Ekki aftur snúið-bara small eitthvað!

Ég heiti Aníta Gunnlaugsdóttir er 39 ára frá Njarðvík. Ég er gift honum Davor og saman eigum við einn son. Fyrir átti átti hann tvær dætur þannig að ég datt heldur betur í lukkupottinn. Við hjónin eigum einn lítinn ömmu og afastrák og er lítill prinsessa að bætast í hópinn líka. Mig langar að deila með ykkur minni sögu, hér kemur hún…

Alla mína ævi hef ég verið þessi þybbna stelpa, aldrei feit en þybbin en það átti sko eftir að breytast. Upp úr tvítugt byrja ég að fitna og svo enn meira þegar ég verð ófrísk af syni okkar Davor árið 2007 og áfram eftir að hann fæddist. Brjóstagjöfin gekk illa og bókstaflega grét fyrstu tvo mánuðina sem hjálpaði sko alls ekki mömmu hjartanu eða sjálfstraustinu.

Hvernig tókst ég á við þetta? Ég leitaði að sjálfsögðu í mat, jah eða kex eða hvað svo sem var til hverju sinni og nartaði í það á nóttunni þegar ég var að vakna með honum. Í hverri búðaferð var svo auðvitað gripið eitt súkkulaðistykki sem ég gat hakkað í mig á leiðinni heim. 

En svo fór þetta nú hægt og rólega aðeins batnandi. Ég fór aðeins að hugsa um sjálfa mig og byrjaði meðal annars að æfa. Mér fór að líða betur og þetta át minnkaði. Ég ákvað einnig að hætta reykja og guð minn góður þá fór allt niður á við. Upplifði í rauninni mikla sorg og mér leið bara eins og ég hefði misst bestu vinkonu mína og færðist sígarettu fíknin algjörlega yfir í mat. En ég hélt áfram að æfa og æfði ég af fullum krafti – hrikalega dugleg þar! En mataræðið var ennþá í algjöru rugli, fór til dæmis bara og fékk mér hamborgara og pepsi í hádeginu.

Árið 2016 gerðist eitthvað inni í mér. Vigtin sagði 127,8 kg! Aldrei á ævinni hafði ég verið svona þung. Ég vissi og fann að þetta yrði að breytast. 

Ég tók þá ákvörðun að skrá mig í Þitt Form í Sporthúsinu hjá Freyju Sigurðardóttur. Um er að ræða 6 vikna námskeið þar sem mætt er þrisvar í viku í tíma. Í upphafi og jafnframt í lok hvers námskeiðs hafa allir þátttakendur tök á því að fara í mælingar hjá Freyju (ummál – þyngd og fitu %) sem er ekki auðvelt en ég gerði það samt. Í minni fyrstu mælingu var ég 125,8 kg.

Þetta námskeið, þessi félagsskapur og þetta aðhald var akkurat það sem ég þurfti.

Vissulega hafði ég áður prófað allskonar kúra, átakskeppnir og verið dugleg í ræktinni en þó án þess að ná einhverjum massívum árangri. Þarna í Þitt Form var eitthvað sem bara small.

Hugarfarið mitt breyttist. Ég hætti að líta á þetta sem átak og ákvað að breyta um lífsstíl. Ég lærði að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup. Ég fór svo sem ekki á neitt sérstakt mataræði heldur tileinkaði mér heldur það hugarfar að allt er gott í hófi. Eftir þetta fyrsta námskeið skráði ég mig svo strax á það næsta og svo annað og annað.

Í dag eru liðin tæp fimm ár og eru 45 kg farin frá fyrstu mælingu í ágúst mánuði árið 2016.  Í maí árið 2017 hlaut ég svo verðlaun á árshátíð Þitt Form en ég hlaut titilinn mestu framfarir og peppaði það mig ennþá meira áfram og var ég hvergi nærri hætt. Árið 2019 fékk ég svo aftur verðlaun og hlaut þá titilinn Þitt Form meistarinn.

Það er ekki hægt að lýsa með orðum hversu mikil áhrif Þitt Form hefur haft á mig að svo mörgu leiti. Sjálfstraustið hefur stóraukist og hef ég til dæmis tekið fjórum sinnum þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og hef í hvert skipti náð að bæta tímann minn. Einnig hef ég alltaf haft gaman að spinning og í september árið 2018 skráði ég mig á spinning kennara námskeið hjá Fusion Fitnes Academy. Ég ákvað svo að fara skrefinu lengra og skráði mig í framhaldinu í hóptímakennaranám hjá Fusion Fitnes Academy. Þessu sé ég svo sannarlega ekki eftir og get ég státað mig af því í dag að hafa réttindi til þess að kenna spinning, hópatíma, ég má einnig vera með hópaþjálfun og fjarþjálfun!

Í dag kenni ég hópatíma og spinning í sporthúsinu. Einnig kenni ég nú námskeið með Freyju sem heitir Bætt heilsa og er sérstaklega hannað fyrir fólk sem er á þeim vonda stað sem ég var á árið 2016 og þurfa stuðning við það að koma sér af stað.

Hefði einhver reynt að segja mér fyrir fimm árum að ég yrði á þeim stað sem ég er i dag þá hefði ég aldrei getað trúað því og hefði líklega hlegið framan í viðkomandi. Ég er svo rík að eiga gott bakland og gott fólk að sem standa með mér í þessu. Vinir mínir, fjölskylda, þjálfarar og svo auðvitað eiginmaðurinn sem ávallt stendur eins og klettur við bakið á mér.

Ef þú ert að tengja eitthvað við söguna mína og þann lífstíl sem ég tileinkaði mér til margra ára þá vil ég að þú vitir það að það er hægt að komast út úr þessu.

Númer eitt, tvö og þrjú þá er mikilvægt að þú hafir viljann til þess, það er enginn að fara gera þetta fyrir þig  og þetta mun taka tíma. En góðu fréttirnar eru þó þær að það er hægt að skrá sig á svona frábær námskeið eins og til dæmis Þitt Form hjá Freyju eða námskeiðið Bætt Heilsa sem ég er að kenna ásamt Freyju og þannig verða með hluti af ómetanlegum félagsskap og stuðningi. Þetta gerist ekki á einni nóttu en þú getur þetta ef þú vilt það!

Ég hef lofað sjálfri mér því að ég ætla aldrei aftur á þennan stað. Ég mun aldrei vera svo vond við sjálfa  mig að leyfa mér að verða svona þung aftur því fyrir mig var þetta ekki bara útlitsbreyting, vissulega er hún stór plús.

En mikilvægasta breytingin er þessi andlega og líkamlega. Að koma hlutum í verk verður einhvern veginn einfaldara og skemmtilegra. Frá mínum innstu hjarta rótum get ég sagt að líf mitt hefur sjaldan verið betra. 

Þið getið fylgst með mér á Instagram @anitagunnlaugs (getið líka ýtt á logoið hér fyrir neðan)

Ef ykkur langar að skoða námskeiðið Bætt Heilsa hjá okkur Freyju – smellið þá á á eftirfarandi link.  Námskeiðið – Bætt Heilsa í Sporthúsinu Reykjanesbæ


Instagram