Það er mjög algengt að fólk lifi lífi sínu í „óttavíddinni“.
„Óttavíddin“ er staðurinn í huganum þar sem sem ekkert gerist.
Þú hræðist að taka skrefið í átt að því sem þig langar og leyfir þér að dvelja í þægindarammanum. Ástæðan fyrir því að þú situr fastur í þægindunum ervegna þess að þann stað þekkir þú vel. Þú veist hvernig hlutirnir eru þar. En það gerist ekkert nýtt. Það breytist ekkert. Allt er eins og alltaf og þú heldur áfram að „óttast“ það hvað gerist ef þú tekur skref út fyrir rammann.
Þeir sem þekkja neikvæð og hamlandi áhrif óttans á líf sitt, vilja læra að velja hugrekkið í staðinn. Að taka skrefið og stíga inn í óttann og finna frelsið sem því fylgir. Við höfum öll val þegar kemur að þessu eins og öðru.Við veljum sjálf þann stað sem við erum á. Ef þig langar að breyta til og gera eitthvað öðruvísi, mæli ég með því að þú spyrjir þig spurninga eins og „Ætla ég að velja óttann eða hugrekkið?“ Það er virkilega góð tilfinning að finna frelsið sem kemur í kjölfar því að velja hugrekkið. Þú átt eftir að upplifa stolt.
Hinn frægi Winston Churchill sagði eitt sinn: „…Aðalatriðið er ekki að vinna eða tapa, heldur hvort maður hafi hugrekki til að gefast aldrei upp.“
Að stíga inn í óttann sinn er að sýna hugrekki. Hugrekki felst í því að takast á við það sem þú hræðist. Hugrekki er skilgreint sem gæði hugsunar sem gerir það að verkum að einstaklingur nær að takast á við erfiðleika án þess að hræðast.
Þannig má segja að hugrekki sé sambland af trú á eigin færni og kunnáttu og sýnir um leið viljastyrkinn sem þú býrð yfir.
Trú á eigin færni og kunnáttu kemur oft sem afleiðing af því að ganga vel. Það að sigrast á þeim áskorunum sem maður hefur tekist á við, veldur því að við erum tilbúin að mæta nýjum áskorunum, aftur og aftur.
Viljastyrkur er nátengdur þrautseigju og seiglu. Í þessu samhengi er mikilvægt að vera ekki hrædd(ur) við að gera mistök. Allir sem hafa náð góðum árangri hafa gert fjölda mistaka á leiðinni. Það að taka áskorun sem getur haft mikil áhrif á þitt líf krefst hugrekkis. Mistök eru alltaf til þess að læra af þeim.
Rannsóknir á afreksíþróttamönnum úti um allan heim, hafa sýnt það að þeir hugsa ekki um að gera mistök, heldur einbeita þeir sér að því sem þarf að gera og hvernig á að framkvæma hlutina í átt að sigri.
Sjálfstraust er að sjálfsögðu mjög mikilvægt í þessu samhengi.
Að vera meðvitaður um að velja hugrekki í stað þess að leyfa óttanum að stjórna ferðinni, gerir okkur kleift að útrýma neikvæðum áhrifum óttans. Það hjálpar okkur við að þora að vera við sjálf og láta drauma okkar rætast.
Draumarnir rætast ekki í óttavíddinni, þeir rætast um leið og þú ákveður að fara á eftir þeim.