,,Ómeðhöndlað ADHD“


Facebook


Instagram

Í DAG …

er þriðjudagurinn 22. Desember og árið er 2020. Í gær 21. Desember óskaði ég pabba mínum innilega til hamingju með daginn sinn á Facebook. Ég fékk mjög fljótlega hláturskalla og skilaboð þar sem mér var bent á að afmælið hans væri nú ekki fyrr en á morgun… þannig að ég byrjaði þennan daginn líka á því að óska elsku pabba innilega til hamingju með daginn á facebook. Ég held að þetta sé bara skemmtileg byrjun á þessum pistil, því þetta er ég í hnotskurn.

Ætla nýta tækifærið hérna líka í mínum fyrsta „formlega“ pistli fyrir verkefnið mitt ,,Mín leið upp” að óska pabba mínum, Magnúsi Ólafssyni innilega til lukku með daginn sinn, vonandi er hann búin að vera fallegur og góður, ég bjalla á eftir.

ÁÐUR FYRR…

Áður fyrr, þá fannst mér fátt ömurlega en það að mæta of seint og klikka á dögum eins og afmælisdögum minna nánustu og síðast en ekki síst ef ég sagði eitthvað vitlaust fyrir framan fólk (hugtök, málshætti o.þ.h.), fannst mér það hræðilegt. Hversu heimsk var hægt að vera? Það fóru margir dagar í það skal ég ykkur segja, að berja mig niður þegar eitthvað af þessu kom upp á, sem var alveg reglulega.

Reyndar ekki samt hvað varðar að mæta of seint. Það greinilega ristir djúpt (hvaðan, átta ég mig reyndar ekki á) því líkurnar eru OFSALEGA litlar á því að ég mæti of seint, hins vegar er ég týpan sem mæti alltaf ALLT OF SNEMMA, sem í mörgum tilfellum þykir einnig mikil ókurteisi.

Ein skemmtileg saga, tengt þessu, svo vík ég að öðru. (segir maður það? vík ég að öðru?) bíðið, ætla google það… júúú svei mér þá… En ok, aftur að sögunni.

THE BRITISH MUSIC AWARDS

Það er árið 2018 (frekar en 2017?) og er ferðinni heitið til Birmingham. Lilla (fósturmamma mín) bauð pabba í helgarferð í tilefni afmælis hans. Hann vissi hins vegar ekki að við systkinin værum að fara með. Við poppuðum upp á flugvellinum, eitt í einu – mjög fyndið (you kind of had to be there)

Pabbi var fljótur að átta sig á því að fyrst að við vorum með í för að þá væri eitthvað allt annað í vændum en hann hafði séð fyrir sér. Prakkara svipurinn leyndi sér ekki á okkur.

Það hitti svo skemmtilega á að tónlistaverðlaunahátíðin „The British Music Awards“ fór fram þessa sömu helgi í Birmingham. Fullt af stórstjörnum væntanlegar þar á svið, þar á meðal enginn annar en Rod Stewart takk fyrir. Þetta var bara ekki spurning að okkar mati, við gátum hreinlega ekki beðið eftir því að koma pabba á óvart með þessu, en pabbi er mikill tónlistarmaður og erum við alin upp við gítar, orgel og harmonikkuspil.

Ég sá um miðakaupin og við pössuðum vel upp á að honum myndi alls ekki gruna neitt. Við vorum samt mikið að gefa í skyn að eitthvað amazing væri framundan og það ískraði í okkur spenningurinn.

Við lentum í Birmingham á fimmtudegi (frekar en föstudegi), lentum snemma og nýttum þann daginn vel á þýska jólamarkaðnum, sem náði yfir allan miðbæ Birmingham. Eftir miðbæjarröltið var haldið upp á hótel með fullt fang af innkaupapokum. Hjónin fóru inn á sitt herbergi og við systkinin saman í herbergi (eins og í gamla daga bara – mjög kósý). Ingó bróðir hlammaði sér í rúmið og kveikti á sjónvarpinu og meðan við systurnar fórum beint í að dást af því sem við höfðum verslað þennan daginn, hversu góð kaup skiluru!

,,BRETARNIR AÐ FARA „ÚR LÍMINGUNUM“

Það var greinilega verið að undirbúa þjóðina fyrir bresku tónlistarverðlaunin, því það var verið að fjalla um þau á öllum stöðvum…OMG hversu spennandi!

Eða heyrðu… nei… bíddu…..Hátíðin var ÁÐAAAAAAN! HA ! NEI! HVERNIG!?

Held ég þurfi ekki að lýsa því neitt frekar fyrir ykkur hversu ömurlega mér leið, ég varð algjörlega miður mín. Systkini mín sögðu ekki orð, héldu bara fyrir munninn á meðan ég þrammaði um gólfið í sjokki. Við röltum yfir á herbergið til þeirra pabba og Lillu. Ég hvíslaði þessu að Lillu….hún tók líka fyrir munninn.

Næst förum við til pabba, útskýrum þennan “litla” miskilning. Pabbi svaraði voða slakur; núúú ææ, elskan mín þetta er allt í lagi. Ég var einmitt að horfa á þetta hérna í sjónvarpinu, við gerum bara eitthvað annað skemmtilegt. Næst á skjánum birtist svo Hr. Rod Stewart, pabbi lyftir brúnunum og spyr; „var hann þarna“? Ég segi með skjálfandi röddu; „jááá…“ þá heyrist í pabba; „andskotin“.

Æji, Þau voru öll svo góð við mig, en vá, ég var svo miður mín. Ég algjörlega klikkaði á því hvaða dagsetning væri…

Ég á margar svona sögur, það væri í raun hægt að gefa bara út sér bók um svona skemmtilega miskilninga, mis-skemmtilega – en fyndna, svona eftir á.

Alveg eiginlega frá því ég man eftir mér, þá hef ég verið að kljást við kvíða, svefnvanda, samskiptavanda, óheilbrigð samskipti við mat, lélegt sjálfstraust, sjálfsskaða, óheilbrigða líkamsímynd, hvatvísi, óörryggi meðal fólks, námsvanda, óstöðuleika í skóla og vinnu. Það var ekki fyrr en á fertugsaldri að þessi vonda líðan mín og hegðun fékk eitthvað heiti þ.e. ADHD.

Fram að því var þetta búið að fá allskonar “heiti” eins og athyglissýki, dramaköst, „aumingja ég hlutverk“, æðubunugangur, þunglyndi, fæðingarþunglyndi og geðhvarfasýki, svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef alltaf verið rosalega viljug til þess að skíra mína líðan eitthvað, því hún var svo mikið að hamla mér. Fólk oft bara skildi mig ekki og ég var algjörlega sammála þeim, þau voru svo sannarlega ekki að skilja mig og það var svo meiriháttar erfitt. Samskiptavandi minn var mikill, ég oftúlkaði svipbrigði og raddblæ fólks, ég tók öllu persónulega, var ótrúlega hvatvís, grátgjörn, reiðigjörn. Þetta gerði mér afar erfitt fyrir, óörryggið var algjört. Tjáningarmáti minn og hegðun reyndist mínum nánustu oft erfitt, þeim langaði miklu oftar að skella hurðinni á mig í stað þess að knúsa mig og þau gerðu það oft, og ég sjálf skellti sko FAST til baka!

MÍN LEIÐ UPP

Að vera með „ómeðhöndlað“ ADHD (eins og sálfræðingurinn minn sagði) er ekkert grín. Vitanlega hef ég gert margt rangt einfaldlega vegna þess að ég er mennsk, geri mistök, get verið ósanngjörn og óskynsöm o.s.frv. En það er vægt til orða tekið þegar ég segi að líf mitt hefur tekið algjörum stakkaskiptum eftir að ég greindist með ADHD og byrjaði að fá viðeigandi aðstoð.

Það er nú að renna í þrjú ár síðan ég fékk greininguna. Ég byrjaði strax á Concerta og er það í raun alveg sér saga að segja frá því ferli. En það var hellings vinna að venjast þeim og finna „rétta skammtinn“. En eftir þá þrautagöngu þá get ég ekki ímyndað mér lífið í raun án þeirra.

Ég get einbeitt mér, hugsað málið aðeins, ofátið hætti, get tekið gagnrýni (ok, ennþá pínu erfitt haha, fer smá eftir hver er að gagnrýna) og síðast en ekki síst get ég verið í sama starfi lengur en 6 mánuði. Skömmin sem hefur fylgt „vinnuflakkinu“ mínu í gegnum árin er ólýsanleg, það þarf í raun líka alveg sér pistil fyrir þá sögu.

Eftir ár í starfi hjá Icelandair þá langaði mig raunverulega að standa fyrir framan vinnufélagana og halda smá ræðu, vá hvað mér fannst ég loksins fullorðin og „eðlileg“. Það varð þó engin ræða haldin, en ég deildi svo sannarlega gleðinni og stoltinu með manninum mínum. Ég var búin að vera þarna í heilt ár og mig langaði ekki einu sinni að segja upp.

Frá því ég man eftir mér, þá hef ég upplifað mig týnda. Hef hvergi passað almennilega inn og lýsingaorðin sem ég hef notað gagnvart sjálfri mér eru andstyggileg. Ætli ég hafi ekki verið um rúmlega tvítugt þegar ég fór markvisst að reyna skilja hvað „væri eiginlega að mér“. Öðlaðist ótrúlegt magn af „verkfærum“ eins og ég kalla það, verkfæri (ráð, hugmyndir, lausnir) frá ólíkum sálfræðingum, 12 Sporasamtökum (Coda og OA), hjónabandsráðgjöf, uppeldisráðgjöf, ómetanlegum vinum, fjölskyldumeðlimum og síðast en ekki síst í endurhæfingu VIRK, en það verður alveg sér pistill fyrir það. VIRK er tækifæri sem ég mæli með að þú látir ekki fram hjá þér fara ef það stendur þér til boða.

„Verkfærin“ náði ég hins vegar ekki að nýta mér almennilega, ekki að því að ég var vitlaus, óskynsöm eða löt, heldur einfaldlega vegna þess að ég var með „ómeðhöndlað“ ADHD. Það var ekki fyrr en eftir að ég byrjaði á lyfjum við ADHD að ég fór að geta skoðað „verkfærakistuna“ og nýtt mér hana.

Það sem hjálpaði mér mikið milli tvítugs og fertugs þ.e. frá því að sjálfsvinnan „formlega“ hófst og fram að greiningunni voru ævisögur og lífsreynslusögur annarra bæði í tímaritum, sjónvarpi, 12 spora fundir og quotes (tilvitnanir). Það var svo gott að spegla sig í öðrum og var ég alltaf að reyna átta mig á því hvort ég gæti nú verið með það sama og þessi eða hinn, var alltaf að leita svara. Vá ég fæ bara illt í hjartað, tómleikinn og skömmin sem ég upplifði í svo mörg ár er ennþá áþreifanleg. Ég finn tilfinninguna við þessi skrif.

Eftir áramót þá hefst ég handa við lokaverkefni mitt í tómstunda og félagsmálafræði. Námið er 180 eininga til BA prófs. Mín leið upp er mitt lokaverkefni.

Lífsgæði felst í ótal mörgu, hvað veitir hverjum og einum lífsgleði er jú persónubundið. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að tómstundaþátttaka getur spornað gegn m.a. streitu, og haft jákvæð áhrif á líkamlega sem og andlega heilsu. Fyrsta skrefið a.m.k. í minni leið upp var að gefa mér þennan tíma, minn frítíma…í að huga vel að sjálfri mér. En minn „frítími“ fór yfirleitt í það að vera mjög ringluð, vera með áhyggjur, sinna öðrum þ.e. heimilinu, vinna meira, hjálpa öðrum o.s.frv. að þeim mörkum að ég týndi sjálfri mér, gleimdi því sem mér þótti gaman og hver ástríða mín væri. Það hafði í kjölfarið neikvæð áhrif á allt mitt líf.

„Mín leið upp“ vill hjálpa þér að láta drauma þína rætast með því að efla og/eða viðhalda andlegu, líkamlegu sem og fjárhagslegu jafnvægi, en að taka fyrsta skrefið getur reynst mörgum erfitt og vettvangurinn því til þess ætlaður að létta meðlimum þetta skref.

Árið 2021 verður ár framkvæmda og aðgerða fyrir alla sem vilja láta gott af sér leiða. Fyrsta skrefið í allri sjálfsvinnu er að horfa inn á við. Á síðunni verða því fjölbreyttar reynslusögur, öflugt tengslanet, fastir bloggarar, fjölbreytt „verkfærakista“, námskeið, fyrirlestrar og ráðgjöf ólíkra fagaðila, fyrir meðlimi að kostnaðarlausu. Með því getum við speglað okkur í sögum hvers annars og prófað okkur áfram í formi mismunandi verkefna.

Við erum rétt að byrja og viðtökurnar hafa fram úr öllum væntingum.

Takk fyrir að gefa þér tíma í að lesa þennan pistil og takk fyrir að vera forvitin um „Mín leið upp“.