Ég hef alltaf verið öðruvísi

by Agnes Barkardóttir

Að vera öðruvísi þarf ekki að vera neikvætt, alls ekki.

Öðruvísi þýðir í raun bara að þú passir ekki inn í svokallað normið – inn í kassann eða boxið sem þjóðfélagið og þegnar þess hafa búið til í gegnum árin.

Ég var strákaleg, mér þótti skemmtilegra framan af að leika í byssó með strákunum úti á plani en að vera í dúkkó með stelpunum.

Ég hef alltaf átt erfitt með að eignast vini – eða sko, ég átti alveg vini, en ég átti ansi erfitt með að lifa eftir þeirra væntingum. Ég var notuð og látin gera hlutina sem þau vildu ekki gera. Ég var notuð sem sendiboði á milli stelpnanna, sendast með skilaboð á milli þegar þær voru í fýlu útí hvor aðra. Þær bjuggu til sögur og sögðu mér frá til að athuga hvort ég gæti haldið leyndarmáli.

Ég sótti ekki í það að eiga kærasta, mig langaði ekkert að eiga kærasta. Stelpurnar áttu allar kærasta og skiptust á þeim eins og fatnaði. Mér þótti þetta bara asnalegt. En ég eignaðist ekki kærasta fyrr en löngu seinna.

Mér þótti ekki skemmtilegt að vera í leikjum eins og „kyss kyss og útaf“ og ég notaði ekki förðunarvörur. Ég var bara alveg eins og ég var.

Mér var mikið strítt, bæði í skóla og utan skóla. Strítt á mjög mörgu, ég var hávaxin og grönn, ég var stutthærð og ljót. Mér var strítt á svo mörgu öðru, sem ég ætla ekki að fara út í. Vinkonur mínar hlógu af mér þegar ég sagði eitthvað vitlaust, þær hlógu því ég var með hár á fótunum og undir höndunum. Ég var með exem sem þeim þótti hlægilegt og ógeðslegt.

En ég upplifði það ekki alltaf sem stríðni þá þó ég hafi alltaf verið mjög leið yfir þessu. En ég fékk þannig athygli og var ekki alveg ósýnileg.

Þessi stríðni sem ég varð fyrir sem barn og unglingur flokkast sem Einelti í dag, en það hugtak var ekki til þá (þó ekki svo mörg ár síðan).

Ef minningar segja mér rétt, þá hefur það verið eftir Reykjaskóla í 7. Bekk (12 ára) að ég byrjaði að reyna að „eltast“ við þessar tilteknu stelpur og væntingar þeirra til mín.

Þær voru vinsælar og áttu helling af vinum. Þær héldu sambandi við marga eftir Reykjaskóla en ekki ég. Mig langaði það líka en það gerðist ekki.
Mér leið illa og ég var einmana.

Ég fór byrjaði að vera með öðrum stelpum, þær voru í íþróttum. Það hentaði mér betur, þar gat ég verið ég sjálf – eða svona næstum því.

Við höfðum svipuð áhugamál, hlustuðum saman á Bítlana, stúderuðum Bítla bíómyndirnar, spiluðum fótbolta og létum eins og krakkar.

Ég var þó alltaf sú sem fór og spurði eftir, hringdi í þær eða reyndi að vera fyrst til að biðja þær um að leika eftir skóla. Höfnunin var svo vond þegar ég varð of sein og þær gátu ekki leikið eða voru með öðrum. Það á alls ekki eingöngu við um íþróttastelpurnar, hinar líka.

Þegar ég fór að eldast og fór í Víðistaðaskóla (8.-10.bekk) varð mér það algjörlega ljóst að ég var sannarlega ekki eins og aðrir. Ég var öðruvísi. Það var mjög erfitt að finna það og komast að því, á viðkvæmum aldri, strítt og skilin útundan.

Á þessum árum, viðkvæmu árum ákvað ég að fara aðra leið. Ég breytti um fatastíl og byrjaði að hlusta á gargandi rokktónlist. Ég fór að vera með krökkum sem voru ári yngri en ég. Með þeim gat ég verið öðruvísi í friði – í smá stund. Ég gekk í víðum buxum og stórum hettupeysum til þess að fela það hversu mjó ég væri, ég faldi andlitið með treflum eða hettupeysunni svo exemið sæist ekki, því það var í andlitinu og á hálsinum. Ég þurfti að fela það því það fékk ég mjög oft að heyra hvað það væri ljótt og mér var strítt á því.

Ekki batnaði það þegar líffræðikennarinn minn kallaði yfir allan bekkinn, því auðvitað sat ég aftast, og spurði hvort ég væri ekki með búlimíu. Ég bæri nefnilega þess merki.

…svo var nú ekki.

Á þessum gaggó árum dró ég mig í burtu frá öllum stelpum. Ég var bara með strákavinum því þeir stríddu mér ekki og ég gat verið ég sjálf.

Eftir grunnskólann fór ég allt aðra leið en allir hinir. Ég fór í framhaldsskóla í öðru bæjarfélagi því ég vildi fara burt frá þessum krökkum.

Í gegnum framhaldsskóla (sem ég kláraði aldrei) hélt ég engu sambandi við æskuvinina.

Enn þann daginn í dag, ef ég hitti fólk sem var með mér í bekk, árgangi eða skóla, þekkja þau mig ekki – heilsa allavega ekki. En ég þekki þau öll.

Það er sárt að hugsa til þess hversu erfið þessi ár voru. En þau mótuðu mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég er vitrari fyrir vikið og hef enn betri skilning á aðstæðum þeirra sem hafa verið á svipuðum stað.

Þessi færsla er orðin mun lengri en ég ætlaði mér í fyrstu svo ég læt staðar numið í bili.

Næsta færsla er strax komin í vinnslu, en ég ætla að segja ykkur frá minni vegferð í námi og starfi, frá framhaldsskóla árunum.

Ég veit að það eru mjög margir á svipuðum stað og ég var, þegar ég var barn.

Til ykkar vil ég segja – Ég skil þig!

… þangað til næst <3