Mín leið upp

Ég kynntist manninum mínum árið 1996, árið 1999 fór ég í aðgerð og eftir hana ræddi sérfræðingur við okkur og spurði hvort við stefndum á að eignast börn. Við vorum á því að börn væru eitthvað sem við vildum í okkar líf, helst þrjú fyrir þrítugt. Sérfræðingurinn ráðlagði okkur að byrja þá vegferð sem fyrst því að við myndum ekki geta eignast börn án aðstoðar. Ferlið okkar hófst og tólf árum síðar, þegar við ákváðum að nota lífið í eitthvað fleira en að berjast við að eignast börn, áttum við eitt barn sem hefur verið okkar verkefnastjóri frá því að við sameinuðumst sem fjölskylda.

Þegar gengið er í gegnum langt barneignaferli, sem stundum endar með árangri en stundum ekki, er farið í gegnum mörg sorgarferli. Það er svo ótal margt sem hægt er að syrgja. Þá þarf líka að læra að brynja sig fyrir óvægnum spurningum, bæði frá þeim sem standa manni nærri og vilja manni vel en líka frá aðilum sem standa manni ekki nærri og kemur málið í raun ekkert við.

Ég gleymi því aldrei þegar amma mín heitin spurði hvort að við gætum ekki eignast börn og ef það væri staðan, hvort það væri ekki bara léttara fyrir okkur að segja frá því. Það var svo sannarlega þannig það var léttara að segja bara frá því, allavega nánustu fjölskyldu og vinum því þá vissi fólk betur hvernig hægt var að styrkja mann.

Ég hef ekki spurt manninn minn hvað hann syrgði í okkar ferli en ég veit ég að syrgði í hvert sinn sem við fórum í tæknifrjóvgun. Ég syrgði líka í hvert sinn sem ég fór á blæðingar í mjög mörg ár. Eftir nokkur ár tókum við þá ákvörðun að tækni- og glasafrjóvgun væri ekki leið fyrir okkur. Ég syrgði ekki þá. Mér leið illa allan tímann sem við vorum í því ferli og það var mikill léttir þegar við völdum að fara aðra leið, sem var ættleiðing.

Á þeim tíma var nokkuð öruggt að ættleiðing myndi leiða til þess að fjölskyldur yrðu til, í dag er það ekki svo gott en verulega hefur hægst á því ferli. Fyrsta tilraun okkar til að ættleiða barn endaði í gleði. Við vorum enn á bleiku skýi með fjársjóðinn okkar þegar við ákváðum að reyna að eingast annað. Sú tilraun endaði í sorg þegar að við tókum þá ákvörðun að við gætum ekki lengur eytt öllum okkar tíma í að eignast fleiri börn, við vorum jú búin að nota tólf ár af þeim fimmtán sem við höfðum verið saman í að reyna að eignast börn. Öll okkar orka og allur okkar peningur fór í að láta draum um barn og börn rætast. Svo náðum við heldur ekki að njóta þess gullmola sem við þó áttum. Ég syrgi það enn í dag.

Nokkrum árum eftir að við ákváðum að halda áfram með lífið og ég var búin að ganga í gegnum þá sorg að eignast ekki fleiri börn fór ég í legnámsaðgerð. Ég hélt á þeim tíma að ég væri búin að syrgja allt varðandi það að hafa ekki eignast eigið barn. Ég syrgði í raun ekki að hafa ekki gengið með barn eða verið með barn á brjósti en það var samt alltaf einhver sorg í kringum ferlið að reyna að eignast barn. Eftir aðgerðina kom í ljós að ég hefði aldrei náð að ganga með barn. Ég grét daginn sem ég fékk þær fréttir því ég var í sorg yfir öllum tímanum og peningunum sem við eyddum í tæknifrjóvganir því sá tími og peningur hefði getað farið í allt aðra hluti.

En það er hægt að syrgja lengi og dvelja í sorginni. Sem betur fer tel ég að ég hafi ekki dvalið lengur en ég þurfti í hverju sorgarferli en um leið er svo mikilvægt að gefa sér tíma til að syrgja svona hluti því hvert sorgarferli þroskar og kennir manni ýmislegt um lífið og tilveruna. Ég neita því ekki að neikvæðni og fýla voru gjarnan förunautar mínir enda fannst mér lífið stundum bara vera á móti mér en lítið vinna með mér.

Í þroskaferlinu mínu, meðal annars í gegnum sorgina í barneignarferlinu okkar, náði ég að breyta hlutunum yfir í jákvæðni og gleði yfir því sem lífið hefur uppá að bjóða. Annað sem ég hef lært er að hætta að stjórna lífinu svona mikið sjálf og leyfa lífinu stundum að stjórna mér. Það er stærsti sigur sem ég hef gert í mínu lífi, að ná að sleppa tökunum og hætta að reyna að stjórna öllu og hvernig allt fer.

Ég hef síðustu ár, leyft lífinu meira að leiða mig áfram en ég gerði áður. Svolítið látið orðin „if it´s meant to be it will be“ vera einkunnarorð mín. Mig dreymir svo sannarlega um margt og mig langar til að margir hlutir rætist og verði að veruleika. Í dag verð ég alveg svekkt þegar hlutirnir ganga ekki upp en með því að hugsa meira um að því hafi ekki verið ætlað að verða, verða hlutirnir oft mun auðveldari. Ekki misskilja mig, ég berst alveg fyrir mörgu en ég vel mínar baráttur betur. Mér hefur líka lærst að stundum er það sem ég held að ég vilji og þurfi er ekki það sem ég vil eða þarf. Að leyfa lífinu að leiða mig áfram er mín leið upp.

Óskað var eftir nafnleynd