Draumavinna

Kæri Lesandi,

Ekki vafðist það neitt fyrir mér þegar ég var lítil stúlka að skrifa niður jólagjafa óskalista. Spáði ekkert í því hvernig foreldrar mínir ætluðu að redda Barbie bílnum sem mig langaði svo í eða hvernig þau ætluðu nú að fjármagna hann. En ég sá bílinn svo skýrt fyrir mér, ég meira að segja sá mig fyrir mér opna hann, hoppa af gleði og knúsa foreldrana mína takk fyrir, besta við þennan draum er að hann rættist.

Svo varð Fanney litla unglingur og reyndist það henni erfitt verkefni að byggja upp jákvæða sjálfsmynd, fann fyrir miklu óöryggi, var með lítið sjálfstraust og afar lélega líkamsmynd. Þetta hafði í för með sér þunglyndi, kvíða, óheilbrigðum matarvenjum og samskiptaerfiðleikum svo eitthvað sé nefnt. En þessu tímabili og þessa líðan fjalla ég m.a  um í pistlinum ,,ómeðhöndlað adhd“.

Draumavinna

Draumavinna má og á að vera skemmtileg en henni fylgir líka áskorum, sérstaklega ef við höfum verið að takast á við einhverja innri púka, sem vinna hörðum höndum að því að fá okkur til að efast um okkur sjálf. Fyrsta skrefið í allri draumavinnu er sjálfsskoðun og heiðarleg sjálfsskoðun krefst hugrekkis. Aðeins af því loknu erum við fær um að setjast niður og skipuleggja næstu skref. kanski er ég að alhæfa – en sú er a.m.k. mín reynsla.

Hvað erum við að tala um stóra drauma? Hverju tengjast þeir? Hvað er að stoppa okkur í því að láta vaða?

Leyfðu þér að dreyma stærri drauma en aðrir telja skynsamlegir. Við þurfum ekki að vera vel stæð fjárhagslega, tilheyra öflugu tengslaneti eða hafa lokið háskólaprófi. Draumarnir þurfa heldur ekki að vera fullmótaðir eða 100% skýrir til þess að við megum byrja vinna í áttina að þeim. Við þurfum ekki, eða frekar heldur – við getum ekki með nokkru móti vitað útkomuna. En til þess að hámarka líkurnar á því að ná árangri og að draumarnir rætast, þá þarf að kortleggja þá.

Draumar án markmiða – eru og verða áfram bara draumar

Farsæl markmiðasetning felst m.a. í því að hámarka tímastjórnun, tileinka okkur jákvætt hugarfar og búta niður markmiðin í lítil skref. Skrefin eru ólík og sum þeirra felast í því að stíga út fyrir kassann okkar, taka áhættur og gera mistök. Óhjákvæmilega þá koma hindranir og beygjur sem eru svo krappar að við varla náum að halda jafnvægi, en það er allt í lagi.

Ef þú gerir aldrei mistök – þá hefur þú aldrei reynt neitt nýtt!

Hvað ætlaru að verða þegar þú verður stór?

Við Ari (maðurinn minn) fluttum bæði ung af heiman, eða fyrir 17 ára aldur. Þegar við byrjuðum saman fyrir rúmum 23 árum síðan þá vorum við hvorug búin að mennta okkur og vorum þar af leiðandi bæði í þessum hefðbundnu láglaunastörfum eins og maður segir. Ég starfaði sem ,,búðakona“ eins og mig dreymdi um að verða þegar ég var barn og Ari vann sem ,,bílakall“ eða hjá Vöku – eins og honum hafði dreymt um að gera líka sem lítill drengur.

Vissulega hafa draumarnir um hvað okkur langaði að verða þegar við yrðum stór, breyst samhliða ólíkum tímabilum í lífi okkar og þeim ábyrgðarhlutverkum sem við tókum að okkur, eins og foreldrahlutverkið og að ganga í hjónaband.

Við hjónin erum bæði með ADHD – og skorum talsvert hátt í öllum viðmiðum greiningapappíra. Hvatvísi er eitt af mörgum einkennum ADHD sem og kvíði og samskiptaerfiðleikar. Jú jú, við erum með þessi einkenni…en fyrstu árin okkar saman, ok ég skal ekkert skafa af því, fyrstu ca tuttugu árin, þá vóg hvatvísin þyngra en nokkur önnur einkenni og gerðum við hreinlega allt sem okkur datt í hug, við fluttum erlendis oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, við byggðum einbýlishús frá grunni, stofnuðum fyrirtæki, byrjuðum í allskonar spennandi námi, svo eitthvað sé nefnt. Skemmtilegt að segja frá því að við hvorki eigum þetta einbýlishús né fyrirtæki í dag og nei, hvorugt var selt með hagnaði, þvert á móti.

,,Hættu að skammast þin“ – SKREF 1

En af hverju er ég að segja frá þessu? Hvað kemur þetta draumavinnu við? Jú, vegna þess að ég hef lært að grunnurinn að því að geta haldið óhikað áfram, leyft mér að dreyma aftur þrátt fyrir að hafa gert mistök og sett mér ný markmið að þá er mikilvægt að læra þykja vænt um söguna mína, sýna henni skilning og virðingu. 

Við Ari vorum oft hugrökk og tókum margar áskoranir en okkar helsta villa var sú að við bara gerðum eitthvað, það var ekkert til sem hét skipulag né markmiðasetning heldur var hugarfarið bara,,þetta reddast allt saman og erfiðið er allt þess virði“, jú jú – alls ekki slæmt hugarfar svo sem, en það voru engin plön þarna á bakvið önnur en bara að krossa fingur og vona að allt gangi upp.

Það fóru mörg ár að velta mér upp úr öllu því sem mér eða okkur Ara hefði ,,mistekist“. Ég gleymi seint 25 ára afmælisdeginum mínum. Við Ari bjuggum í kjallaraíbúð í árbænum, dóttir okkar var rúmlega þriggja ára gömul og sonur okkar tveggja vikna. Yfir mér var stórt svart ský. Hvernig ég talaði til mín þennan dag er eitthvað sem ég hef ákveðið að festa ekki á blað.

Ég var buguð af skömm og sektarkennd. Full af gremju og sorg. Hvers vegna mér leið þannig voru margar ástæður fyrir og vissulega voru sumar þeirra óraunhæfar og ósanngjarnar kröfur og væntingar til okkar Ara, byggðar á fljótfærni og óskynsemi á meðan aðrar ástæður mætti rekja til dýpri þátta.

Þennan dag, á 25 ára afmælisdaginn minn áttaði ég mig á því að staðurinn sem ég var komin á var í raun lífshættulegur. Hverjar svo sem ástæðurnar voru fyrir þessari miklu vanlíðan minni, þá áttu þær allar ,,rétt á sér“. Í dag veit ég að það er hreinlega dónaskapur og ótillitsamt að halda öðru fram.  

Allskonar

Lífið er allskonar, við erum alskonar og aðstæður okkar eru allskonar. Lífið er byggt upp af allskonar tímabilum með allskonar áskorunum. Já ég er að segja allskonar mjög oft…vegna þess að þegar ég áttaði mig á hversu mikilvæg og góð lýsing ,,allskonar“ er, þá upplifði ég mikið frelsi.

Vissulega fóru mörg plön á annan veg en við sáum fyrir okkur. En það hafa líka margir draumar ræst sjáiði. Við eigum innihaldsríkt hjónaband, með ups and downs eins og gengur. Við erum frábærir foreldrar, eigum heilbrigð samskipti við fólkið í kringum okkur og erum heilsuhraust.

Árið 2016 lauk Ari námi í tæknifræði, en skólaganga hans tók í heildina 6 ár samfleytt, þar sem hann þurfti að byrja á því að fara í grunnmenntaskóla MSS,   þaðan í háskólabrú og svo í háskólann. Hann massaði þetta nám! En það tók alveg blóð, svita, tár, námslán, yfirdrætti, fjölskylduhjálp, sálfræðing, hjónabandsráðgjöf ..svo eitthvað sé nefnt.

Ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa til dagsins þegar hann útskrifaðist, þvílíkur sigur fyrir hann og okkur sem fjölskyldu. Í dag er hann meðeigandi fyrirtækis sem hann hóf störf hjá eftir námið sitt, með fínar tekjur og gefur sér tíma til að sinna áhugamálum sínum.

Árið 2019 urðum við svo aftur íbúðareigendur, keyptum okkur nýuppgerða íbúð að Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá tilheyrir Ásbrú gamla hersvæðinu í Keflavík. Íbúðirnar eru stórar og bjartar og verðið það sem við treystum okkur að fara út í á meðan við erum m.a. að klára nám og taka til.

Hvað svo?

Þetta byrjar allt og endar hjá okkur sjálfum, hversu oft höfum við heyrt þetta, kannastu ekki við þessa setningu? Ég er viss um það!

Ég hef áður deilt því með ykkur að það varð mikil sjálfsvakning hjá mér þegar ég fór á námsskeiðið hennar Katrínar Garðarsdóttur ,,draumar og drekar“ , þetta var árið sem ég var í starfsendurhæfingu..eitthvað í kringum 2014-2015 ef ég man rétt. En segja má að líf mitt tók stakkaskiptum eftir þetta námskeið, og í kjölfar endurhæfingarinnar fór ég að kenna námsskeiðið samhliða Kötu, hversu frábært! En…nú kemur þetta EN!

Það stóð þó ekki lengi….jú, mér leið svo sannarlega betur en púkinn á öxlinni minni, sem ég hef sagt ykkur frá í fyrri pistlum, hún Ragga ráðríka – tók ennþá mikið pláss og lagði mikla orku í að telja mér trú um að ég væri ekki nóg og hún náði til mín, ég trúði henni.

Við Kata höfum alltaf haldið samband og reglulega gælum við við þá hugmynd að skapa eitthvað saman eða að ég jafnvel fari að kenna hjá henni aftur. Við döðruðum síðast bara við þá hugmynd í lok síðasta árs og tókum við ákvörðun um að ég skyldi sitja námsskeiðið aftur, svona til upprifjunar.

Námsskeiðið reyndist mér enn og aftur ómetanlegt, en í þetta skiptið upplifði ég svona hallelujah móment eins og maður sér í bíómyndum bara, get eiginlega ekki lýst því…en ég fann að ég var loksins búin að taka söguna mína í sátt, ég fann að skömmun mín var farin, hversu mikið frelsi! Það var yndislegt og lærdómsríkt að vinna fyrir Kötu hér áður og hlakka mig því mikið til frekari samstarfs með þennan sigur á bakinu, núll skömm og sektarkennd!

Allskonar – seinni hluti

Sjálfsvinna er líka allskonar, já ég ætla halda aðeins áfram með ,,allskonar“. Það sem hentar mér hentar ekki endilega þér, því ég er ég og þú ert þú. Við erum allskonar. Eitt af markmiðum okkar með þessum vettvangi er að koma með allskonar sögur og allskonar tillögur að lausnum og úrræðum.

Ég hef lært að draumarnir mínir breytast reglulega. Það sem draumarnir minir snúast um í dag á að öllum líkindum eftir að breytast í takt við mínar aðstæður, þroska og líðan hverju sinni. Það er eðlilegt.

Til að gera langa sögu stutta, sem er eiginlega of seint…(orðið vandræðalegur langur pistill) þá getur draumavinna ekki hafist fyrr en við byrjum að þykja vænt um okkur sjálf og þá sögu sem við höfum að segja. Fram að því….skiptir álit annarra meira máli en okkar eigið..hvernig getur það verið okkar sannleikur og okkar draumur?

Mín leið upp vettvangurinn felst fyrst og fremst í að skapa umhverfi sem ýtir undir valdeflingu einstaklinga með því að deila með hvort öðru persónulegri reynslu okkar, áskorunum og lausnum.

Síðast en ekki síst ítreka ég eins og í fyrri pistlum að ,,Mín leið upp“ býður upp á þjónustu og ráðgjöf ólíkra fagaðila þér að kostnaðarlausu. Þú finnur ráðgjafana með því að ýta á flipann ,,ráðgjafar“ á forsíðu www.minleidupp.is

Sannarlega óska ég þess að ,,mín leið upp“ veiti þér innblástur og gott í hjartað. Á sama tíma vona ég að þú finnir kjark og þörf til þess að deila þinni sögu og hvetja mig og aðra áfram á móti. Því jú ,,saman erum við sterkari“.

Takk fyrir að lesa!

Hlýjar kveðjur, Fanney Marín


Facebook


Instagram

https://www.youtube.com/watch?v=tbnzAVRZ9Xc