Gjöf en ekki böl

Æska mín einkenndist ávallt af mikilli gleði og hamingju. Ég átti í raun draumaæsku. Ég á góða foreldra og systkini. Mér gekk alltaf vel í skóla án þess að þurfa að hafa fyrir því, ég átti alltaf góðan vinahóp og vinkonur auk þess sem mér gekk einstaklega vel í öllum íþróttum. Lífið gat ekki verið auðveldara en ég fékk „fullt hús“ í hendurnar þegar ég dró mín spil í upphafi lífs. Þetta einkenndi síðan viðhorf mitt til lífsins og minna eigin barneigna.

Ég hugsaði alltaf að börnin mín myndu ná langt á öllum sviðum, skara fram úr og verða „eitthvað stórt”. Ég hugsaði að ég myndi setja ákveðnar kröfur á mín börn til að þau myndu ná langt í lífinu. Ég hafði hálfgert planað uppeldi barna minna og datt ekki annað í hug en að það myndi nú ganga jafn smurt og mín eigin æska gerði. Ég veit, mjög grunnur og barnalegur hugsunarháttur.

Þremur árum eftir að frumburðurinn kom í heiminn átti ég tvö börn, bæði einhverf og með þroskaskerðingu. Sá yngri með mikla þroskaskerðingu og seinan hreyfiþroska. Síðar kom í ljós að hann gat heldur ekki talað og var flogaveikur þar að auki. Þarna fóru öll mín plön um uppeldi barna minna og allt það sem ég hafði séð fyrir mér út um gluggann á einu augnabliki. Ég sem hafði átt svo auðvelt með allt og liðið vel alla mína æsku, átti allt í einu að fara að ala upp börn sem þurfa að glíma við allsskonar erfiðleika í gegnum sína æsku, eiga erfitt með að eignast vini, erfitt með að læra, erfitt með að fitta inn í hóp og ég var ekki að fara að vera nein „fótboltamamma” eins og ég hafði alltaf séð fyrir mér.

Það er auðvelt að detta í það að syrgja það sem ekki varð en fljótt áttaði ég mig á því að ég var bara búin að ákveða framtíð sem var ekki mín að ákveða. Eftir smá aðlögun í þessu nýja hlutverki áttaði ég mig fljótt á því að það er líka geggjað að vera “sundmamma” og spjalla um tölvueiki, minnkunargeisla og klónunarvélar. Í stað þess að gefa börnunum nýjasta dótið á markaðnum var beðið um ryksugu, ísvél eða prentara í jólagjöf. Ég byrjaði að meta það hvað börnin mín væru einstök og eru sinn eigin persónuleiki án truflana frá samfélagsáhrifum og jafningjum.

Það er auðvelt að hugsa sem utanaðkomandi að það sé erfitt að eiga fatlað barn en sem foreldri fatlaðs barns hugsa ég alltaf að þetta er erfitt fyrir barnið, ekki mig. Ekki vorkenna foreldrum fatlaðra barna, þeim er engin vorkun nauðsynleg.

Í raun hefur þetta gefið mér meira en orð fá lýst. Þessi óþroskaða stelpa sem ætlaði sér allt stórt í lífinu með börnin sín, þroskaðist hraðar en ég átti von á, hún áttaði sig á því hvað skiptir máli í lífinu og hætti að velta sér upp úr smámunum. Drengirnir mínir gáfu mér stærstu gjöf lífsins og það er að læra að meta lífið og hvað skiptir máli í lífinu.

„Að verða eitthvað stórt“ þýðir ekki að verða íslandsmeistari eða heilaskurðslæknir heldur þýðir það að vera hamingjusamur og að vera góður við aðra. Lífið væri svo miklu leiðinlegra og innihaldsminna ef þessi gjöf lærdóms hefði ekki dottið í fangið á mér.

Þetta hefur ekki stoppað okkur fjölskylduna í að elta drauma okkar því að það er allt hægt, það þarf bara að skipuleggja það betur. Við hjónin lukum bæði námi, við ferðumst mikið bæði innanlands og utan og gerum allt það sem okkur langar að gera eins og aðrir.

Það sem skiptir mestu máli er að setja ekki mörk á börnin sín og hvað þau geta heldur hvetja þau áfram í að gera það sem þau hafa áhuga á þó að það passi ekki í þinn eigin kassa af “normi”.

Ég vildi að einhver hefði getað sagt mér þetta strax í byrjun, þótt ég áttaði mig frekar fljótt á hlutunum. Að eiga fatlað barn er gjöf en ekki böl.


Facebook


Instagram