Matthildur
Kafli 2 – Hin Langa Leið Mín Upp

Næsti kafli er um fyrstu árin eftir að við komum til baka.

Ég tel að það hafi verið um vor þegar við fimm komum til Íslands árið 1954. Foreldrar, ég, og tvær nýjar systur fæddar árin 1950 og 1952. Það eina sem ég man frá þessum árum í Ameríku var um „Halloween“, og sælgætið sem mamma hafði við dyrnar til að fá ekki trikk. En ég man ekki eftir hvort við fengum neitt af því. Svo var það að köttur kom inn og pissaði á teppið, og svo að sjá hund klæddan í föt.

Ég man ekkert eftir því hvort við fórum með skipi eða flugvél og ekki heldur hvort að einhver tók á móti okkur ég var sjö ára þá. Næstu þrjú árin voru meira og minna eins og í lausu lofti en ég veit að ég var í Laugarnesskóla og Melaskóla.

Ég man ekkert frá Laugarnes-skóla-tímanum og á enga mynd af mér í bekkjum þessara tveggja skóla. En ég man eftir könnunum sem stóðu í gluggum Melaskólans og voru fullar af lýsi sem var auðvitað glóðvolgt þegar það hafði fengið sólina á sig. Og ógeðslegt að fá því hellt niður kokið á mér.

Svo rann árið 1957 upp, og við systur vorum teknar til hússins sem þau voru búin að kaupa íbúð á fyrstu hæð í. Það var vor og við bökuðum drullukökur og skreyttum þær með sóleyjum og fíflum og virtumst hafa verið góðar og þögular og ekki til neinna vandræða. Mamman inni að leggja allt það af mörkum í byggingu, innréttingu og veggfóðurs. Og að leggja hönd á hvað annað sem hún gat. Hún var mjög handlagin.

Þegar allt var orðið fínt og eldhústækin frá framtíðinni verið sett upp þá breyttist lífið mikið. Þessi tæki voru sjálfvirk þvottavél, þurrkari, strauvél, og svo var eldavél sem voru hellur sem voru settar upp þegar þær voru ekki í notkun svo að hægt væri að nota bekkinn fyrir annað. Bakaraofninn var stór og var inni í eldhúsinnréttingunni í hæð sem leyfði að standa við að opna og setja matinn og kökur inn í. Það áttu trúlega fáir sem engir slíkar þvottavélar sem spöruðu o spara heilu dagana við að sulla í vatni í þvottahúsi.

Þetta var efnisgæða heimurinn sem hefur ekki endilega neina jákvæða tengingu við innra ástand í tilfinningum þeirra sem þau eiga. Þau gera bara suma hluta í lífinu auðveldari og veita meiri tíma til að gera annað en þau húsverk sem til dæmis þvottur var þá hjá flestum og tók mikinn tíma.

Þjóðin krafðist þess meira og minna að allir væru á iði í einhverri vinnu allan daginn og hefði sem minnstan tíma til að vera með sjálfum sér, hvað þá að upplifa sannleika sinn og lífs-kringumstæðna sinna. Það var alls enginn skilningur, viðurkenning né þekking á því, að hvaða áhrif sú erfiða tilfinningalega reynsla sem einstaklingar hefðu upplifað frá blautu barnsbeini og áfram, myndi geta risið úr iðrum líkams einn daginn í framtíðinni. Að taugakerfin, hormónar og aðrir líkamshlutar geymdu orku reynslunnar og myndu svo finna leið í framtíðinni til að senda það til baka upp í rökvitundina og tilfinninganna, eða kannski í sumum tilfellum vera í geymslunni til dauða.

Þegar allt var orðið fínt í íbúðinni þá fór slíkt að rísa í konunni sem hafði fætt mig í heiminn. Það var engin leið fyrir konur lækna þá að leita að sáluhjálp hjá fræðingum, bæði af smáninni af því að þær væru ekki rökhyggjubundnar og af því að þekking og skilningur á því sem hún glímdi við, var enginn. Og hún hefði trúlega bara verið dæmd.

Það varð til þess að það barn sem hafði verið getið í mistökum við að hlýða kynhvötinni frekar en rökhyggju og þekkingu á hvernig börn yrðu til, varð að fá allar dembur þeirra sára. Og af því að ytra útlit var hennar markaðsvara og verðgildi þá gat hún ekki annað en notað þau til að láta mig vita að ég væri ljót og allt það, og það að vera lág í loftinu í viðbót bætti dæmið ekki. Barn hefur ekkert í sér til að verja sig. Það er algerlega undir konunni komið sem það er með. Eiturskammtur frá orku neikvæðra tilfinninga safnaðist svo smám saman upp. En auðvitað vissi ég það ekki röklega fyrr en mjög löngu síðar.

Þetta hús sem við höfðum flutt í var í nýju hverfi sem kallast Hlíðarnar og það var enginn skóli þar þá.

Í síðasta leiguhúsnæðinu áður en við fluttum þangað hafði ég verið hjá yndislegum kennara í Langholtsskólanum. Hún hreinlega umvafði bekkinn með hlýju sinni.

Konan sem fæddi mig í heiminn hafði ekki haft þá hugsun í sér að veita mér þann rétt að ákveða hvaða skóla ég vildi frekar fara í. Hún ákvað að ég ætti að fara í skóla þar sem ég myndi vera hjá fólki í hléum sem hún taldi sig þekkja í öðru hverfi. Ég myndi þurfa að fara í strætó eins og hefði verið með skólann sem ég hafði verið í. Hún ákvað það fyrir mig en ég hefði verið mun betur sett hjá þessum yndislega kennara.

Að öðru leyti var engin þyrlu-foreldrun í gangi. Næstu þrjá vetur fór þessi lága í loftinu stelpa út á stoppistöð til að taka strætó í skólann upp í smáíbúðahverfið um hálf átta á morgnana. Það gekk enginn með mér út á stoppistöðina sem ég fór í öllum vetrarverðum, né var ég nokkurn tíma keyrð í skólann sem þá var í öfuga átt við vinnu pabba.

Svo hitti ég stelpu í götunni sem var jafn gömul mér, hún var líka nýflutt þangað og var alin upp af ömmu sinni af því að hún hafði fengið lömunarveikina og foreldrar hennar sem voru bændur höfðu meira en nóg að gera með það og hin börnin.

Ég átti eftir að læra að þessi amma hafði mjög fornfálegar hugmyndir um uppeldi og sá stelpur bara eiga að bíða eftir „Riddara á Hvítum Hesti“ og verja sem mestum tíma í að fylla handraðann af hlutum fyrir heimilið þangað til og það var byrjað þegar hún var tíu ára.

Við urðum meira eins og systur, en ég var með mínum eigin systrum.  En hvorug okkar var fær um að tjá meðferðina á okkur á þeim tímum en við höfðum kannast við orku hver annarrar frá því sem við vorum að upplifa heima.  Þegar ég hafði áttað mig betur á þessu með meðferð ömmunnar á vinkonu minni þá lofaði ég sjálfri mér í huganum að einn daginn myndi ég frelsa hana frá ömmunni. Hún var ekki í sama skóla og ég og ég tel að hún hafi farið í Austurbæjarskólann.

Í þeim skóla sem konan sem fæddi mig í heiminn sendi mig til lenti ég hjá hræðilegum kennara. Svo vitnaði ég húsbóndann á því heimili sem konan sem fæddi mig í heiminn hafði talið sig þekkja, koma heim í hádeginu og lúberja báða syni sína með beltum, fyrir enga sök, bara lygar.

Þarna sátum við og stóðum konur og stelpur og enginn þorði að opna munninn til að stoppa ofbeldið.  Ég var ekki einu sinni beðin eða sagt að segja engum.  Þegar ég hugsaði um það seinna sá ég að hann hafði trúlega talið að það væri að gerast á öllum heimilum, þannig ætti að ala börn upp. Við vorum ekki lamdar svo að það var ekki að gerast á okkar heimili.

Mismeðferð var með öðru formi, sáradembum konu í orðum sem ég hélt áfram að fá mína skammta af í gegn um árin, og afskiptaleysi og vanrækslu föður. Það er hin svokallaða ósýnilega mismeðferð sem hefur samt sínar langtíma afleiðingar og hindra þróun og sköpun á nánd og alvöru tengingum.

Flott húsnæði, fínn matur, veislur og þannig skemmtanir eru á yfirborðinu og ekki endilega alltaf nærandi fyrir persónuleika barnanna, né veita þær einstaklingum endilega það bakland sem börn þurfa og er svo mikilvægt ef foreldrar skilja ekki né sjá mikilvægi þess að styrkja börn sín innan frá. Hinsvegar eru boðin með allskonar einstaklingum auðvitað viss félagslegur lærdómur.

Orðin bakland eða þolandi, eða gerandi voru ekki í málinu á þeim tímum, enda voru væntingar aðrar á þeim tímum, og ég heyrði aldrei neitt um þetta með að þurfa eða eiga að hafa sjálfvirði og innri styrk. Hvað þá að eiga að vita hver maður væri sem kona, eða hvað líf manns ætti að verða um. Þá er mest af manni í raun niðri í kjallara. Þannig vildu prestar að því er virtist að stelpur og konur sæu sjálfar sig. Sjálfstraust kvenna séð sem rangt og við erum enn að sjá dæmi um það frá sumum karlmönnum í dag árið 2021 svo að jafnréttishreyfingin hefur ekki náð inn í öll heilabú karlkyns.