Fljótandi í þyngdarleysi sjávar

Að vera fljótandi í þyngdarleysi sjávar. Synda áreynslulaust áfram þar sem takturinn í sundtökunum og andardrættinum er eins og hugleiðsla. Mitt inni í náttúrunni með lífríki sjávar, gróðurinn, krossfiskana, fiskana og fuglana (jafnvel seli) allt umlykjandi er einfaldlega bara besta tilfinning í heimi – hið fullkomna FLOW. Og fá svo lífeðlisfræðilegu heilsuáhrif kuldans – gleðihormón og bólgueyðandi viðbrögð í kaupbæti hefur gert líf mitt á allan hátt betra.

Eftir nokkur ár sem einstæð móðir með vefjagigt, með miklum höfuðverkjum og lamandi þreytu, sem vann allt of mikið til að reyna að halda lífinu saman krassaði ég árið 2014. Við tók alls kyns endurhæfing hjá Virk, Reykjalundi o.fl. Árangurinn var einhver, en alls ekki fullnægjandi. Vorið 2017 var ég komin með mikinn meðferðarleiða þar sem mér fannst öll áherslan vera á að horfa á það sem væri að og ég var komin með ógeð á að segja „leiðindasöguna“ mína hjá nýjum og nýjum aðila.

Ég ákvað að taka meðferðarfrímínútur í eitt ár.

Skráði mig í Skráði mig í diplómanám í Jákvæðri sálfræði, fór að stunda Akró og svo seinna silki loftfimleika með Akró Ísland og Húlladúllunni. Ég var á þeim tíma líka að æfa ólympískar lyftingar og stefndi á Heimsmeistaramót öldunga haustið 2018. 

Það sem var mikið örlagaaugnablik er þegar sjúkraþjálfari sonar míns, sem hafði snúið sig á ökla, bendir honum á að fara með fótinn í heitt og kalt bað til skiptir. Ég velti fyrir mér hvort þetta gæti lagað hausverkinn minn, reyndi að komast í kaldan pott, en liðamótin vildu einfaldlega ekki beygjast til þess að ég kæmist ofaní. Svo mikil kuldaskræfa var ég.

Sumarið 2017 tekst mér að bakka út í sjó og upp frá því að nota sjóinn eins og kaldan pott, en einnig notaði ég líka mikið heita og kalda potta í sundlaugunum veturinn 2017-2018 og tókst að ná höfuðverknum og mígreniköstunum að miklu leiti niður.

8. ágúst 2018 syndi ég í fyrsta sinn yfir Fossvoginn og þann dag týndi ég hjartanu í sjónum og frá þeim degi hefur sjórinn átt mig. Sjósund og kuldaböð geta aukið ýmis vellíðunarefni í líkamanum s.s. dópamín, noradrenalín og endorfín. Þessi efni hafa áhrif á andlega vellíðan og verki. Einnig hafa mælst jákvæða breytingar á bólgusvörun við köld böð. Og ég var svo sannarlega að finna þetta á eigin skinni áður en ég fór að lesa meira og kynna mér þetta.

Höfuðverkirnir eru horfnir og að heyra barnið sitt segja „mamma þú ert miklu skemmtilegri og ekki eins þreytt eftir að þú fórst að vera í sjónum“ er stórkostlegt. Síðastliðið vor, eitt að fyrstu sundunum þar sem ég gat synt með andlitið ofaní án hanska og sokka kom ég uppúr og sagði við vin minn „ég vildi að ég gæti leyft fólki að smakka þessa ótrúlegu vellíðunartilfinningu sem ég upplifi í sjónum“. Og mér hefur svo sannarlega orðið að ósk minni.

Í dag er það sem í upphafi var mín leið til að gera eitthvað skemmtilegt orðið starfið mitt. Ég er aðstoðarkennari á sirkusnámskeiðum, kenni ólympískar lyftingar, en það sem mér þykir vænstu um er að fá að kynna fólk fyrir sjónum og dásemdum hans og lækningarmætti.

Að fá tækifæri til að hjálpa fólki að yfirstíga ótta, gera eitthvað sem það vissi ekki að það gæti og sigrast á sjálfu sér er svo frábært. Að sjá gleðina og vellíðanina í andlitum fólks sem kemur með mér í sjóinn gefur mér svo mikið. Og að vera inni í náttúrunni, umlukin sjónum og náttúruöflunum, syndandi í fullkomnu flæði er Erna í kjarnanum sínum.

Sjórinn gaf mér nýtt líf, læknaði meinin, færði mér ógrynni af vinum og kærleika og tækifæri til að gefa af mér til baka.

Sundnámskeið Ernu

 

Og ef fólk vill heyra meira þá er til podcastviðtal um lengri leiðina.

  

 

Facebook


Instagram