Hver er Viðar Bjarnason?

Hver er Viðar Bjarnason?

Einföld spurning en svarið flókið þegar maður virkilega sest niður og reynir að svara henni af dýpt og heiðarleika.

Ég er 42 ára fjölskyldumaður úr Vogahverfinu. Er í sambandi með yndislegri stelpu sem heitir Halldóra Anna Hagalín og saman erum við með 5 börn, sem svo sannarlega gefur lífinu lit.

Ég hef brasað ótrúlega mikið á minni ævi og ætli fíkn, óstöðugleiki, óvissa, hræðsla, kvíði og efi hafi ekki verið mínir bestu vinir lengst af. Þessir sex hlutir stjórnuðu mínu lífi í áratugi og það án þess að ég vissi það. Að fara inn í „fullorðinsárin“ með þetta á bakinu er ekki uppskrift að árangri.

Í rosalega mörg ár keyrði ég áfram án þess að vita nákvæmlega hvað ég vildi, ég horfði á hvað aðrir voru að gera og oft á tíðum hugsaði ég með mér „já, þetta er flott, ég ætti líka að læra svona“ eða „já, ég myndi rosalega vilja vinna við svona“. Þetta hugsaði ég af því ég vissi EKKERT hver Viðar Bjarnason var. Ég bjó bara til einhverja mynd af persónu sem þóttist vita hvað hún vildi og hver hún væri, og sú mynd var ekkert sérstaklega falleg, inni í mér var bara strákur sem efaðist endalaust um eigið ágæti og hafði enga trú á að geta gert neitt af viti.

Ég fór í allskonar nám eins og tölvufræði, viðskiptafræði og verkefnastjórnun og kláraði þetta allt en þegar á hólminn var komið þá var ástríðan ekki til staðar og áhuginn á því að fylgja hlutunum eftir var ekki neinn. Mér leið stundum eins og ég væri að svindla á kerfinu og ætti ekkert heima í námi og skildi oft ekki hvernig ég komst í gegnum það. Þarna var ég á fullu í niðurrifsstarfsemi og gaf sjálfum mér ekki kredit fyrir að vinna oft á tíðum vel í skóla og virkilega eiga þessar gráður skilið. Það var miklu auðveldara að brjóta mig niður en að gefa sjálfum mér klapp á bakið og vera stoltur af árangrinum.

Ég fann mig ekki í vinnu og var alltaf að leita að draumastarfinu, starfinu þar sem ég loksins myndi finna fyrir tilhlökkun og gleði þegar ég mætti til vinnu og fyndist ég loksins vera orðinn eins og „hinir“. En ekkert gerðist, ég snérist í limbói, vissi ekkert hvert ég vildi fara eða hvað ég vildi verða þegar „ég yrði stór“ og dró allt og alla niður í þetta limbó með mér.

Það er rosalega erfitt að halda höfðinu uppi þegar lífið stjórnast af fíkn, hræðslu, kvíða og efa og með tímanum þá varð allt þyngra og á endanum lenti ég á botninum. Ég var búinn að keyra á gufu í töluverðan tíma og þó svo ég væri í fínu standi líkamlega þá var ég búinn andlega. Sennilega hefði ég getað sokkið töluvert dýpra áður en ég hefði áttað mig en ég greip tækifærið þegar ég fann aðeins fyrir botninum og byrjaði að spyrna mér upp. Ég varð! Ég vissi alltaf að á endanum þyrfti ég að bregðast við og axla ábyrgð, finna MINN veg í lífinu og skapa mér mína eigin hamingju.

Vorið 2018 fann ég þennan fræga botn og fór að vinna í mér og mínum málum og eins erfitt og það var í byrjun þá leið ekki langur tími þar til ég fór að sjá eitthvað ljós kvikna, neistinn varð að báli og ég fann að ég hafði styrk til að halda áfram á þessari vegferð og sjá hvert hún færi með mig. Ég gat ekki lent á verri stað en þeim sem ég var að koma frá. Ég kynntist frábæru fólki sem vissi nákvæmlega hvaðan ég var að koma og höfðu upplifað sömu hluti og ég og í þeim fann ég ótrúlega hjálp og styrk.

Með því að horfast í augu við óttann og takast á við mín vandamál þá kom ákveðin ró yfir mig. Ég gat horft til baka með stolti yfir því sem ég þó hafði áorkað og hugsaði með mér „ef ég gat haldið mér gangandi í öll þessi ár með tösku fulla af grjóti á bakinu, hvað gerist þá þegar ég get loksins hlaupið í átt að nýjum draumum og markmiðum?“

Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á íþróttum og hreyfingu og loksins, loksins fann ég kjark og hugrekki til að fylgja minni sannfæringu. Ég hætti að æfa í minni líkamsræktarstöð og fór að æfa aftur í Mjölni, þar sem ég hafði verið nokkrum árum áður. Þetta hefði ég ekki gert nema af því að góður vinur dró mig á æfingu og ég sá ekki eftir því. Ég tók þjálfaranámskeið hjá Mjölni og var síðar svo heppinn að kynnast ótrúlegum hóp af drengjum í Reykjavík MMA sem gáfu mér tækifæri á að koma til þeirra og byrja með þrektíma hjá þeim sem heita 5LotuForm. Þarna fann ég ástríðuna og hóf í kjölfarið að læra einkaþjálfara hjá Intensive PT. Að þjálfa fólk og lifa og hrærast í þessu íþróttaumhverfi er mín ástríða, ég elska að æfa, ég elska að þjálfa. Fyrir mér er æfing núvitund, hvort sem ég er að þjálfa eða æfa sjálfur þá er ekkert annað til á þeirri stundu, bara ég og mínar æfingar.

Tveimur og hálfu ári eftir að ég fann minn botn hefur lífið breyst ótrúlega. Lífið er upp og niður og allskonar en í dag er ég í yndislegu sambandi með konu sem ég elska, á milli okkar eigum við fimm ótrúlega mögnuð börn, ég er að þjálfa í hlutastarfi hjá Reykjavík MMA, ég er að læra einkaþjálfara og get ekki beðið eftir því að taka næsta skref í átt að mínum draumi. Það hefur margt breyst en ég er ekki hættur! Ég er ekki kominn þangað sem ég ætla mér!

Ég þarf stundum að klípa mig til að átta mig á því að þetta er ekki draumur, lífið er í alvöru svona gott og það er ekki bara eitthvað sem gerðist. Ég hef unnið fyrir þessu, ég axlaði ábyrgð, ég gafst ekki upp og setti mitt eigið ego á hilluna og leitaði mér hjálpar. Að viðurkenna vanmátt og leita hjálpar er ekki veikleiki, það er styrkur og ef þú ert á svipuðum stað og ég var eða tengir við þessi orð þá máttu vita að þú hefur styrk til að laga hlutina.

Það er eingöngu vegna þessarar vinnu sem ég þorði að skrifa þennan pistil. Ég á þeim stað sem ég var fyrir 2 og hálfu ári hefði aldrei þorað því.