Rauður Sjór

Hver er Kristbjörg Kamilla

Ég er 31, dóttir , unnusta , stjúpmamma vinkona , frænka.

Ég og Andrés höfum verið saman síðan í des 2013 sem gera þá 7 ár bráðlega. Ástin hefur einungis aukist með árunum hjá okkur og í dag búum við í draumahúsinu okkar , Skiphól. Á Skiphól kom ég fyrst inn þegar ég var einungis fjögurra ára gömul telpa, hér bjó hún Dagmar heitinn sem ég þekkti sem kleinukonan mikla. Dagmar tók mér strax og þótti mér alltaf afar vænt um hana. 

Lambastaðir sem eru hér fyrir neðan bjó eldri maður sem var mér alltaf svo kær, sá hét Steini og var kallaður Lambi. Lambi heitinn var heyrnalaus og mállaus en hann kallaði ég afa þar sem ég man lítið eftir mínum öfum og ömmu. Við Andrés gerðumst svo lánsöm að eignast Skiphól fyrir nokkrum árum og hér ætlum við að klára okkar ævi saman enda yndislegt hús mikil hlýja og friður hér inni. Ég hef unnið síðustu 7-8 ár á skammtímavistun fyrir fatlaða en í dag er ég í veikindaleyfi vegna alvarlegs slys sem ég lenti í þann 17 ágúst 2020.

Ef vinir mínir ættu að lýsa mér þá væri það eflaust þónokkur orð því ég hef reglulega heyrt eftirfarandi, sterk, öflug ,hvetjandi, jákvæð , lausnamiðuð ,opin , skilningsrík og dæmir ekki aðra. Þetta er eitthvað sem ég var alin upp við það er að vera trú sjálfum þér , koma vel fram við aðra því þú vilt að aðrir komi vel fram við þig. Ekki gefast upp þó blási á móti og brekkan sé brött, þó þú endir á botninum og sérð enga leið beggja vegna horfðu þá upp því það er eina leiðin , það er upp! Stattu á þínu og láttu engan stjórna þér , vertu ákveðin en skilningsrík og veittu svigrúm fyrir öðrum hugmyndum og vertu opin. Þetta er ég.

 

Hvaða reynslu langar þig að deila?

Nýlega lenti ég í ofboðslega ljótu slysi og hélt ég á tímapuntki að ég myndi tapa löppinni minni fyrir neðan hné. Dagurinn byrjaði vel ég fór með vini út á sjó og áttum við æðislegan dag þar sem við skoðuðum fuglalífið og fylgdumst með bátunum og sæþotum njóta sín í góða veðrinu sem var þennan dag.

Eftir góðan tíma út á sjó var félagi minn tilbúin til þess að fara í land og fékk ég þá að klifra yfir í bátinn hjá vinafólki hans en þar voru þau þrjú um borð og hélt gamanið áfram, við stefndum aftur út á sjó eftir að búið var að fylla bensin á mótorana á bátunum og sæþotunni og sat ég þarna í bátnum með vindinn í andlitið og pírði augun þegar sólin skein á okkur. Þarna setti ég hendurnar upp í loft og dró inn djúpt andan og hugsaði vá þvílíkt frelsi, vindurinn í andlitið, sólin sleikir kinnarnar, báturinn sullar í sjónum og fuglarnir syngja fyrir okkur.

Við vorum stopp þarna út á sjó rétt fyrir utan Reykjavíkurhöfn og sátum þar á spjallinu , Rib báturinn sem ég var í , formula 4 bátur , ein sæþota og einn bátur. Ég segi í gamni mínu við strákinn sem var á sæþotunni hvort hann taki farþega og endar það samtal með því að ég fæ að klifra yfir á sæþotuna hans og af stað fórum við. Einn lítinn hring svo aftur upp í bátinn.

Vindurinn í andlitið , sullandi sjór , fuglarnir syngjandi og hló ég glatt og naut þess að sitja þarna aftan á og fljóta um sjóinn og horfa á sólina setjast. Þungt högg , á bólakaf ofan í sjóinn , augun full af brimsöltum sjó og næ ekki andanum. Hvað skeði ? Þökk sé björgunarvestinu sem ég var í flýt ég fljótt upp á yfirborðið og gubba heilum gúlsopunum af sjó upp úr mér og næ með herkjum að draga andann. Ég strík yfir augað á mér og píri augað og reyni að sjá hvar ég er, hvað skeði , er ég lifandi? Ég heyri öskur , sé strákinn sem stjórnaði sæþotunni , hvað er hann að gera í bátnum sem ég var í ? Afhverju er ég á floti í sjónum , mér er sjóðandi heitt en skringilega heitt í kringum hægri löppina. Ég byrja að finna fyrir óþægindum og verk , ég hugsaði strax ég er brotin. Hægri löpp ,hné ég er brotin…

Strákurinn öskrar: “hún er þarna” og næsta sem ég veit er að hann hendir sér í sjóinn og syndir að mér. Hann grípur í vestið mitt og byrjar að synda með mig að bátnum. Ég er eins og rispuð plata og endurtek mig ítrekað… Hægri löpp, hné, ég er brotinn…

Við erum komin að bátnum þegar hann reynir að ýta mér upp og hann spyr: “nærðu að tosa þig”, ég svara neitandi, verkurinn er orðin meiri. Ég finn hendur grípa um vestið hjá mér að ofanverðu og rífa upp en vestið drógst yfir haus og mátti litlu muna að ég hefði dottið úr þvi. Ég gríp í vestið og held í það af öllum þeim kröftum sem ég á eftir og segi “prófaðu núna”. Upp á belginn á bátnum komst ég og gríp þá utan um hnéð á þeim sem er að tosa mig upp úr sjónum. Ég næ að mjaka mér lengra inn fyrir bátinn og enda með því að ég renn ofan í hann.

Verkurinn maður lifandi, fyrr átti ég von á dauða mínum en að upplifa þennan verk á minni lífsleið. Lærleggurinn var brotinn, þetta var opið beinbrot. Húðin fyrir neðan hné flettist af mér og langleiðina upp að mjöðm, af myndum að dæma þá var einsog ég væri í alltof stórum stuttbuxum, því hún lá bara eftir á sjúkrabörunum þegar að læknarnir héldu löppinni uppi. Ég missti um helming af blóðinu sem ég er með í líkamanum og var heppin að vera á lífi þarna. Hefði ég verið lengur í sjónum eða lengra frá landi t.d. hefði mér mögulega blætt út.

Þetta er nýtt verkefni í lífið, þetta er enn eitt verkefnið… Ég á svo mörg áföll að baki og slys. Ég var á leið inná Reykjalund og núna bætist þetta við. Ég fór í þrjár aðgerðir til þess að reyna að laga löppina. Þann 18. ágúst var sú fyrsta þá fékk ég svokallað X- Fix , 3 pinnar festir við lærælegg ofarlega og 3 pinnar festir við sköflung fyrir miðju og stærðarinnar stál utan á löppinni til að halda beinum á réttum stað. Þann 28 ágúst var svo seinni og þar var settur 36cm mergnagli inní lærlegginn og 6 skrúfur. Þann 4 október var síðan þriðja aðgerðin og var þá sett sárasuga á skurðinn hjá mér svo að stæðsti skurðurinn myndi ná að loka sér. Ég var rétt undir 3 vikur á spítala fyrst í Fossvoginum og kláraði svo síðustu dagana á HSS.

Áfallið sem kom eftir slysið kom ekki fyrr en nokkrum dögum eftir en áfallið var stórt og mikið. Ég fékk til mín tvo presta og svo hann Rúdólf. Rúdólfur er geðhjúkrúnarfræðingur á Landspítalanum. Hann hjálpaði mér manna mest af þeim sérfræðingum sem komu til mín þegar áfallið skall á. Hann var algjörlega frábær og algjör fagmaður á sínu sviði. Ég fann mikla einlægni frá Rúdólfi, hann gaf sér góðan tíma í að hlusta á mig og hann las mig bara einstaklega vel, það var svo gott. Ég er ekki trúuð kona en ég trúi á sjálfa mig , ég trúi því að ég komist í gegnum þetta því ég er sterkari en ég geri mér grein fyrir.

 

Hverjar voru mínar hindranir?

Óvissa , það var mín helsta hindrun í bataferlinu eftir slysið. Í gegnum lífið hef ég farið í gegnum óteljandi áföll og eflaust fleiri áföll og hindranir en margir miðað við minn aldur en alltaf stend ég bein eftir rokið. Mamma kenndi mér það að vera eins og strá í vindi, ég get bognað en ég brotna ekki. Vindur , rok , óveður , haglél, stormur og allt sem því fylgir má dynja á mér og berja mig niður, en þegar það lygnir þá rétti ég úr mér og kem sterkari til baka og með meiri visku í mínum brunni.

Fyrstu dagana eftir slysið var ég ekki viss hvernig ég ætti hreinlega að standa upp. Ég lá þarna í rúminu vel bogin , áfallið og tárin dundu á mig einsog versti stormur út á ballarhafi og fannst mér ég ekki sjá í land né von neinstaðar.

Inni í mér var þó alltaf ein lítil stelpa með háværa röddu sem öskraði og hvíslaði að mig til skiptis. Þú ert sterk, þú ert öflug, þú ert svo miklu meiri valkyrja en þú heldur! Þarna ruddi ég niður þessari hindrun sem var fyrir mér og ég stóð upp sterkari en nokkru sinni fyrr! 

Ég stóð upp í orðsins fyllstu merkingu ! 9 dögum eftir slys stóð ég upp og tárin runnu hratt niður kinnarnar og litla ég gargaði af öllum sálarkröftum inni mér og hoppaði af gleði ! Ég stóð upp og gat sest í hjólastól, þvílíkur sigur, þvílíkar framfarir…

Fyrir aðeins 9 dögum síðan var ég á floti út á sjó með lærlegginn brotinn í tvennt og var að blæða út, sjáið mig núna hugsaði ég, frá deginum í dag verða engar hindranir fyrir mér því mín leið er upp!!

 

Þínar helstu áskoranir á ,,Leið þinni upp” ?

Stigar , að labba rétt , að beygja löppina eru mínar helstu áskoranir í dag. Ég fer í sjúkraþjálfun þrisvar í viku, í sjúkraþjálfun til Önnu Pálu hjá Sjúkraþjálfun Suðurnesja. þar aðstoðar hún mig við það að beygja löppina upp á nýtt og læra í raun allt upp á nýtt. Anna Pála hefur reynst mér virkilega vel, hún sýnir mér mikinn skilning og hlýju. 

Ég man þegar ég kom fyrst til hennar svakalega bogin með kökkin í hálsinum og tárin við það að springa eins og vatnsblaðra í höndum á litlu barni. Andrés kom með mér inn því ég var svo hrædd og verkjuð. Á móti mér tók einstaklega mikil hlýja og skilningur og svakalega mikil varkárni, Anna Pála er fagmaður út í ytrustu fingurgóma.

Ég man hvað ég grét mörgum gleðitárum þegar hún sýndi mér réttu verkfærin og vöðvarnir vöknuðu!! Þeir eru þarna hvíslaði ég, með tárin í augunum þegar vöðvarnir kipptust til hver á fætur öðrum! Gleðin var svo ólýsanleg að ég bara hágrét. Það sem ég er þakklát fyrir að hafa kynnst henni Önnu Pálu því hún er mitt stærsta verkfæri í mínum bataferli. 

Benedikt bæklunarlæknir púslaði mér saman virkilega fallega og Anna Pála tók við mér og hefur kennt mér að labba upp á nýtt. Að labba ert eitthvað sem við flest höfum gert frá unga aldri og ætti ekki að vera neitt sjálfsagðara því þetta kunnum við, hugsunin segir bara skref fyrir skref og líkaminn fylgir en ekki þarna… Hausinn segir skref en líkaminn hlýðir ekki!

Í dag er ég enn að berjast við að labba rétt , labba beint og halda réttum þyngdarpunkti en með hjálp frá Önnu Pálu þá get ég þetta, við getum þetta saman. Heima við er ég byrjuð að labba meira sjálf og hef ég fengið grænt ljós á það hjá bæklunarlækni mínum honum Benedikt Árna Jónssyni að ganga og halda áfram að sigrast á öllum þeim áskorunum sem fylgja deginum, hvort það sé að klæða sig í föt, setjast út í bíl, labba upp og niður tröppurnar hér heima, standa jafnt í báðar fætur og finna rétta þyngdarpunktinn aftur. Benedikt hefur haldið mjög þétt utan um allt mitt slys og hefur virkilega lagt sig mikið fram við að aðstoða mig, algjörlega yndislegur og ofboðslega fær.

Allir dagar hjá mér eru áskoranir en ég get tekið við þeim því ég er valkyrja af líf og sál og ég skal standa uppi sem sigurvegari í mínu lífi , ég á þennan líkama og hann á mig , í sameiningu gerum við þetta og höldum ótrauð áfram.

 

Þínir helstu sigrar á ,,Þín leið upp” ?

Ég sigra alla daga ! Það eina að vakna og opna augun er sigur því lífið er ekki sjálfgefið. Ég get staðið upp sjálf, ég get klætt mig sjálf og einnig farið á salernið. Á Landsspítalanum var ég með þvaglegg í 2 vikur og þurfti að gera þarfir mínar í bekken, svo að geta farið á salernið sjálf án aðstoðar er þvílíkur sigur og þvílíkt frelsi. 

Sjálfsagðir hlutir í dag eru ekki svo sjálfsagðir eftir svona mikið slys svo ég lýt á daginn minn sem sigur þegar ég leggst upp í rúm að kveldi til. Ég gat labbað sjálf því ég tapaði ekki löppinni, ég get fengið mér að borða sjálf því ég hef styrkinn til þess að standa í báðar fætur og bera mig inn í eldhús, ég er sigur í mínum augum.

 

Nefndu nokkra eiginleika, færni eða þekkingarþætti sem þú telur að hafi hjálpað þér í því að finna ,,Þín leið upp”

Eftir að hafa lifað í gegnum mörg ljót og mikil áföll í gegnum tíðina hef ég búið mér til ýmis verkfæri til að finna mína leið upp, en ákveðni , jákvæðni , bjartsýni og trú á sjálfri mér eru mín helstu verkfæri sem ég nota alla daga. Það er ekki sjálfgefið að vera með þessa eiginleika en við erum öll svo öflug og erum í raun gangandi kraftaverk. Það segir enginn við mann þú getur ekki og fær að komast upp með það, ég get víst og skal sýna þér það. 

Vertu besta útgáfan af sjálfum þér og ekki týnast í hjörðinni. Stattu alltaf uppi sem sigurvegari alveg sama í hvaða aðstæðum það er. Þó að á móti blási vindar stígðu þá fastar niður og haltu áfram. Fyrr en síðar þá lygnir og sólin skín á þig og þú getur haldið áfram þinni för.

Það hafa komið dagar þar sem ég hef ekki séð neitt nema svart og gangurinn virðist svo óendanlega langur að ljósið í endanum er einsog fjarlægur draumur. En þá kemur Andrés og réttir mér hönd sína og brosir, hann strýkur tárin af vanga mínum og tekur þétt utan um mig. Ég er ekki ein , hvar væri ég án hans ? Þessar fyrstu vikur þar sem ég var lítil í mér, bogin á sál og líkama og kunni ekki að rétta úr mér, þá stóð hann með útréttan arminn, hlýju í hjarta og eitt fallegasta bros sem skein svo skært að það málaði birtu yfir skuggana sem svifu í kringum mig og greip utan um mig og sagði, “ég fer ekkert, í gegnum súrt og sætt mannstu!”

Hef ég gengið í gegnum lífið alltaf bara hálf ? Því með honum líður mér svo heil. Hann er sá sem þurrkar tárin , hann er sá sem grípur mig ef ég dett, hann , er sá sem heldur á mér þegar ég hef ekki kraft til að ganga sjálf. Hann er minn riddari, ekki þessi á hvíta hestinum einsog margir eiga, nei hann er þessi sem kemur ríðandi á fagra Blakk með sverðið að vopni og rekur í burtu skuggabaldur sem hefur reynt að klófesta mig. Nóttin er okkar, hér göngum við saman, ég og Andrés í friði og ró á meðan allir sofa og við njótum samveru hvors annars með vindinn í andlitið og tunglsljósið sem kyssir vanga okkar. Með honum læri ég að labba upp á nýtt, saman, hlið við hlið.

 

,,Mikilvægur fullorðin” sem hafði jákvæð/neikvæð áhrif á sjálfsmynd þín í æsku?

Mamma. Hún er einn öflugasti einstaklingur sem ég hef kynnst á minni lífsleið og mín helsta fyrirmynd í lífinu. Hún gefst aldrei upp og veður í gegnum öldurnar sem skella á hana, hún er drottning hafs og lands í mínum augum. Hún er valkyrja valkyrjana. 

Þegar þú hittir hana tekur endalaus hlýja á móti þér, svo fallegur og innilegur hlátur og hamingja sem gæti fyllt heila eyðimörk af lífi! Ég hef alltaf horft upp til hennar, hún er sú sem hefur haft mestu áhrif á mig, á mínum 31 árum sem ég hef fengið að ganga þessa jörðu. Hún hefur kennt mér að halda ekki í neikvæða reynslu heldur lærðu af henni og nýttu þér hana í gegnum árin sem þú átt eftir að lifa. Ekki draga óþarfa böggul á eftir þér, taktu frekar jákvæðninni með opnum örmum og fagnaðu þeirri lífsreynslu! 

Það eru ekki til hindranir heldur bara hraðahindrun sem við förum varlega yfir svo við dettum ekki og höldum svo áfram með lífið og verðum ávallt sigurvegarar.

 

Hvernig ertu ,,Þín eigin fyrirmynd” ? 

Ég er óhrædd við það að standa með sjálfri mér og hafa trú á því sem ég tek mér fyrir hendur. Reglulega þarf ég að minna mig á það að sum verkefni taka lengri tíma en önnur. En ég gefst ekki upp! Ég stend bein í baki og horfi fram á við, því það er þangað sem ég er að fara, ég get ekki breitt því sem gerðist en ég get lært af því.

Ég hef trú á þeim sérfræðingum sem eru mér innan handar sem og ómetanlegu mömmu minni og Andrési sem eru mín stoð og stytta.

Ég er mín eigin fyrirmynd með því að fara eftir þessu frábæra fagfólki og leyfa mér að vera lítil þegar ég þarf þess. Að huga vel að líkama og sál er aðalatriðið í þessu verkefni a.m.k. og passa ég því einnig afar vel upp á mataræðið. 

Ég tek Collagen frá Líkami og Boost daglega, Ég legg áherslu á að fá vítamínin mín eins og lýsi, d vítamín og járn úr hreinni fæðu. Ég er mikið í því að rækta sjálf sem og ég kaupi þá beint frá bónda það sem ég er ekki að rækta.

 

Hver eru mikilvægustu ,,verkfærin” þín í ,,verkfærakistunni” þinni?

  • Andrés maðurinn minn er ómissandi, muna að vera þakklát fyrir hann og það fallega líf sem við höfum skapað okkur.

  • Hreint mataræði

  • ChitoCare vörurnar – eru ómissandi og hafa algjörlega gert kraftaverk fyrir skurðina.

  • Leyfa mér að vera lítil og gráta þegar ég þarf og leyfa mínum nánustu að taka utan um mig og vera til staðar.

  • Fylgja fyrirmælum sérfræðinga og lækna, treysta þeim.

  • Deila minni reynslu á samfélagsmiðlum – gefur mér gott í hjartað sem og þeim sem fylgja mér.

  • Hafa hvatningaorð mömmu alltaf á bak við eyrað: Vertu ákveðin, jákvæð, bjartsýn og hafa óbilandi trú á sjálfri mér.

 

Árið er 2025 , hvernig sérðu það fyrir þér ?

Út á sjó , upp á fjalli , inní skógi. Ég ætla að lifa lífinu lifandi með bros á vör og sól í hjarta.

 

Sólskinskveðja

Kristbjörg Kamilla

  

Facebook


Instagram