Frá grunn- yfir í framhaldsskóla á tímum covid

Þegar Kórónuveirufaraldurinn skall fyrst á hér á landi vorum við flest öll krakkarnir spennt. „Þetta er eitthvað nýtt“, „Við fáum að sleppa skóla, hversu mikil veisla“, „Við getum sofið út á hverjum einasta degi“ hugsuðum við. En það var alls ekki þannig.

Ég man eftir því að við krakkarnir í bekknum fengum að horfa á blaðamannafund á meðan við unnum verkefni í samfélagsfræði. Við höfðum aldrei lært almennilega um faraldur, aldrei það hvernig væri að upplifa hann heldur bara hversu margir dóu af svarta dauða og þess háttar.

Áður en við vissum af skall fyrsta samkomubannið á. Allt starf framhaldsskóla og háskóla landsins var fellt niður í óákveðin tíma. Þetta var föstudagurinn 13. mars 2020. En þennan dag vissum við ekki hversu mikið lífið okkar væri að fara breytast. Ekki grunaði mig að þetta yrði síðasta skiptið sem ég myndi ganga út úr tíma í grunnskóla.

Fyrst þótti okkur öllum þetta mjög spennandi. Við höfðum aldrei upplifað þetta áður. Við vorum alveg til í frí frá skólanum. Frí frá endalausum skipunum kennara og því álagi sem fylgdi náminu. Það a.m.k. byrjaði þannig fyrir mig persónulega. En fríið varð lengra en nokkur átti von á og í raun of langt frí frá kennurum og námi, sérstaklega fyrir nemendur 10.bekkjar.

Seinustu þrjá mánuðina af skólanum sat ég föst heima. Innan okkar heimilis er einn einstaklingur í áhættuhóp og tók það mikið á að þurfa í raun að “flýja” heimilið mitt. Þessi sjálfskipaða sóttkví var ekki sjálfskipuð, valið var ekki mitt. Mér var skipað!

Fyrsta mánuðinn var ég send í “sjálfskipaða” sóttkví til föðurs míns, ég fékk daginn til þess að pakka, pabbi myndi svo koma um kvöldið og sækja mig. Ég elska pabba minn meira en allt, en foreldrar mínir skildu þegar ég var lítil og hafði pabbi minn myndað fjölskyldu á öðrum stað. Við bróðir minn fórum til pabba tvær nætur í mánuði, það var alveg gaman – en samt ekki heimilið mitt.

Þegar ég lít til baka, þá sé ég að stór partur af hræðslu almennings var vegna þess að það hafði engin gengið í gegnum svona áður, það vissi engin hvað væri eða hvað myndi gerast.

Á þessum tíma upplifði ég mjög slæmt þunglyndi og hjálpaði það ekki að vera föst á stað lengst frá öllum vinum. Á stað sem ég var ekki örugg á. Það voru allir dagar eins. Ég vaknaði upp úr hádegi gerði heimavinnuna, skilaði henni inn. Fékk mér svo CapriSun og epli. Sat svo í sófanum þar til ég varð þreytt á því að leiðast, lagðist þá upp og var þunglynd fram að mat. Borðaði kvöldmat og fór að sofa.

Dagurinn endurtók sig á hverjum degi. Ég fann engar tilfinningar. Ég var bara þarna. Ég hætti að fara út, eða réttara sagt ég fann enga gleði við útiveru, ég mátti hvort sem er bara vera ein. Ég varð mjög einmanna og fannst mér ég aldrei geta talað við neinn. Var bara algjörlega einangruð.

Síðan kom sá dagur að ég mátti fara heim aftur. Ég var komin heim en mér leið aldrei eins og ég væri velkomin eftir að ég var send í burtu. Ég þorði ekki að hitta nánustu vini og missti sambandið við all flesta í kjölfarið. Vítahringurinn var svona þar til það fór að hlýna. Þegar sólin var hæst á lofti lá ég í sólbaði, þunglynd. Það var eina breytingin.

Og ég tók eftir því að ég var ekki sú eina sem hafði misst geðheilsu, það er að segja ef maður hafði hana til að byrja með. Heldur voru allir vinir mínir einnig komnir á vondan stað. Margir að lita hárið sitt í öllum regnbogans litum því það voru öllum “sama“. Öllum var alveg sama um allt.

Svo var komið að útskriftinni, þar hitti ég vinina aftur eftir þennan tíma, hitti þau svo aftur á svona loka-hitting eftir útskriftina, ég hef ekki hitt þau síðan…

Loks var komið hið langþráða sumar. Mér leið ennþá illa, ég var enn að einangra mig frá vinum mínum, besta leiðin til þess að forðast þá var bara að vera í vinnunni. Ég vann í allt sumar, ég hafði ekki einu sinni tíma fyrir fjölskylduna mína. Ég hélt að ef ég myndi ekki vera heima væri allt í lagi með mig. En það var langt því frá rétt, mér leið mjög illa. Ég var svo tóm að innan, fann ekki fyrir tilhlökkun til neins. Ég var hvött til þess að hitta fólk, svo ég myndi ekki vera svona einmanna, ég gerði það ….það hjálpaði smá….

En svo komst ég inn í DRAUMA skólann. Ég var full viss um að erfiðu tímarnir voru liðnir. Svo var ekki.

Skólinn byrjaði vel, félagslega séð. Ég var dugleg að kynnast fólki, planaði hittinga eins og á veitingastöðum og þar sem ég kynntist ég enn fleirum. Á þessum tíma kynntist ég virkilega góðum hópi og eru þau bestu vinir mínir í dag, ég er svo þakklát fyrir þau. Skólinn samt sem áður gerði lítið til að styðja við félagslífið, enda svo sem lítið hægt að gera.

Það voru allir svo týndir, ekki bara við nemendurnir heldur líka kennararnir. Það var mjög óskýrt hvað við áttum að læra heima og svo bara allt í einu þurftum við að vera í kappi við tíman til þess að ná að skila öllum verkefnum. Ég er í MS og eins og flestir vita er það þriggja anna skóli og er settur upp þannig að það eru engin risa lokapróf, en í staðin mörg verkefni yfir önnina. Það var samt orðið þannig að öll verkefnin sem við áttum að skila, voru unnin utan skólatíma.

Önnin byrjaði í dreifnámi þ.e. stundum áttum við að mæta og stundum ekki. Þetta bitnaði mikið á vináttu tengslum milli nemenda, því þegar við vorum í skólanum, þá voru þessi fáu tímar sem við fengum með kennara, nýttir í það að reyna skilja námsefnið, en sá tími sem við fengum til þess var allt of lítill.

Dreifnámið var orðið þannig að maður mætti kannski í fyrsta tíma, beint í próf og svo undirbúningur fyrir næsta verkefni. Sumar kennslustundir fóru fram í skólanum og svo aðrar á netinu. Það var alltaf “felldur” einn tími niður, til þess að gefa okkur færi á að koma okkur úr skólanum og heim til okkar til þess að klára svo daginn í fjarnámi – á netinu. Fyrir busa krútt eins og mig þá var það ekki auðvelt, ég bjó töluvert frá skólanum og ekki komin með bílpróf.

Eftir kennslustundirnar sem fóru fram í skólanum þá þurfti ég að drífa mig í strætó, til þess að ná næstu kennslustund, sem átti að fara fram á netinu. Ég náði næstum aldrei að vera komin heim á réttum tíma fyrir næstu kennslustund, þannig að ég hlustaði á það sem ég náði að hlusta á og svo í beinu framhaldi var farið í verkefnavinnu. Verkefni fyrir tímann sem var “felldur” niður (til að koma okkur á milli staða, úr skóla og heim) kom svo beint á eftir þessu ásamt öðrum verkefnum.

Álagið var ólýsanlega mikið, mörg krefjandi verkefni sem gátu tekið allt að fimm klukkustundir að vinna. Okkur var sagt að ástæðan fyrir þessari miklu verkefnavinnu væri sú að kennararnir voru að notast við bæði gömul verkefni OG bjuggu líka til ný verkefni til þess að bæta við „tímann“. Kennararnir voru engan veginn að sjá hversu mikil vinna og álag þetta var fyrir okkur nemendur. Það var oft fimm til sjö klukkustunda verkefnavinna að loknum „skóladegi“.

Ég upplifði líka mikið skilningsleysi frá fólkinu í kringum mig, þau töldu mig vera óskipulagða ,, byrjaðu bara á verkefnunum fyrr”. Oft vorum við t.d. með 14 verkefni yfir daginn, við sum þeirra fengum við tveggja daga fyrirvara, en lang oftast áttum við að skila samdægurs, eða fyrir miðnætti. En versta tilfinningin var sú að þegar maður var LOKSINS búin með öll verkefnin, þá vissi ég að næsti dagur yrði eins. Mér fannst ég ekki hafa tíma til að borða einu sinni, maður þurfti alltaf að klára „eitt verkefni“.

Ég reyndi að halda tengslum við vini mína. Við hittumst þrisvar í viku og fórum saman í fjallgöngur, já dugnaður! en ég gerði það aðallega vegna þess að það þurfti að skila hreyfingu til skólans. Þessi hreyfing var líklega einn besti parturinn við námið þessa önnina, því ég er viss um að hún hafi algjörlega bjargaði geðheilsunni. Að fá að hitta vini þótt það sé með tveggja metra fjarlægð og anda að sér fersku lofti var svo nauðsynlegt og svo miklu betra en að sitja föst við tölvuskjáinn heima.

Vont en það venst….með tímanum fór maður að venjast þessum covid aðstæðum. Hlutirnir urðu betri. Ég lærði það að allar breytingar taka tíma, við þurfum bara að gefa þeim tíma og reyna að halda í jákvæðnina. Það var svo erfitt, en einhvern veginn tókst mér það.

Ég sjálf hafði mikla trú á náminu hjá MS. Ég var duglega að segja við sjálfa mig; þetta borgar sig allt á endanum. Það gerist allt af ástæðu. Þessi tími kenndi mér svo sannarlega það að sumu getum við ekki stjórnað né breytt, þá verðum við að læra lifa með því og reyna vera með jákvætt hugarfar, þó svo að það sé oft ótrúlega erfitt.

Næsta