Daria.is

Ég heiti Jóhanna Ósk Þorsteinsdóttir og er fjörutíu og eins árs suðurnesjamær. Ég er gift Ómari Jökli Ómarsyni, við eigum tvo syni, sá eldri er átján ára og sá yngri er 12 ára.

Mig langar til þess að deila minni sögu af því hvernig ég lét draum minn rætast með því að hefja eigin rekstur og vona að mín reynsla hvetji aðra til þess að elta sína drauma, þó svo að það geti verið erfitt á köflum þá er er mín reynsla sú að það er svo sannarlega þess virði.

Í mörg ár hef ég verið að kljást við kvíða og er ég líka greind með vefjagigt. Þetta var farið að hamla mér verulega í mínu daglega lífi og sótti ég um að fara í starfsendurhæfingu hjá Virk árið 2015. Í endurhæfingunni fékk ég hjálp sálfræðings til þess að vinna í minni andlegri líðan og styrktist ég mikið við það.

Alltaf haft mikinn áhuga á snyrtivörum

Í apríl árið 2016 skellti ég mér í sólina á Tenerife. Þar kom sú hugmynd til mín að opna netverslun, með snyrtivörum. Nei nei ég er ekki neitt menntuð innan þess bransa og hef ég heldur enga reynslu né menntun innan fyrirtækjareksturs heldur. En…ég hef alltaf haft mikinn áhuga á snyrtivörum.

Hausinn fór á flug, ég fór á fullt að skoða hvaða snyrtivörur gætu verið spennandi að selja, hafði samband við heildsölur erlendis og svo fórum við hjónin á fullt að búa til heimasíðu, en Ómar er einstaklega klár í öllu svoleiðis og gerði hann síðuna nánast einn. Við tókum á leigu litla skrifstofu og vorum með lagerinn þar til að byrja með. Heimasíða Daríu fór svo í loftið viku fyrir verslunarmannahelgi og létu viðbrögðin ekki á sér standa.

Við sáum tækifæri til þess að stækka verkefnið enn frekar og tókum við þá ákvörðun að opna verslun. Verslunin Daria opnaði í september eða nánara tiltekið á ljósanótt 2016, í litlum kjallara á Hafnargötunni í Keflavík og gekk það vonum framar.

Stuttu eftir það fluttum við svo verslunina í stærra húsnæði, innréttuðum það mjög flott eftir okkar eigin höfði og naut verslunin Daría sig vel þar, í um eitt og hálft ár en þá var húsnæðið sett á sölu og þurftum við því að finna annað húsnæði.

Þá fluttum við í Fjörðinn í Hafnarfirði og erum við búin að vera þar núna í tæp tvö ár. Daria stækkaði enn meira en við tókum inn fatnað líka sem sló algjörlega í gegn.

Mikil vinna og kostnaðarsamur rekstur

Þrátt fyrir að reksturinn hefur farið fram úr öllum væntingum, þá hefur þetta samt ekki allt verið dans á rósum. Ég hafði aldrei gert neitt svona áður og var því að stíga langt út fyrir minn þægindaramma. Kostnaðurinn var mjög mikill í upphafi sem og álagið. Ég var mestmegnis að vinna sjálf þegar ég byrjaði með verslunina og þurfti einnig að passa vel upp á að vera með góðan lager og mikið vöruúrval.

Gamli góði kvíðapúkinn reyndi reglulega að draga úr mér, sagði við mig að ég væri ekki nógu góð til þess að vera í þessum bransa. En mín helsta hindrun í lífinu hefur verið lélegt sjálfstraust, alveg síðan ég var krakki. Það reyndist mér oft erfitt á köflum og skal ég alveg viðurkenna það að ég var stundum við það að gefast upp. Ég hafði tök á að ráða inn starfsmann eftir ca sex mánuði, sem var algjörlega nauðsynlegt, en ég var farin að finna verulega mikið fyrir kvíðanum aftur og greindist ég með ofsakvíða. Ég leitaði mér læknisaðstoðar og hef náð góðum tökum á þessu aftur. Árið 2017 skellti ég mér svo í förðunarnám sem án nokkurs vafa gaf mér smá boost í sjálfstraustið.

Framtíðin er björt

Núna fjórum árum seinna er ég með starfsmann í fullu starfi á meðan ég er meira bak við tjöldin að sinna vöru pöntunum. Það er mikil samkeppni í þessum bransa en við tæklum það held ég bara vel, við reynum að hafa puttan á púlsinum eins og maður segir. Ég er einnig andlit Daríu og reyni að vera sýnileg á samfélagsmiðlum, því það hefur reynst okkur besta auglýsingin.

Framtíðin er björt og sé ég fram á að vera í þessu áfram um ókomin ár. Ég held að lykillinn að því að komast í gegnum þær hindranir sem koma hverju sinni er að fá lánaða dómgreind og/eða vera óhrædd við að leita okkar aðstoðar. Ef Daría hefur kennt mér eitthvað þá er það að draumar geta svo sannarlega ræst, við verðum að sýna þrautseigju og hugsa í lausnum! Síðast en ekki síst….engin getur allt, en allir geta eitthvað. Vinnum saman og hjálpumst að. Andlegt jafnvægi er lykilatriði – hlúum að andlegri heilsu með því að deila verkefnunum niður í viðráðanlega búta, passa upp á svefninn og horfa yfir daginn í lok dags og minna okkur á að það var bara fullt fullt sem gekk vel


Facebook


Instagram