Karma

Skilgreining á „Karma“: „andlegt hugtak sem þýðir að allar gjörðir, líkamlegar jafnt sem huglægar, valdi afleiðingum. Þessar afleiðingar birtast í næstkomandi tilverustigum. Þetta er grundvallarkenning í trúarbrögðum af indverskum uppruna. Samkvæmt búddisma, hindúisma og jaínisma er karma lögmál orsaka og afleiðinga. Allar gjörðir, allar hugsanir, öll viðbrögð hafa afleiðingar“.

Ég hef alla tíð lagt mikið upp úr því að aðstoða aðra og gera það sem ég get til að styrkja og styðja við þá sem þurfa á því að halda, í hvaða formi sem er.  Ég hef tamið mér þann hugsunarhátt að ef það er eitthvað sem ég get gert til aðstoðar, þá geri ég það, óháð því í hvaða formi sú aðstoð er.

Núna í janúar eru komin tvö ár síðan ég lenti í „breakdown“ í annað sinn. Þetta var alvarlegt en lýsti sér ekki eins og það fyrra (2010). Ég fór eins djúpt og maður getur ímyndað sér og tók það mikla vinnu að komast á rétt ról aftur. Það mun eflaust taka mig allt lífið að komast á sama stað og áður, en það er allt í lagi.

Á þessum tíma leið mér þannig að allt sem ég hafði gert fyrir aðra væri einskis virði og nú skyldi ég hætta að hjálpa öðrum, því ég fékk ekkert tilbaka – og loksins þegar ég þurfti á því að halda. Þetta var ein af hugsanaskekkjunum sem ég þjáðist af.

Með tíð og tíma áttaði ég mig á því að þetta er það sem ég stend fyrir – að vera til staðar og aðstoða aðra, eins vel og mikið og ég get.

Lengi hef ég velt því fyrir mér hvað ég get gert meira og betur til að aðstoða. Ég skráði mig meðal annars í hjálparstarf hjá Rauða Krossinum (sem varð aldrei neitt úr), en hugurinn var í stöðugri leit, hvað get ég gert meira og hvernig? Ég trúi því að ef maður er til staðar, meðvitaður, sýni umhyggju og samkennd, aðstoði þá sem þurfa og sé almennt góð manneskja, þá muni það skila sér margfalt tilbaka, á einhvern hátt.

Fyrr í vetur rakst ég svo á auglýsingu frá „Mín leið upp“. Vá! Já! Nákvæmlega! ÞETTA konsept! Ég byrjaði að fylgjast með samfélagsmiðlunum hjá þeim og í hvert skipti heillaði þetta mig meira og meira. Þarna er ég, nákvæmlega þarna.

Ég setti mig í samband við þær sem svo þróaðist út í það að ég ákvað að leggja þessu verkefni lið, með því sem ég get boðið upp á.  Ég er hokin af reynslu bæði úr lífi og starfi og sú reynsla á án efa eftir að reynast öðrum vel, ef ég deili henni.

 Í samvinnu við Fanneyju hef ég ákveðið að leggja mitt af mörkum og gerast ráðgjafi hjá Mín leið upp. Ég mun því gera það sem ég get til að aðstoða þau ykkar sem sækið þjónustu hjá Mín leið upp.

Það sem ég get boðið uppá er margt og mikið, en ég starfa núna sem markþjálfi. Ég hef sett fókus minn á það að aðstoða fólk við að setja sér markmið, breyta hugarfari, skipuleggja sig, bæta andlega líðan og takast á við kvíða, svo eitthvað sé nefnt.

Ég er með mörg járn í eldinum, hugsa stórt og stefni langt. Lengra en mig nokkurntíman hefði grunað sjálfri. Ég hlakka til að vinna með ykkur, kynnast ykkur og fylgja ykkur eftir á ykkar ferðalagi um lífið – sem er svo stórkostlega skemmtilegt og fallegt, ef maður bara vill sjá það.


Facebook


Instagram