Lífið er Núna
Ég er búin að byrja þessa færslu oft en aldrei náð að klára hana..
Síðast þegar ég birti færslu var 30. júlí. Þá hafði ég íhugað það í nokkrar vikur hvort ég ætti að birta hana, sem ég augljóslega gerði. Þið getið lesið hana Hér!
Viðbrögðin voru vægast sagt mikil og góð. Ég fékk skilaboð og símhringingar úr öllum áttum bæði frá konum sem tengdu við frásögn mína og aðrar sem tengdu ekki, en vildu senda mér góða kveðju og hlýjar hugsanir. Fyrir það er ég ótrúlega þakklát.
Athuglisverðasta símtalið sem ég fékk var frá lækni á kvennadeild LSH. Hún hafði séð færsluna mína og vildi athuga með mig. Hún sagði ýmislegt í símtalinu sem ég átti erfitt með að átta mig á, en merkilegast var að hún sagði mér að ég ætti tíma í aðgerð nema hún vissi ekki hvar og hvenær, því ritarinn var í fríi.
Mér leið um stund eins og það væri verið að „þagga niður í mér“, þó það hafi ekki endilega verið raunin…
En ég fór í innskriftarviðtal þann 16. ágúst án þess að vita meira um ferlið. Þá fékk ég tíma í aðgerð. Aðgerðartíminn stóðst og var mér ekki rótt fyrr en mér var rúllað inn á skurðstofuna þann 25.ágúst sl.
Óvissan sem hefur fylgt mér í allt sumar var virkilega vond tilfinning. Fyrir manneskju eins og mig, sem þarf alltaf að vita hvað er framundan og geta gert ráðstafanir eða skipulagt tímann þá var þetta ferlega erfið bið. Ég hef sannarlega átt erfitt í sumar. Það er mjög erfitt að hafa það hangandi yfir sér í 2 mánuði – hvað þá heilt ár, hvort að þú sért mögulega, kannski, hugsanlega með krabbamein, en það getur samt enginn svarað því. Ekki bara vegna þess að svörin koma ekki fyrr en eftir aðgerð heldur þá voru allir í sumarfríi. Svo var covid… Þegar ég mætti í innskriftarviðtalið var ítrekað oft að ég ætti alveg eins að búast við því að aðgerð yrði frestað svo dagarnir frá 16.-25.ágúst voru hreint ömurlegir.
En aðgerðin er búin, hún gekk vel fyrir sig. Bandvefir og aðrir vefir inni í mér eru mjög viðkvæmir – hvað það þýðir veit ég ekki enn. Ég hef þó ekki fengið lokasvarið ennþá því það þarf að senda leg, legháls og eggjaleiðara í ræktun. En ákveðið var að taka eggjaleiðara líka því þeir eru gjarnir á að dreifa illa séðum frumum út í eggjastokka. Það á að taka 10 daga – 2 vikur að fá svar úr ræktun.
Ég er annars eftir atvikum ágæt, en mjög þreytt.
Ég fékk að liggja inni á kvennadeild í 2 nætur en þá var mér hent út – í bókstaflegri meiningu.
Stelpurnar á kvennadeildinni voru upp til hópa alveg dásamlegar og stjönuðu í kringum mann. Þar til á föstudagsmorgun þegar fröken morgunfúl mætti í vinnu, alveg einstaklega úrill og reif frá öll skilrúm svo ég lá þarna úti á miðju gólfi eins og illa gerður hlutur. Fyrr um morguninn hafði ég rætt við deildarlækni og sérlækni sem sögðust ætla að taka stöðuna á mér þennan daginn og ef ég væri í lagi, gæti ég farið heim um kvöldið eða laugardagsmorguninn.
Frk. Morgunfúl hafði greinilega ekki lesið skýrsluna mína því hún sagði mér að fara, hún þyrfti að nota plássið mitt – helst núna. Hún sagðist ætla að panta pláss fyrir mig á sjúkrahótelinu en ég sagði það óþarfa því ég byggi nú í Hafnarfirði og gæti þá alveg eins farið heim til mín frekar en að taka herbergi frá einhverjum sem þyrfti frekar á því að halda.
„Bíddu áttu ekki börn, ertu ekki hrædd um að þau sjái þig svona kvalna af verkjum?“
Ég svaraði því að mér þætti lágmark að starfsfólk væri sammála um aðgerðir því ekki læsi ég hugsanir. Hún rauk (bókstaflega) í burtu.
Fyrir utan það (sem ég sagði nú ekki) að ef ég væri hrædd um að börnin sæu mig kvalna, af hverju er hún að senda mig heim svona kvalna?
Anyways.. Ég er búin að vera heima núna í nokkra daga og er að koma til. Ég er betri með hverjum deginum þó þreytan sé mjög mikil og orkan engin.
Ég næ að rölta nokkrar ferðir um húsið áður en ég þarf að leggjast aftur.
Eitt skref í einu – Einn dag í einu.
Ég er þá allavega laus við óþarfann inni í mér þó ég eigi eftir að fá endanlegar niðurstöður um innihald óþarfans. En ég hef ekki lengur svona slæma tilfinningu fyrir þessu.
Mér er létt – ó svo létt..
Hey – ADHD muniði – vá hvað ég varð svekkt þegar ég googlaði hvað venjulegt leg er þungt. 40 grömm!? What? Oh ég var að vonast eftir miklu meira, kannski kíló eða eitthvað.
Svo ég er ekki léttari á vigtinni, þó ég sé léttari á lund og í andlega kerfinu mínu.
Aftur vil ég þakka ykkur fyrir hlýhug og kveðjur – þær hafa iljað mitt annars leiðinlega sumarfrí.
Við skulum öll reyna að muna að Lífið er Núna, ekki á morgun eða í næstu viku.
Það er NúNa og njótum þess. Gerðu það sem þig langar! Gerðu það sem þú vilt! Skildu eftir þig bros á vörum annarra, eltu drauma þína, ekki eyða dýrmætum tíma í fýlu eða ósátt/ur.
Þú veist aldrei hverju framtíðin kastar frá sér, svo það er mikilvægt og gott að njóta lífsins.
– XOXO –
Agnes