Haldreipið út úr göngunum

Á hverjum degi á Íslandi og um allan heim vaknar hópur fólks sem óskar þess eins að deyja. Þegar þú vilt deyja og finnur engan tilgang með neinu er drifkraftur fyrir lífinu og öllum þeim hversdagslegu verkefnum sem því fylgir gott sem enginn en samt fer margt af þessu fólki á fætur, sinnir vinnu, börnum, maka, hverju sem þörf er á að sinna.

Áður en lengra er haldið langar mig að bæta við. Sá sem ekki hefur upplifað dauðaóskina mun aldrei geta skilið þá ákvörðun einhvers að taka eigið líf. Í minningu allra sem fallið hafa frá af eigin hendi. Megi Guð geyma ykkur og þið finna frið.

Forsaga

Ég var 10 ára þegar fyrsta sjálfsvígshugsunin lét á sér kræla. Henni laust niður í huga minn algjörlega óvænt, án heimboðs. Ég man að það var haustkvöld og skóli daginn eftir, klukkan var rúmlega 20. Ég lá í rúminu mínu vafin í hrein útiviðruð hvít sængurföt með bleikum blómum, nýkomin úr baði. Heimili mitt var öruggt og gott. Á mínu heimili var reglusemi, skipulag og rútína, tónlist, ást og kærleikur.

Mér fannst gaman í skólanum og ég átti gott heimili en af hverju langaði mig að deyja? Ég lá upp í rúmi og velti þessu hlutlaust fyrir mér á sama tíma og ég gat séð mig hangandi án lífmarks úr efri hillu fataskápsins í snöru útbúna úr baðsloppsbeltinu mínu.

 Á meðan á þessu stóð sátu mamma og pabbi frammi í stofu að horfa á sjónvarpið og Ingvar bróðir (6 ára) lúrði vært í sínu herbergi. Síðan þá hafa hugmyndir um að láta þetta gott heita í þessu lífi elt mig, mismikið en aldrei langt frá. Sem krakki og unglingur hélt ég að allir fengu þessar hugsanir endrum og eins. Stundum held ég það meira að segja enn í dag. Fyrir mér var þetta svo eðlileg hugsun og því fann ég mig ekki knúna til að ræða þetta eitthvað sérstaklega.

Ég var 22 ára þegar mamma fór fyrst með mig á bráðamóttöku geðdeildar. Á fimmtudegi í október, 12 árum upp á mánuð frá því að fyrsta dauðalöngunin kom yfir mig. Árið var 2011 og ég var að koma úr 6 mánaða hæð með allavegana afleiðingum eftir algjöran topp í júlí/ágúst. Ég hafði ekki verið í fullum tengslum við raunveruleikann í nokkurn tíma. Sem dæmi setti Guð sig í samband við mig í gegnum útvarpið í bílnum mínum og gaf mér ýmisleg verkefni.

Ég átti að vera í hópi fólks sem myndi bjarga heiminum frá vanlíðan og vesæld. Á einum tímapunkti var ég rekin úr vinnu sem var svakalegur skellur þar sem ég hafði alltaf staðið mig vel í vinnu og haft metnað fyrir að gera mitt allra besta. Við mamma höfðum ekki hugmynd um hvað væri að mér (þrátt fyrir fjölskyldusögu um geðhvörf). Í minningunni var ég mjög rugluð og ráðvillt í samtali við geðlækni á bráðamóttöku. Ég talaði hratt og mikið á milli þess sem ég grét sárum tárum í algjörri geðshræringu. Rúmum tveimur vikum seinna var ég lögð inn.

Snemma á mánudagsmorgni höfðu ofskynjanir tekið öll völd en þær höfðu byrjað um mitt sumarið og náðu hámarki þennan haustmorgun. Ég var búin að glata huganum inn í algjöra eyðimörk geðrofs. Djöfullinn var á hælum mér, alveg að ná mér og hann myndi ekki láta sig hverfa nema ég tæki eigið líf. Það var eina leiðin til að stöðva hann. Í öllu ruglinu virtist ég bara finna bitlausa hnífa. Með borðhníf upp við úlnliðinn rankaði ég við mér. Hvað var að mér? Ég yrði að láta mömmu vita að ég þyrfti að fara þó það væri bara tímaspursmál hvenær djöfullinn fyndi mig og hver sekúnda skipti máli. Við mamma erum nefnilega trúnaðarvinkonur og sálufélagar og því ekki við hæfi að stökkva frá borði án þess að láta hana vita. Ég hringdi í mömmu. Kannski var þetta undirliggjandi kall á hjálp?

Ég var allavega eingöngu að hugsa um að komast undan ógn á þessum tímapunkti og var ekki mjög hugsi yfir því að efnislega deyja enda fann ég ekki mikið fyrir því að vera í líkama. Ég var á milli tveggja heima í nokkrum víddum í senn og fann eingöngu fyrir því sem var að gerast í huganum. Ástæða þess að ég samþykkti innlögn var sú að ótti minn við djöfulinn var svo mikill að ég taldi mig öruggasta inni á lokaðri deild með sólarhrings gæslu.

Mín leið upp

Þegar ég hugsa um titil þessa verkefnis, Mín Leið Upp, sem ég er svo montin að hafa verið beðin um að taka þátt í. Takk fyrir að búa til þennan vettvang, Fanney og Tóta. Hugsa ég um framrétta hönd sem vill toga mig upp úr svartnættinu, reipi í myrkrinu. Guð. Hann er að stórum hluta mín leið upp.

Trúin á Guð ásamt innsæinu eru verkfæri sem hafa hjálpað mér hvað mest í lífinu og þá allra helst með geðhvörfin. Næturnar fyrir örlagaríka mánudaginn svaf ég nánast ekkert. Ég þorði ekki að sofna vegna þess að alltaf þegar ég lokaði augunum tók á móti mér eldur og brennisteinn. Ég þorði ekki að loka augunum því ég taldi að djöfullinn myndi þá eiga auðveldara með að finna mig. Eina af þessum nóttum féll reipi niður í rúmið við vinstri síðu mína. Vá, var Guð virkilega að senda MÉR reipi? Ég greip í það og ríghélt uns ég náði að sofna, ekki allar ranghugmyndir eru slæmar. Upp frá þessu hef ég alltaf kallað á þetta reipi á nóttum þegar ég er komin djúpt ofan í einhverja holuna og sé ekkert nema myrkur.

Eitt kvöld þegar ég var fimm ára kenndi mamma mér tvær bænir. Þessi stund markaði upphaf mitt af mjög svo persónulegu sambandi mínu við Guð. Ég kraup við glugga inn í stofu með spenntar greipar og lærði þessar tvær bænir utan að. Mamma sagði mér að fara með bænirnar á hverju kvöldi áður en ég færi að sofa. Ég tók þessum leiðbeiningum mjög alvarlega og hef farið með bænirnar nánast upp á dag síðan, Faðir vorið og fyrsta vers í sálmi eftir Hallgrím Pétursson, Vertu Guð, faðir, faðir minn. Síðustu ár hef ég farið með þessar bænir í huganum og upphátt yfir daginn, þegar ég keyri, versla í matinn, vaska upp.

Ég er farin að hallast að því að Guð tengist innsæinu. Ég upplifi innsæið sem streng á milli magasvæðis okkar og alheimsins til að tengja okkur við allt sem er, alheimskerfið. Ég lýsi innsæinu sem reipi í myrkrinu líkt og ég lýsi Guði og ég tala við innsæi mitt stöðugt yfir daginn eins og við Guð en út frá innsæinu tek ég allar ákvarðanir.

Það er engin rétt leið, bara þín leið – INNSÆIÐ

Ég á geðhvörfunum margt að þakka. Þau hafa sýnt mér hvað trúin getur komið mér langt og þau hafa valdið því að ég kynntist innsæinu snemma en innsæið er sennilega ástæða þess að ég er á lífi, ekki skuldug og ekki búin að brenna allar brýr að baki mér. Innsæið er mín skynsemi. Geðhvörfin stuðluðu einnig að sambandi mínu við stjörnuspekina. Geðhvörfin hafa tekið en einnig gefið og það ríkulega.

Ég hef stúderað stjörnuspeki frá 98′ eða frá níu ára aldri. Það var í nóvember ‘98, stuttu eftir að ég fór að upplifa að það væri eitthvað dimmt og óþægilegt innra með mér, sem ég rakst á dagatal í formi bókar sem innihélt lýsingu á stjörnumerkjunum 12. Hvert stjörnumerki virtist hafa sinn karakter og ég komst að því að ég væri fiskur. Ég man eftir þessu augnabliki eins og það hefði gerst í gær. „Ég er fiskur, ég er skapandi, eirðarlaus, víðsýn og …“ Ég las þennan texta svo oft næstu árin upp frá þessu að ég man hann nánast orðrétt. Þetta var reyndar ekki langur texti en er mér alveg rosalega mikilvægur því ég var fiskur, ég hafði eitthvað í höndunum um hver ég var.

Í geðhvörfum getur verið erfitt að upplifa sjálfsvitund vegna þess að persónuleikabreytingin á milli sveiflna og jafnvægis getur verið svo afgerandi. Djúpir dalir, háar hæðir og stöðugleiki inn á milli. Það var eitthvað að en ég vissi ekki hvernig ég átti að koma orði að því og þess vegna sagði ég ekki neitt. Það tók mig 13 ár upp á mánuð að segja: „Mér líður illa og ég veit ekki af hverju.“

Ég er svo blessunarlega heppin að eiga foreldra sem hjálpuðu mér snemma að finna mína innri rödd út frá innsæi. Ef að ég bað um leiðsögn og bar upp spurningu spurði mamma mig alltaf til baka. „Hvað finnur þú? Hvað finnst þér að þú ættir að gera?“ Og þá setti ég fram það fyrsta sem kom til mín: „Ég finn að ég eigi að gera þetta.“ Mamma: „Ef að þú finnur að þetta sé sniðugt eða að þetta sé svarið þá er það þannig.“ Þarna strax í æsku er ég að fá bein skilaboð frá mömmu um að mér sé treystandi fyrir mínu innsæi.

Ég fór fljótlega að uppgötva ýmislegt um innsæið. Að innsæið væri að finna, finna fyrir svarinu í maganum. Ég fattaði smátt og smátt að innsæið væri ekki rökhugsun og ekki tilfinning og ég áttaði mig á því að innsæið gæfi alltaf já eða nei svar við já eða nei spurningu. Spurning eins og: „Á ég að fara til Spánar, já eða nei?“ „Nei“. Og þá er það svarið. Ef það tekur þig lengur en sekúndu að fá svarið þá ertu farin/n að hugsa. Eftir að ég kláraði háskóla, veru mína inn á geðdeild og að hafa upplifað allt sem gekk á árið fyrir innlögn fór ég að skilja tilgang þess að fylgja innsæinu.

Af hverju ættum við að fylgja innsæinu? Innsæið er leiðarvísir okkar að tilgangi lífsins. Innsæið þitt er leiðarvísir þinn að tilgangi lífs þíns. Þinn tilgangur. Þín leið. Þegar við tökum ákvarðanir út frá huganum erum við aldrei að taka ákvarðanir út frá kjarnanum okkar, innsæinu okkar, því hugurinn er mengaður af ráðleggingum, skoðunum og viðmiðum samfélagsins og þeirra sem í kringum okkur eru. Í hjartanu búa tilfinningarnar okkar. Tilfinningar eru flöktandi og geta breyst frá degi til dags eða frá ári til árs. Lífinu er alveg sama um hvað okkur langar hverju sinni.

Við fæðumst í heiminn með ákveðið hlutverk sem við verðum að sinna. Ef við gerum það ekki erum við tekin úr umferð og við fengin til að endurmeta stöðuna, fara á eftir innsæinu. Hugur og hjarta eru mikilvæg en ég sé þau ekki best notuð fyrir stefnu og tilgang. Hugurinn er góður til að afla sér þekkingar, reikna, lesa skoða heiminn út frá rökum og viðmiðum samfélagsins, hvað er siðsamlegt t.d. Hjartað er samkennd, umhyggja, ástríða og fleira frábært krydd á lífið.

Vinna mín felst í að greina og tala við fólk. Ég tala við marga. Það sem ég er að sjá valda mestri óhamingju eru hjarta- og hugarákvarðanir. Brostnir draumar um ímyndaða framtíð sem ekki varð. Vonbrigði.

Það er að skýrast meir og meir hve eitt af mínum hlutverkum hér er, og það er að varpa enn meira ljósi á ákvarðanatökur út frá huga, hjarta og innsæi. Tilfinningar eru að þvælast fyrir mjög mörgum. Það er búið að leggja of mikla áherslu á að fylgja hjartanu. Mig langar þetta og mig langar hitt. Svo blandast hugmyndaflug hugans við svo úr verða væntingar sem oftar en ekki valda vonbrigðum. Það er gott að láta sig dreyma og hafa sýn en ekki þegar við höldum alfarið í það. Við megum ekki lifa í framtíðinni. Því framtíðin er ekki til. Hún er hugmynd, ímyndun.

Við heyrum öll í innsæinu en förum fæst (leyfi ég mér að áætla) eftir því. Því innsæinu er ekki hægt að færa rök fyrir og innsæinu er alveg sama hvað þig langar þá stundina. Innsæið er leiðarvísir þinn að tilgangi lífsins og þegar við erum í tilgangi okkar finnum við frið og sátt. Okkur vantar ekkert, við erum þakklát. Þegar við göngum inn í tilganginn okkar komum við heim. Sumir komast heim 5 ára, 20 ára, 40 ára og sumir aldrei.

Ef ég lægi á dánarbeðinu og mætti bara senda frá mér ein skilaboð áður en ég færi væru skilaboðin: „Innsæið. Notaðu það. Alltaf. Jafnvel þó þig langi annað. Því tilfinningar og langanir eru alls ekki það sama og innsæi. Að fylgja hjartanu er ekki það sama og að fylgja innsæinu. Þegar þú notar innsæið ertu alltaf að fara tilganginn þinn. Þegar innsæið er notað ertu á réttri leið sama hvað. Þegar innsæið er ekki notað ertu í raun bara að fara krókaleið, sem er líka í lagi en þegar þú ert leitandi og ráðvilt/ur þá er innsæið alltaf “haldreipið út úr göngunum.“

Eitt hef ég líka lært um innsæið. Það er hægt að virðast algjörlega stefnulaus í augum annarra en vita í reynd nákvæmlega hvert er verið að fara. Innsæisleiðin er sjaldnast bein eða skiljanleg. Hún er meira að segja oftar en ekki hlykkjótt og óútskýranleg í fyrstu. Það er vegna þess að það er ekki hægt að færa rök fyrir innsæisleiðinni. Innsæi þitt veit nákvæmlega hvert þú átt að fara. Það sem þú þarft að gera er að staldra við, heyra svarið og fara eftir því. Það er æfing en það er hægt. Með hugleiðslu, hlustun á kjarnann sinn og sinn sannleik óháð öllum öðrum, óháð fjölskyldu, maka, vinnu, börnum, skuldbindingum.

Í innsæinu er fyrsta skrefið að spyrja já eða nei spurningar og sjá hvað kemur til þín strax út frá því að þú sért að leyfa þér að svara í algjörum sannleik út frá þínum kjarna óháð öðru fólki.

Fyrir innsæishugleiðslu og fleiri upplýsingar um innsæið er hægt að sjá myndskeið frá mér inn á:

Megi ljósið fylgja þér núna og um ókomna tíð,

Fanney

Fyrir innsæishugleiðslu og fleiri upplýsingar um innsæið er hægt að sjá myndskeið frá mér inn á instagram og facebook. 

 

 


Facebook


Instagram