Líkamsvirðing

Hvar byrjar maður þegar sagan er upphafs- og endalaus að manni finnst. Þegar maður er búinn að tína sjálfum sér svo vel í lífinu er erfitt að koma til baka til eigins sjálfs. Það felst í mikilli sjálfsvinnu og er hún rosalega misjöfn hjá okkur öllum. Ég ætla að byrja bara á einum enda og það jafnvel verða bara nokkrar frásagnir um tímabil eða jafnvel bara atvik sem ég hef verið að vinna í sem ég set inn á síðuna www.minleidupp.com.

Hræðsla, minnimáttarkennd, þunglyndi, kvíði, mikil veikindi – líkamleg og andleg, matarfíkn, vantengd sjálfri mér á svo margan hátt sem kom niður á nánast öllum hliðum í mínu lífi. Þetta er eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. En hvað er að gerast þegar svona mikið er í gangi hjá manni? Afhverju varð maður svona “bilaður” eða eins og ég segi svo ótrúlega oft “æjj já ég er bara svona eintak sem átti að fara í lakið”.

En til að ná að vinda ofan af öllu þessu sem maður er búin að sanka að sér í gegnum árin þá þarf að fara að gera upp öll þau ár sem maður hefur lifað og loka þeim köflum sem hafa fengið að vera opnir. Sætta sig við og fyrirgefa er held ég sá allra stærsti sigur sem hægt er að vinna og til að geta lokað og haldið áfram með hreinan skjöld.

Mitt fyrsta áfall í lífinu varð þegar ég var aðeins 5 ára gömul. Ég bjó á Rauðlæknum og fékk astmakast í fyrsta sinn. Man það eins og það hafi gerst í gær því að það heltók mig þessi gífurlega lífshræðsla. “Ég er að kafna, get ekki andað, hvað er að gerast pabbi???” Ég og pabbi stóðum úti á tröppum í frostinu og ég man hvað það var skárra að vera úti í hreinu krispí vetrar loftinu en inni. “Nei pabbi ég vil ekki fara inn”. Þarna vorum við tvö í að mér fannst góðan tíma á meðan ég var að berjast fyrir lífinu 5 ára gömul í mjúkum faðminum á pabba. Þá heyrist í sjúkrabílnum og ég sé þau mömmu og pabba fá smá lit aftur í andlitið. Síðan var ár sem fór í að liggja inn á spítala allavega 1x í mánuði þangað til það var komin einhver útkoma með lyf. En ok mér var farið að líða betur hjúkk og mamma og pabbi ekki eins hvít alltaf þegar ég fékk köstin, þau líklegast voru bara orðin svona sjóuð í þessu.

Upp úr þessu greindist ég líka með ofnæmi og þá með bráðaofnæmi fyrir eggjum, hundum og köttum, nú ok frábært þá er allavega komin útskýring á því afhverju ég varð alltaf svo rauð og ert í andlitinu þegar ég fór í afmæli og veislur. Það voru egg í öllu sem var í boði. Ekki mikið af svona geggjuðum uppskriftum eins og það er til í dag og eru aðgengilegar bara á netinu – ógó einfalt!! Upp frá þessu byrjaði ég að koma alltaf með annað hvort einn kexpakka eða kassa af hrauni með í afmæli svo ég myndi nú alveg örugglega fá eitthvað líka. Þetta var upphafið af minni átröskun!

Fyrir einu ári tengdi ég þessi atvik og lotugræðgina saman hjá mér. Jú hvernig, þegar ég fór í afmæli þá “átti” ég þennan heila hraunkassa og ég ætlaði sko ekki að gefa neinum með mér því allir aðrir fengu svo mikið og gátu borðað allt! Þannig að alltaf hef ég passað vel upp á þann “skammt” sem ég fékk í gegnum tíðina og passaði að engin tæki sneiðar af því sem ég “átti”. 

Oftast var tekið meira en minna, því jú þú veist náttúrulega ekki hvað gerist er það nokkuð og þú mátt nú ekki svelta sætabrauð þennan tíma í afmælinu? En þetta þróaðist hjá mér þannig að þegar ég fer í afmæli þá er oftast gestgjafinn það hugulsamur að gera ráð fyrir mér og er þá með eitthvað eggjalaust (og ég er alveg ótrúlega þakklát fyrir það!!!). Þegar í veisluna er komið og kossar og knús afstaðið ( before Covid sko) þá er farið að borðinu og sagt “ jæja sko Þórunn ég bakaði þessa köku fyrir þig” eða “ þetta er þín kaka” þannig að ok ég “á” þessa köku þá má enginn fá af henni því ég á hana, verður stimplað inn í mann eftir margra áratuga tuggu.

En já það var það sem gerðist, ég reyndi alltaf að verða fyrst að borðum til að vera viss um að engin væri að taka af minni köku og oft var hún geymd annars staðar en þar sem allar hinar voru. Nú þegar ég var búin að fullvissa mig um það að það kæmist enginn í mína köku þá reyndi ég allt til að klára þann skammt sem mér var gefinn. Því jú var ykkur ekki sagt að klára alltaf af disknum ykkar?

Þetta mynstur gekk í svo langan tíma að ég var farin að réttlæta að þegar eitthvað nýtt kom í búðir sem var eggjalaust þá mátti ég sko alveg borða túnfisksalat eða kokteilsósu í öll mál með öllu því að ég hafði aldrei smakkað neitt með majonesi áður. Ég átti alveg 25 ár sem ég þurfti að vinna upp í majonesáti!! Ég meina hvað hefðir þú gert?

Svona var það við alla nýja hluti sem komu á markaðinn sem ég hafði ekki getað borðað áður. Svo eins og með allar átraskanir verða þær öfgakenndar (eins og þetta hafi ekki verið meira en nóg í öfgakennt) og ég byrjaði að fela matinn minn, borða úti í bíl og allt þetta sem fylgir. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem eitthvað small hjá mér að ég fattaði tenginguna á milli lotugræðginnar og þessa hátternis sem byrjaði þegar ég greindist með ofnæmið.

Áður var ég alltaf í einhverju átaki eða megrun og öllu þessu og allir í kringum mig að spyrja af hverju ég taki mig nú ekki á, af hverju ertu að borða þetta eða hitt. En ég fór mikið að leita að því að sættast við mitt eggjaofnæmi og sættast við sjálfan mig. Ein vinkona mín, sem heitir Elva, kynnti mér fyrir því að sleppa öllu sem heitir megrun og átak og allt þetta og huga bara að líkamsást og virðingu. Á þeim tíma var ég mjög stolt af henni, hvað henni leið vel með þetta allt en ég bara var ekki tilbúin til þess að sættast við minn líkama. Árin liðu og enn var ég með bullandi lotugræðgi. Léttist um tugi kg og þyngdist jafnhratt um það sama.

Ég byrjaði að hugleiða mikið og vinna í mínum innri manni þegar aftur kemur upp þetta með líkamsvirðingu! Hvað er það?? Af hverju þarf maður að bera virðingu fyrir líkama sínum?? Svarið er einfalt, þú þarft að bera virðingu fyrir þér og líkama þínum því að annars nærð þú ekki sátt við sjálfan þig og nærð ekki að fyrirgefa þér það sem þú hefur verið að gera.

En hvernig fer maður að því að bera virðingu fyrir einhverju sem maður hefur hatað allt sitt líf?? Ég rakst á námskeið sem hefur breytt svo miklu í þessu ferli hjá mér og minni leið upp, sem heitir Masterclass – break the circle og er frábært!!! Mæli með í alla staði! Læt linkinn fylgja með. Þarna ferðu í ýmsa sjálfsvinnu til að finna út þinn takt og þína fíkn (þetta er ekkert annað en fíkn oft á tíðum).

Ég hef ekki “dottið í það” eins og ég segi síðan ég byrjaði í september og er það alveg stór sigur fyrir mig skal ég segja ykkur! Fór meira að segja í veislu (þetta augnablik sem það mátti) og ég fór ekki fyrst að borðinu og ég spurði ekki fyrst þegar ég kom inn hvað ég mætti borða. Heldur fór síðust og bara nó problem!!! Sko mig 😀

Til að öðlast þessa sjálfsvirðingu þarf að leggja sig mikið fram í sjálfsvinnu. Ég fór í grúbbu á facebook sem hún Elva vinkona er með sem heitir Líkamsvirðing – verkefni. Þar gerði ég samviskusamlega þau verkefni sem sett voru fyrir. Þetta eitt gerði gæfu muninn hjá mér og myndi ég segja að það hafi verið mitt upphaf af mínu bataferli.

Í dag geri ég enn sum af þessum verkefnum sem eru þarna og mér finnst frábært að geta leitað til einhvers sem er búin að gera þetta að lifibrauði sínu að hjálpa öðrum að elska sjálfan sig.

Þetta er eilífðarverkefni og maður þarf alltaf að vera á tánum með þetta. Það getur verið stutt í þessa fyrirlitningu sem maður hafði á sjálfum sér. Elva er einnig með podcast sem Heitir Bodcastið og er það algerlega möst ! Á instagram er gott að fylgja þeim sem eru í svipuðum gjörðum og þú og hafa náð bata og ég mæli með @ernuland @elvaagustsdottir @healthisnotasize

Takk fyrir mig og gangi þér vel á þinni leið upp


Facebook


Instagram