Aðdragandi – einu sinni var

Síðan ég var lítil stelpa, hef ég séð mig fyrir mér vera á sviði. Með FULLT HÚS áhorfenda. Fyrst hélt ég að mig langaði að syngja, ég elskaði að syngja, var alltaf syngjandi. En eftir því sem ég varð eldri, þá áttaði ég mig á því að þetta snérist ekki endilega um að verða stjarna á sviði, heldur meira um tjáningu & tilfinningar – að gefa af mér. Tónlistin gaf mér nefnilega svo mikið og gerir enn. Ætli hún hafi ekki verið mitt fyrsta „verkfæri“ sem ég nýtti til að tjá og túlka líðan mína.

Um 10-11 ára byrjaði ég að skrifa í dagbækur, semja ljóð, sögur og búa til leikrit. Það skal alveg viðurkennast að þetta voru langt í frá verðlaunarverk, en þau gáfu mér mikið og settu alveg bros á nokkur andlit. Ég hef alltaf verið mjög leitandi. Ég upplifði mig sem barn og unglingur hálf týnda og fannst ég aldrei „passa inn“.

,,Fanney þú ert svo væmin“ – fékk ég oft að heyra frá jafnöldrum mínum. Ég vildi nefnilega alltaf vera tala um og/eða tjá mig um „djúpa“ hluti, þ.e. ræða tilfinningar, upplifanir, reynslu, ástina o.s.frv.

Þessari miklu tjáningaþörf nýtti ég mér í hlutverkaleikjum, alveg fram yfir fermingu. Þeir voru ofboðslega raunverulegir fyrir mér og sumir þeirra stóðu jafnvel í margar vikur, svona eins og í góðri sápuóperu, ,,to be continued“

Ég gat svolítið falið mig í þessum hlutverkaleikjum, því ég var að „leika“. Þetta var ,,mín leið“ til að túlka mínar eigin tilfinningar og æfa mig t.d. í samræðum og/eða aðstæðum sem mér kveið fyrir að fara í. Síðast en ekki síst að þá var þetta besta leiðin fyrir mig að tengjast draumunum mínum og dreymdi mig sko stórt og mikið, svona ,,wannabe“.

Í raun og veru var ég ekki að vera barnaleg, eins og ég hélt oft og skammaðist mín mikið fyrir, heldur bara frekar klár! Þar sem þessi nálgun, þ.e. hlutverkaleikir er ein sú vinsælasta í dag meðal kennara sem og annara fagaðila sem vinna með börnum og ungmennum.

„OG SVO MÖRGUM ÁRUM SEINNA“ (Der bor en bager på Nörregade)

Ég er gift honum Ara mínum, við erum búin að vera saman í að verða 23 ár og eigum 21 árs brúðkaupsafmæli í ár. Saman eigum við þrjá gullmola, sú elsta verður 21 árs í sumar og tvo syni en þeir eru 18 ára og 9 ára á þessu ári.

Eftir að hafa flakkað talsvert milli námsleiða s.l. tuttugu ár þá er ég afar stolt að geta sagt frá því að ég er á mínu lokaári til BA-prófs í tómstunda- og félagsmálafræði og ég er að vinna BA verkefni – eigum við að ræða það eitthvað!

PÚKINN Á ÖXLINNI – HÚN ,,RAGGA ráðríka“

,,Hver helduru eiginlega að þú sért Fanney?“ er setning sem hefur komið mörgum sinnum til mín eftir að ég fór af stað með þetta verkefni, sem endurspeglar kanski ekki beint það sem ég er að vinna að með ,,Mín leið upp“. Það er ekki beint við hæfi að sú sem er að setja af stað þetta verkefni tali niður til sjálfrar síns. Þá fer ég að berja mig niður fyrir það líka. ,,Fanney þú ert sko engin manneskja til að fara af stað með svona verkefni!“.

Sem betur fer að þá vara svona hugsanir ekki lengi. Ég tala oft um litla púkann á öxlinni, sem reynir sitt allra besta til þess að draga úr mér og minna mig á það sem miður hefur farið hjá mér.

Það hjálpaði mér mikið að setja púkann í karakter. Ég ákvað meira að segja að skíra púkann, hún heitir Ragga. Með þeim hætti gat ég aðskilið púkann frá sjálfri mér, því hún ,,Ragga ráðríka“ hefur ekkert með mig sem persónu að gera.

Nærvera Röggu er afar truflandi, hún ofhugsar allt en er á sama tíma hvatvís, hún er gagnrýnin á allt og með mikla fullkomnunaráráttu. Þar af leiðandi er hún í bullandi ójafnvægi og ekki hægt að gera henni til hæfis. Ragga þarf hins vegar að leggja mikið á sig til þess að hafa áhrif á mína orku og líðan í dag, því ég nota ,,verkfærakistuna“ mína óspart gegn henni og sem betur fer þá gefst hún fljótt upp. Ég segi það ekki, einstaka sinnum nær hún mér og ég byrja þá að efast um sjálfa mig og kvíðaskalinn hækkar, en bara í smá stund.

 

VERKFÆRAKISTAN MÍN

Í gegnum ,,mína leið upp“ í lífinu þá hef ég öðlast mörg „verkfæri“. Hvað hentar hverjum og einum er vissulega einstaklingsbundið en ég er enginn sérfræðingur og er alls ekki að reyna vera það, ég er búin að vera dugleg og er enn dugleg!

„Mín leið upp“ hófst svona meðvitað myndi ég segja árið 2003. Sú vinna hefur verið fjölbreytt og í gegnum hana hef ég fengið verkfæri út frá reynslum annarra, sem og fundið mín eigin.

Í minni verkfærakistu eru t.d. þakklætislistar sem ég hef skrifað í gegnum árin, draumalistar, skipulagsbækur, tónlist, rútína, nöfn þeirra sem ég treysti og get leitað til, dagbók, hugleiðsluöpp, æðruleysisbænin, 12 spora fundir, göngutúrar, vítamín, ilmkjarnaolíur, quotes, uppbyggjandi lesefni, heklnál og garn, aðgangur í ræktina, kerti, hugarkort og melatonin svo eitthvað sé nefnt.

En allt eru þetta dæmi um „verkfæri“ sem henta mér vel þegar ,,Ragga ráðríka“ er að reyna stela sviðsljósinu, dansandi og gólandi á öxlinni á mér.

EN OK, AFTUR AÐ VERKEFNINU ,,MÍN LEIÐ UPP“

Það má því segja að aðdragandi þessa verkefnis sé í raun ,,mín leið upp“. Allt frá bernsku og til dagsins í dag hef ég alltaf vitað að ég vildi ná til fólks og hjálpa því að líða vel. Námið mitt við tómstundafræði hjálpaði mér að átta mig á því með hvaða hætti ég gæti gert það.

Ég er með stóra drauma um þetta verkefni. Markmiðið er að skapa vettvang sem ég hefði viljað hafa aðgang að, bæði á tímum þar sem ég sjálf þurfti aðstoð og á þeim tímum þar sem ég gat gefið af mér. Ef það er eitthvað sem ég hef lært þá er það að: „saman erum við sterkari“ og „enginn getur allt en allir geta eitthvað“.

Móttökurnar hafa verið frábærar, ég finn fyrir mikilli hvatningu og er það mér mikilvægt að vanda til verka. En ég áttaði mig fljótt á því að það væri í mörg horn að líta til þess að geta látið svona draum verða að veruleika og að það sé raunverulega tekið mark á því.

Nú þegar hef ég fengið frábæra einstaklinga til liðs við mig og við erum að tala um virkilega flotta einstaklinga, fagaðila sem vilja gera þennan vettvang að veruleika.

Hvert þetta verkefni mun fara veit ég ekki en það er mörgum spurningum ósvarað ef ég á að vera hreinskilin En ég veit að nú þegar hefur þetta verkefni gefið mér sem og mörgum öðrum helling. Ég hlakka til þegar þær reynslusögur fara detta inn.

,,Mín leið upp“ vettvangurinn er hugsaður fyrir þig svo að þú getir mögulega stytt „þína leið upp“ út frá reynslusögum annarra, fjölbreyttri verkfærakistu, námskeiðum, fyrirlestrum og hlotið ráðgjöf fagaðila – þér að kostnaðarlausu.

 

UPPHAF ALLRAR DRAUMAVINNU ER AÐ ÁTTA SIG Á HINDRUNUM SÍNUM

Hindranir okkar eru mismunandi og verða til vegna ólíkra upplifana, aðstæðna eða atburða. Oftast þó vegna einhverrar reynslu sem reyndist okkur erfið eða jafnvel óyfirstíganleg. Hindranir geta einnig tengst andlegum og líkamlegum sjúkdómum, hvort sem við þekkjum þá eða ekki. Að bera kennsl á það sem er að hamla okkur er ekkert endilega rosalega auðvelt og einfalt. Það krefst skuldbindingar og mikils hugrekkis.

Í gegnum árin meðal fjölskyldu minnar, vina og kunningja hef ég ósjaldan fengið að heyra það að ég sé svo hugmyndarrík, lausnarmiðuð og hvetjandi. Fyritæki hafa verið stofnuð, fólk hefur farið í háskólanám, tekið af skarið og sótt um stöðuhækkun, sótt um draumastarfið og losnað úr fjármálavanda svo eitthvað sé nefnt.

Á meðan ég var að hvetja aðra áfram þá skorti mig samt trúna á sjálfa mig, að ég gæti líka gert eitthvað frábært. Inni í mér vissi ég vel að draumurinn var að hjálpa fólki þó svo að ég hafi þurft hjálpina sjálf lengi vel. Vissulega koma dagar þar sem ég þarf á hughreystingu að halda og fá lánaða dómgreind, en í dag vekur það ekki hjá mér stjórnlausan ótta og yfirbugandi tilfinningu af skömm og sektarkennd.

Í dag leyfi ég mér að dreyma stóra drauma, kanski stundum óraunhæfa – en það er samt ótrúlega gaman og gott að finna það að ég óttast ekki draumana mína.

Ég á rétt á þeim og ÞÚ LÍKA!

Kæri lesandi,

Það er mín von að vettvangur MLU muni koma þér að góðum notum, að reynslusögur annarra, verkfærakistan og sú fræðsla og ráðgjöf sem fljótlega verður í boði mun efla þig og styrkja í ,,þinni leið upp“

Takk fyrir að sýna MLU áhuga. Mundu að vettavangurinn er okkar sameiginlegi vettvangur. Að því sögðu langar mig að biðja þig um að vera óhrædd/óhræddur við að senda á okkur fyrirspurnir og/eða ábendingar um hvað þú myndir vilja sjá á heimasíðunni.

 

Hlýjar kveðjur,

Fanney Marín


Facebook


Instagram