Er ég með krabbamein? eða er ég móðursjúk?

by Agnes Barkardóttir

Þann 6. júlí 2020 fór ég í leghálsskimun eins og konur eiga að gera. Ég hef alltaf farið í skimun hjá kvensjúkdómalækni því mér finnst það þægilegra. Ég gekk þaðan út með það á hreinu að allt væri eins og það ætti að vera – enda ekki ástæða til að halda annað. 

Tíminn leið og ég heyrði ekkert fyrr en í desember þegar ég fæ bréf inn um lúguna hjá mér um að ég ætti að fara í eftirlit 6 mánuðum eftir síðasta eftirlit því það fundust frumubreytingar. 

Mér þótti þetta frekar skrítið að fá bréf 6 mánuðum seinna sem þýddi að ég þurfti að fá tíma strax. 11. janúar fékk ég svo tíma aftur og læt taka annað strok. 

Um það leyti byrja ég að heyra fréttir og frásagnir annarra kvenna um það rugl sem hefur verið viðloðandi krabbameins skimanir hjá konum. Ég veitti því ekkert sérstaklega athygli en fylgdist með á hliðarlínunni. Svo leið tíminn og ég beið – og beið. Hringdi í lækninn til að athuga niðurstöður og þá sagði hann mér fra þessum nýju aðferðum ss að sýnin séu send til Danmerkur.

Janúar leið – febrúar leið – mars leið og ekkert að frétta.

Þann 26. apríl kl.18 á afmælisdegi mannsins míns fæ ég hringingu frá lækninum mínum sem spurði mig hvort ég hefði ekki fengið skilaboð á island.is? Nei Nei, ég hafði ekkert heyrt. Við vorum á leið út að borða með fullan bíl af fólki, svo ég var svolítið annars hugar og reyndi að láta þetta símtal sem minnst á mig fá. Læknirinn var sjálfur virkilega reiður og blótaði kerfinu og sagðist taka þetta í sínar hendur. En það fundust frekari frumubreytingar og ég þurfti að fara í leghálsspeglun. Hann sendi mig áfram til sérfræðings á Domus Medica og fékk ég tíma 11. maí kl.17. 

Sérfræðingurinn gerði speglun og segir mér að hann sjái þarna bletti sem hann þyrfti að skera úr og senda í ræktun. Hann skar tvo bletti úr leghálsinum. Ræktun átti bara að taka viku og ég fengi svar innan vikutíma. 

10 dögum, nokkrum kvíðaköstum og símtölum síðar hringdi hann. Föstudaginn 21. maí kl.17.

Sæl þú þarft að fara í keiluskurð, ég sendi beiðni á LSH, gangi þér vel”. Ég – eðlilega í sjokki fékk ekki færi á að spyrja neinna spurninga, enda maðurinn eflaust að drífa sig í helgarfrí. 

Við tóku langir dagar af bið. Ég beið og beið eftir símtalinu frá LSH um tíma í keiluskurð. Þremur vikum seinna eða 11. júní fékk ég tímann. Guð hvað ég var kvíðin, stressuð og hrædd. Sjálf aðgerðin gekk vel fyrir utan óþægindin sem þessi skurður var. Jæja – þá var það allavega búið og búið að skera í burtu þessar ljótu frumur sem áttu ekki að vera þarna. 

Á þessum tímapunkti í frásögninni er kannski ágætt að segja frá því að í mörg, mörg ár hef ég beðið um að láta fjarlægja í mér legið. Ástæða: Margra ára slæmt migreni, miklar blæðingar áður fyrr ásamt því að ég hef alltaf haft mjög slæma tilfinningu fyrir þessu líffæri – m.a saga um krabbamein í fjölskyldunni. 

Í hvert skipti sem ég hef nefnt þetta við lækna  já hef oft nefnt þetta – þá er bókstaflega hlegið af mér. Það er mjög niðurlægjandi því ég bara veit að það er eitthvað og ég vil bara losna við þetta líffæri. Nei og aftur nei, það verður ekki gert. “Við tökum aldrei heilbrigt líffæri sem þjónar konum og hormónum og…”

Já EN ég VEIT bara að það er eitthvað ekki eins og það á að vera! “Nei!” Var svarið alltaf.

Strákarnir minir ákveða að skella sér til Tenerife bara tveir því ég mátti ekki fljúga eftir keiluskurðinn. Þarna var sko heil vika sem ég gat notið mín, unnið og haft það súper næs.

Þeir fóru a miðvikudegi 16. júníFöstudaginn 18. júní, rétt eftir hádegi fékk ég símtalið. 

Skurðlæknirinn sem framkvæmdi keiluskurðinn hringdi. “…Því miður greinist enn meira hjá þér þú þarft að fara strax í legnám!”. Hún gaf sér góðan tíma til að spjalla við mig og sagði mér nafnið á þessu “meira” sem væri þarna og sagði það góða hugmynd að googla það til að fá nánari skilning á þessu “meira”. Ég spurði eðlilega hvenær ég ætti tíma í legnám og svarið var “ég veit það ekki, það er mannekla, það vantar skurðhjúkrunarfræðinga og svo eru sumarfrí” HA? Sagðir þú ekki að ég þyrfti að fara strax?! “Jú, en…” Frábært!

Ég fékk algjört sjokk, ég hrundi, heimurinn hrundi! Alein heima og allt sumarið framundan og ég með eitthvað óvelkomið grasserandi inni í mér. Og nú átti ég bara að bíða… Aftur!

Eins og læknirinn sagði, þá googlaði ég þetta meira“ og þá fékk ég (óstaðfest) skilning á þeim óbærilegu verkjum sem ég hef verið að díla við allt þetta ár. Verkir sem hafa verið slæmir í mörg ár ásamt öðrum kvillum, en óbærilegir i marga mánuði. Þeir eru nákvæmlega eins og lýsing á því þegar krabbamein er komið á 3ja stig í legi. Þrýstingur aftur í endaþarm og rófubein og taugar þar i kring, taugaverkir niður eftir lærum og upp í bak. Jahá, Great!

Þessir verkir koma i veg fyrir að ég geti hreyft mig, ef ég fer i göngutúr þýðir það að ég þarf að liggja restina af deginum i lyfjamóki til að lifa verkinn af. Ef ég á góðan dag þá er næstum garanterað að næsti dagur er það ekki.

Er þetta rétt skýring á verkjunum? Ég veit það ekki, enginn læknir hefur getað fundið út hvaða verkir þetta eru, alveg sama hvaða myndatöku eða rannsókn ég fer í. Alltaf svarið að það sé ekkert að sjá eða finna.

Mín upplifun: “Þú ert móðursjúk, hættu að væla og taktu parkódin forte, ég ætla að senda þig i endurhæfingu á Reykjalund.”

Ég bíð enn… ég á viðtal á LSH 16. ágúst. En ég hef ekki fengið tíma í legnám. Hvort hann komi í þessu viðtali, verður bara að koma í ljós en ég hef allavega fundið út úr því að það hefur nákvæmlega ekkert uppá sig að hringja á spítalann til að fá upplýsingar, reka á eftir tíma, eða nokkuð annað.

Ég er i grunninn með þunglyndi og kvíða síðan ég var krakki og tiltölulega nýgreind (5 ár ca) með áfallastreituröskun eftir mörg áföll. Ég er líka með vefjagigt og adhd. Meingölluð að stórum hluta EN ég er samt mjög góð manneskja með miklar tilfinningar og langar ekkert eins mikið og að lifa eðlilegu lífi.

Síðastliðið ár hefur verið mér erfitt, mjög erfitt. Ég á erfitt með að finna gleði í aðstæðum en reyni. Ég finn hvað þunglyndið hefur tekið á mig og á ég í fullu fangi með að halda því í skefjum. Mér líður alltaf eins og ég sé að væla – íþyngja öðrum – ég einangra mig og reyni eftir bestu getu að forðast samskipti þegar mér líður illa. 

Trúðu mér, ég á heila bók af afsökunum.

Ég get ekki lýst því hvað ég er reið, sár, gröm, kvíðin og þegar þetta hellist yfir mig stundum daglega, er ég hrædd. Hvað er í gangi? Er ég með krabbamein? Eða er ég bara móðursjúk?

Takk fyrir að lesa þetta. 

Það var gott að koma þessu loksins á blað – því þetta er ekki tabú og þetta er ekki leyndó. Það má og það á að tala um það sem liggur manni á hjarta og líka þegar það er erfitt