HVER HELDURÐU EIGINLEGA AÐ ÞÚ SÉRT

Púkinn minn er svo sannarlega búin að vera í miklu fjöri undanfarna daga. Þrátt fyrir að hafa lagt sig allan fram við það að ræna af mér gleðinni og fá mig til að efast um sjálfa mig þá tókst honum það hins vegar ekki, en náði þó að tefja mig aðeins.

Þá á ég við að síðastliðnu daga, hef ég eytt óþarfa miklum tíma í að labba fram og til baka, standa upp og setjast, hef átt erfitt með að setja hugsanir mínar í orð, því púkinn gerir ekki annað en að segja við mig: Hver heldurðu eiginlega að þú sért?  

Ég hef lært það að þegar púkinn fer að sýna sig svona mikið að þá þarf ég að vera hugrökk og spyrja mig óþægilegra spurninga og svara þeim heiðarlega. Ég þarf að finna hver ,,triggerinn“ er. Hvað er það sem veldur því að ég fer á þennan stað?

TYGGJÓKLESSURNAR Í ,,BAKPOKANUM“

Mín sjálfsvinna er ansi litrík, ég er nefnilega með alveg góðan ,,bakpoka“ sem ég hef verið að sortera úr hægt og rólega síðast liðin ár. Það kom mér á óvart hversu miklu ég gat í rauninni bara hent og létti það strax á.

Það voru hlutir þarna í pokanum sem ég var búin að gleyma hreinlega að ég ætti og ákvað ég bara að lappa aðeins upp á þá og nýta mér áfram.

Svo var líka helling þarna ofan í sem var ekki mitt, en einhverja hluta vegna þá hafði ég borið þetta drasl á herðum mér í mörg ár, þannig að ég bað eigendur þess að koma þessu fyrir á öðrum stað.

EN einnig var dót þarna sem ég hafði hreinlega tekið í leyfisleysi og þurfti ég mikinn kjark til þess að skila því til rétta eiganda og biðja viðkomandi afsökunar á því að hafa tekið þetta.

Í mörg ár pakkaði ég illa niður í bakpokann, gat endalaust troðið í hann og var ekkert að spá í hvort hann myndi slitna eða ekki, og því miður þá ber hann þess merki.

Í honum eru svona tyggjóklessur og get ég sagt ykkur það að vinnan við það að losa/skrapa þær í burtu er mikil áskorun, það er alltaf eins og það sé smá klístur ennþá. Ein slíka klessa er – að bera mig saman við aðra.

TRIGGERINN

Um daginn skráði ég mig á frítt netámsskeið. Um er að ræða fjögurra vikna tilraunanámskeið fyrir konur sem vilja verða hugrakkari í lífi og starfi. Ég skal alveg viðurkenna það að ég skráði mig á þetta námskeið aðallega til þess bara svona að forvitnast, taldi svo sem ekki að ég þyrfti eitthvað geðveikt á þessu að halda, jú jú maður getur alltaf bætt sig hugsaði ég ! Annað kom þó heldur betur á daginn, ÚFF.

Einn partur af þessu námskeiði felst í því að taka þátt í samræðum inn á lokaðri facebook grúppu. Ég var mjög spennt að byrja og fór ,,med det samme“  að skoða grúppuna s.s. hinar konurnar. BÚMM ,,trigger“.

Vá en gaman er hún hérna!…en yndislegt! Hún er kannski ein af kennurunum? eða ætli hún sé þátttakandi? Neiii pottþétt að kenna eða aðstoða kennarann..áður en ég vissi af var ég farin af facebook, komin í skápana að leita mér af eitthverju ,,comfort“ nammi.

Við vorum vinkonur í grunnskóla. Hún var (og er enn) falleg, hugrökk, hæfileikarík og góð. Ég var aðeins minna falleg hahaha – er ekkert að meina þetta neitt í neinu niðurtali í alvöru! En ég var ekkert rosalega smart, var seinþroska og barnaleg, mér fannst fátt skemmtilegra en að leika við systur mína sem er fjórum árum yngri og hennar vini, heldur en jafnaldra mína.

Sérstaklega þegar líða fór á unglingsárin…það að maskara sig og hvað þá að setja  EYELINER! Þá voru krakkarnir bara komnir í ruglið sko! Þegar ég horfi til baka þá á ég mínar bestu grunnskóla minningar frá þessum skóla. En á sama tíma var  þetta líka mjög svo vandræðalegt og erfitt tímabil. Mér var ekki beint strítt, en það var samt ekki beint gert ráð fyrir því að ég væri eitthvað ,,með þetta“. Þannig að þegar ég reyndi ,,að vera eitthvað“ þá var það mjög áberandi og frekar misheppnað.

ÓÞÆGILEGU SPURNINGARNAR OG HEIÐARLEGU SVÖRIN

Ómeðvitað þá var ég bara farin að hunsa þetta námskeið. Ég svona skimaði yfir það sem var að gerast inn á facebook grúppunni.

Einu sinni í viku hittist hópurinn live með kennaranum á Zoom. Nú eru tvær vikur liðnar af fjórum og því miður þá hef ég gleymt þessum fundum. Ekki endilega viljandi, heldur meira ómeðvitað viljandi ef það meikar eitthvað sense.

Fyrst reyndi ég að sannfæra mig um að það væri bara vegna þess að ég þyrfti nú svo sem ekki á þessu þannig séð að halda. En súri sannleikurinn var sá að ég var hrædd við það að ég væri kannski bara enn þá þessi sem væri bara alls ekki ,,með þetta“ og ég var að bera mig saman við æskuvinkonu mína, sem er að gera virkilega flotta hluti og er svo ,,með þetta“. 

Það kom bara upp eitthvað brjálæðislegt óöryggi, að nú værum við aftur ,,saman í bekk“ og að munurinn væri ennþá afgerandi á milli okkar þegar kemur að hæfileikum og útgeislun, að ég væri kannski bara ekkert búin að vaxa neitt, heldur bara enn þá að ,,reyna að vera eitthvað“.

ERU GILDIN MÍN RAUNVERULEG – EÐA BARA SKRAUT Á BLAÐI?

Virðing – Innsæi – Samkennd – Kjarkur – Agi

Þegar ég vaknaði í morgun þá var hugrekkisþjálfunin mér efst í huga. Ég fór inn á facebook grúppuna og ég ákvað að prófa vinna fyrsta verkefnið, sem fólst í gildisvinnu.

Æfingin fólst m.a. í því að spyrja sig eftirfarandi spurningar: Er ég raunverulega að lifa í takt við gildin mín? Endurspeglar hegðun mín, virkni og framkoma gildin mín? Ég átti að skrifa niður atriði sem eiga það til að pirra mig og aðstæður sem mér þykja erfiðar og skoða viðbrögðin mín við þeim, eru þau í takt við gildin mín?

Þetta verkefni var akkúrat það sem ég þurfti.

Ég mátaði því gildin mín við síðustu daga. Í fyrsta lagi hef ég sýnt kennaranum mínum óvirðingu með því að vera ekki virkur þátttakandi. Einnig var ég ekki að sýna sjálfri mér né þátttakendum samkennd. Ég var ekki að sýna sjálfri mér skilning og var heldur ekki að sýna þátttakendunum heldur þá hlýju sem þeir áttu skilið eftir að hafa opnað sig inn á grúppunni.

HVER ER ÉG

Hvert helduru eiginlega að þú sért? Það er ekkert eitthvað eitt svar við þessari spurningu, það fer stundum eftir því hvaða dagur, ég er nefnilega allskonar og passa ekki inn í eitthvað eitt mót. 

  • Ég er með ADHD á háu leveli og á það til að skipta oft um skoðanir. Ég er ofboðslega væmin og má ekkert aumt sjá en á sama tíma er ég með brjálæðislega svartan húmor sem bara mínir nánustu fá að njóta.
  • Ég er algjör skvísa en á sama tíma prumpa ég þrumuskellum heima fyrir og naga neglurnar.
  • Að hlúa vel að andlegri og líkamlegri heilsu er mér afar mikilvægt, á milli þess sem að ég fæ mér nóakropp og appelsín.
  • Hreyfing er málið – en sófakúr og netflix er stundum nauðsynlegt.
  • Ég er ábyrg og góð móðir, en get verið ósanngjörn og á oft erfitt með að standa við NEI-IÐ mitt.
  • Ég er ástrík og ástfangin eiginkona en er oft bara líka pirruð og þreitt á Ara mínum.
  • Ég elska rauðvíns og osta kvöld með vinkonum mínum, en er svona Cinderella og endist yfirleitt ekki lengur en til kl. 00:00. Nema….þegar við förum í bústað…þessa árlegu bústaðarferð…það er allt önnur saga!
  • Ég elska að hafa mig til og vera vel til höfð, er það yfirleitt svona dags daglega myndi ég segja. En ég er líka algjörlega ófeimin við það að fara út á náttfötunum í bónus ef stemmarinn er þannig.

ALLT ÞETTA MÁ! Ég er ekkert minna frábær ef ég fæ mér súkkulaði, er pirruð, fer á náttfötunum út í búð og finnst prump fyndið.

En ég vissulega prumpa ekki við matarborðið, það er bara hreinn dónaskapur og þegar ég á það til að vera ósanngjörn þá biðst ég afsökunnar.

Sem betur fer þá er ég ekki lengi að átta mig á því þegar ég ,,fer yfir strikið“. Það er vegna þess að ég nýti gildin mín sem minn leiðarvísir í lífinu.

Ég er eins og ég er – og ég kem til dyranna eins og ég er klædd.

Hlýjar kveðjur og takk svo mikið fyrir að lesa.

Fanney Marín 


Facebook


Instagram