsök fannst fyrir ófrjóseminni. Ekki heldur hjá manninum mínum. Við ákváðum að þiggja smá aðstoð; hormónasprautur sem maðurinn minn sprautaði í aðra rasskinn mína að kvöldi. Þetta átti að örva eggjaframleiðsluna og hjálpa til. Fljótlega kom í ljós að þetta bar ekki árangur og áður en lengra var haldið í þessu ferli var önnur hugsun farin að láta á sér kræla. Hugsun sem kom svo eðlilega og náttúrulega að það var eins og þetta hefði alltaf legið fyrir okkur. 

Hugmyndin um ættleiðingu kom eðlilega og þægilega

Þegar ég sagði æskuvinkonum mínum frá þessu sagði ein af þeim að þetta kæmi henni ekki á óvart. Ég hefði jú alltaf talað um það þegar við vorum litlar að ég ætlaði að eignast lítið brúnt barn. Ég tek það fram að þetta var hvernig ég orðaði það þegar ég var lítil. Á þessum tímapunkti hafði hugmyndin bara snúist um að ættleiða barn og okkur var sama hvaðan það kæmi, hvernig það liti út. Við vildum bara eignast barn. Önnur góð vinkona orðaði það fallega þegar við ræddum um þetta ferli okkar hjónana; Ef markmið ykkar er að verða fjölskylda skiptir engu máli hvaðan barnið kemur.

Og það er nefnilega málið. Fjölskylda ákvarðast nefnilega ekki bara af líffræðilegum skyldleika, heldur af því hver stendur með þér, heldur í hönd þína, er til staðar. Það er fjölskylda.

Hugmyndin um ættleiðingu kom eðlilega og þægilega. Við hjónin vorum alveg sammála um þetta og samstíga. Það er hins vegar ekki hægt að segja að ferlið hafi verið eins þægilegt. Að bíða eftir barni í 9 mánuði tekur án efa á. Spenningurinn og kvíðinn í þá mánuði er án efa mikill. Ímyndaðu þér að bera þær tilfinningar í þrjú ár. Eða fjögur. Og á þeim tíma getur allt gerst. Það getur lokast fyrir ættleiðingar í landinu sem þið völduð. Ykkur gæti verið hafnað sem væntanlegum foreldrum á einhverjum forsendum. Það að verða foreldrar er ekki lengur bara í ykkar höndum. Það er einhver annar sem ákveður þetta fyrir þig.

Ættleiðingarferlið

Þær voru ófáar stundirnar á meðan við biðum eftir eldri syni okkar sem óvissan og óttinn heltust yfir okkur. Hvernig við lágum kannski saman inni í rúmi og löngunin eftir að eiga lítinn kropp sem lægi á milli okkar varð yfirþyrmandi. Við biðum eftir eldri syni okkar í þrjú ár og fjögur ár eftir yngri syninum. Frá því að við ákváðum að ættleiða leið hins vegar lengri tími því fyrst þurftum við að gifta okkur. Og hafa verið gift í eitt ár.

Þegar umsókninni hafði verið skilað inn byrjaði svo eiginlega biðin. Biðin eftir forsamþykki. Biðin eftir langþráðum pósti eða símtali sem tilkynnti að upplýsingar hefðu borist um barn. Þetta símtal kom loks og er það augnablik eitt af stærstu augnablikunum í lífi okkar. Stuttu seinna fengum við að sjá mynd af fullkomnu barni sem átti að verða okkar. Brún augu sem stara á þig af ljósmynd sem tekin er úti á Indlandi. Þessi brúnu augu heilluðu okkur um leið. Sonur okkar. Að hugsa sér.

En svo tók við meiri bið og hún reyndi töluvert meira á því nú var komin alvöru manneskja sem beið okkar. Ekki bara hugmynd um litla manneskju. Eftir að við fengum upplýsingar um son okkar liðu nokkrir mánuðir þar til við fengum að fara út að sækja hann. Þessi tími fór í að bíða, vona, láta sig dreyma og hafa áhyggjur. Ég var orðin móðir en ég var ekki með barnið mitt. Einhver annar var að hugsa um það og barnið bjó ekki við bestu aðstæður. Ég ætla ekki að leyna það að þetta var erfiður tími. En einhvern veginn leið þetta og við þraukuðum þennan tíma.

Svo kom loks að því að ung hjón lögðu af stað í merkilegustu ferð lífs síns. Í Kolkata beið lítill snáði, sonur okkar. Og þegar við fengum hann loks í fangið gleymdist allur þessi tími og öll þessi bið. Við sáum bara hann og brúnu augun hans. Við vorum orðin foreldrar. 

Fjórum árum síðar upplifðum við aftur merkilegstu stund lífs okkar; að sameinast yngri syni okkar úti í Kolkata. Biðin eftir honum tók alveg jafn mikið á. Að fá hann, og þá báða, í fangið var okkar dásamlega stund. Barnaheimilið í Kolkata var okkar fæðingardeild og tilfinningin þegar við tókum þá loks í fangið var alveg jafn stór og sú stund þegar móðir fær nýfætt barn sitt í fangið.

Tilfinningarússíbani og ,,hvað ef” hugsanir eðlilegur partur af ferlinu

Það er margt sem safnaðist í reynslubankann við þessa lífsreynslu. Ég þurfti að skerpa vel á þolinmæðinni, en það hefur aldrei verið mín sterkasta hlið. Einnig á bjartsýninni: að við enda biðarinnar biði okkar barn og hlutirnir færu vel. Það skjóta upp margar tilfinningar og pælingar við að ganga í gegnum þetta ferli. Margt sem þarf að skilgreina og flokka. Verð ég góð móðir? Hvernig er að fá barn í fangið sem er þér ókunnugt í fyrstu? Hvað ef barnið hafnar okkur? Og kannski sú erfiðasta, sem erfitt er að orða: hvað ef ÉG tengist barninu ekki? Þetta eru allt saman krefjandi spurningar sem enginn getur svarað og tíminn varð bara að fá að leiða í ljós. En það er mikilvægt að muna, þegar svona ferli er hafið, að allar þessar hugleiðingar, spurningar og hugsanir eiga rétt á sér.

Synir okkar eru synir okkar með húði og hári

Í dag erum við fjögurra manna fjölskylda með hund. Við fengum drauma okkar um að verða fjölskylda uppfyllta og myndum allan daginn velja þessa leið aftur; að ættleiða. Synir okkar eru synir okkar með húði og hári. Þeir deila kannski ekki okkar genum en þeir eru okkar. 

Ég sem móðir hef aldrei velt mér upp úr því að hafa ekki gengið með syni mína. Ég gekk með þá í hjartanu og þar hafa þeir verið rótfastir, frá fyrstu mynd. Og kannski snýst þetta allt í grunninn um hugarfarið; að gleðjast yfir því sem sem lífið hefur gefið þér en ekki það sem það hefur neitað þér um.

Landslagið hefur breyst töluvert síðan við hjónin gengum í gegnum þetta ferli. Því miður hefur verið lítið um ættleiðingar frá Indlandi síðustu ár, sem mér þykir miður. Ferlið þar, þó það hafi verið langt, gekk vel og barnaheimilið þar var til fyrirmyndar. Eitthvað hefur verið um ættleiðingar frá Tékklandi og einnig frá Kína en biðlistar eru yfirleitt langir. 

Félagið ,,Íslensk Ættleiðing”

Er milligönguliði í ættleiðingaferli hér á landi. Félagið aðstoðar við allar hliðar ferlisins og þegar við gegnum í gegnum þetta var líka mikið um hittinga og samkomur. Það er gott að taka þátt í starfinu, bæði á meðan beðið er og ekki síst eftir að heim er komið. Þá er ómetanlegt að geta rætt við foreldra í sömu sporum og oft spretta upp dýrmæt tengsl á milli bæði foreldra og barna. Og þó að gott sé fyrir okkur foreldrana að geta spjallað saman er líka mikilvægt fyrir börnin að vera í tengslum við börn sem hafa sama bakgrunn.

Ekki láta ,,langa biðlista” fæla ykkur frá

Þrátt fyrir langa biðlista mæli ég eindregið með ættleiðingu. Ef þú/þið eruð í barneignarpælingum og einhverjir hnökrar eru á því mæli ég með því að skoða ættleiðingu sem möguleika. Einnig mæli ég með því að skrá sig á biðlista sem fyrst og láta lengdina á honum ekki fæla ykkur frá. Með því að ættleiða barn færðu ekki eingöngu þá ósk þína uppfyllta heldur einnig dásamlega lífsreynslu og fallega tengingu við land, hugsanlega hinu meginn á hnettinum. Og mundu að; ef markmiðið er að verða fjölskylda skiptir engu hvaðan barnið kemur.