Betra seint en aldrei

Kæri Lesandi,

Í dag er 4. Júlí, klukkan er 17:58 og er ég að reyna koma mér í „stellingar“ eða „tengja mig“. Hvar á ég eiginlega að byrja. Það er orðið töluvert langt síðan ég henti inn bloggfærslu. Ekki vegna þess að mig skorti einhverju að deila heldur vegna þess að Ragga ráðríka (púkinn minn) hefur verið í essinu sínu. Hún veit fátt skemmtilegra en að heimsækja og áreita mig þegar ég er á fullu að „skapa“. Með því á ég við að þegar sjálfstraustið mitt er í blóma og ég er full af eldmóð þá alltaf kemur hún Ragga á harða spretti og reynir að telja mig af þessu eilífðar bulli eins og hún segir svo skýrt og ranghvolfir svo augunum í kjölfarið. Orð fá því ekki líst hversu svekkt ég verð með sjálfa mig þegar ég átta mig á að hún sé enn að ná að hafa þessi áhrif á mig! Í alvörunni talað!  En ég ætla nú samt ekki að láta þessa færslu fjalla bara um hana (þó svo hún alveg dillar sér af spenning við tilhugsunina haha) en þessi efnisgrein er sem sagt, hvað skal segja….jú! afsökunin á bak við það hvers vegna ég er ekki búin að vera virk í blogginu, mér er sem sagt bara ekki búið að líða nógu vel!

Gleðilegt sumar! Erum við ekki að elska þessa sól sem er búin að vera svo almennileg að láta sjá sig? Ég skal nú samt alveg viðurkenna að ég er alls ekki týpan sem fer í sund eða í skógarferð á svona fallegum dögum, því svo mikið ver og miður! Ég er þó full aðdáunnar af öllum þeim sem eru út um allt í fjallgöngum og gönguferðum eða úti að planta blómum og vökva grasið! Ég var að íhuga hvort ég ætti að taka mynd af blómunum á pallinum hjá mér og sýna ykkur….en ég held ég láti það nú samt ógert. En eitt verð ég að fá að taka fram. 

EF þið eruð eitthvað lík mér þ.e.a.s. ekki með neitt sérstaklega græna fingur eða réttara sagt bara alls ekki með græna fingur! Þá bara vil ég vara ykkur við einu! Blómin og trén sem seld eru hér og þar á landinu – (vill alls ekki nafngreina þessa verslunarkeðju því hún er að öðru leiti að gagnast mér afar vel) deyja VÍST! Þó svo að þau eiga að vera heilsárs og bla bla bla.

Ef þú ert reglulega að fylgjast með Mín Leið Upp þá ætti það ekki að hafa farið fram hjá þér að ég skilaði inn BA ritgerðinni minni í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands í vor. Námið hefur verið eins og hjá flestum okkar mikið púsl og hef ég þurft að hliðra til hér og þar í náminu í takt við aðstæður hverju sinni. Þar af leiðandi er ég einni önn á eftir mínum samnemendum og stefni á útskrift um jólin. Mín helsta áskorun núna felst í því að klára þessa rest! Í mörg ár hefur það verið draumur minn að senda inn BA ritgerð – merkta mínu nafni! Og þegar ég loksins gerði það í vor þá fannst mér ég einhvern veginn bara búin! Ætla ekki að reyna lýsa tilfinningunni og því stolti sem ég fann fyrir þegar þeim áfanga var náð. Jú víst, ég ætla gera það, læt fylgja með lag – sem algjörlega lýsir því hahaha! Smá væmið og dramtískt – en hey!

En mig dreymir líka um að taka á móti útskriftarskírteininu mínu og einnig stefni ég á áframhaldandi nám, þannig að púslið mun halda áfram næstu mánuði. Það lítur ca svona út hjá mér:

Heimilishald      

Þrif, þvottur, fjármál, matarinnkaup, elda hollan og góðan mat, vera hagsýn, skipta verkum á milli heimilisfólksins, sinna hundinum, sinna páfagauknum, flokka rusl, viðhald á eign, viðhald á  bíl.

Uppeldi

Fylgjast náið með líðan og hegðun barnsins og varast afneitun – vera með augu og eyru alltaf opin!

Vera fyrirmynd nr. 1,2 &3 og muna að njóta! Þau stækka svo hratt. Skutla, læra,tannlæknatímar, læknatímar, kósýkvöld einu sinni í viku, vera virkur þátttakandi og styðja við áhugamál barnanna, mæta í foreldraviðtöl, afmælisveislur, sinna ýmsum fjölbreyttum verkefnum eins og t.d. að kenna og veita reiðistjórnun,áfallahjálp, vináttuþjálfun, samskiptafærni, fjölbreytt umbunarkerfi, svefnráðgjöf, næringafræðslu, heimilisfræðslu, námsráðgjöf, fjölbreytta forvarnarfræðslu, kynlífsfræðslu, hinseginfræðslu og eineltisfræðslu. Þessi listi er ótæmandi….ekki satt?

Hjónabandið     

Allt sem heimilishald & uppeldi felur í sér því við erum teymi! Ávallt hlusta af einlægni og jafnframt taka tillit til þarfa makans og njóta ástar reglulega.

Skóli                    

Stundaskrá ekki komin – en um er að ræða 25 ECTS einingar.

Vinna                  

9-16 alla virka daga

Tilgangur þessarar upptalningar veit ég ekki alveg hver er….mér finnst rétt að taka fram að þessi upptalning er mest til gamans og getum við eflaust í sameiningu farið miklu dýpra í þetta allt saman. Þessi upptalning er jafn mikið fyrir þig kæri lesandi og hún er fyrir mig. Við erum án efa ósammála um hvað á heima þarna og ef ég þekki mig rétt þá er ég mjög líklega að gleyma einhverju afar mikilvægu sem á heima í þessari upptalningu. Jafnframt vil ég taka það skýrt fram að ég er ekki að kvarta- bara langt í frá. Lífið er púsl og erum við öll af vilja gerð til að gera allt rétt og vel og njóta á sama tíma. Hvert er ég að reyna fara með þennan pistil eiginlega….hann er svoldið út um allt haha.

Ætla enda þennan pistil bara á smá samantekt… Kæri lesandi enn og aftur óska ég þér gleðilegs sumars. Lífið er dásamlegt og lífið er allskonar. Hlutverkin okkar eru mörg og felst oft mikil áskorun í því að halda jafnvægi á milli þeirra. Næsta hálfa árið hjá mér persónulega verður krefjandi og mikil áskorun fyrir okkur fjölskylduna. Elsta barnið er að fara í 100% háskólanám samhliða 50% vinnu, næst elsti býr og er að spila fótbolta erlendis og sá yngsti er níu ára og fullur af orku.

Jú…svo erum við líka að fara flytja! Við púslum því þarna inn líka 😉

Til þess að allt nái að ganga upp þá verðum við familian að vera með góða yfirsýn, forgangsraða og skipuleggja okkur vel í sameiningu, sem fjölskylda. Við megum og eigum öll að taka okkar pláss, setja mörk, dreyma stórt og sinna áhugamálum okkar. En til þess að eiga mögulegan séns í þetta að þá er númer eitt, tvö, þrjú og hundrað að við hlúum ávallt vel að líkama og sál. Hvernig best er að gera það er algjörlega háð hverjum og einum. En regluleg hreyfing, heilbrigt mataræði og góðar svefnvenjur eru líklega þættir sem allir ættu að hlúa vel að. Svo er ýmislegt annað hægt að gera til að krydda þetta eins og t.d. að hugleiða og skrifa í þakklætisdagbók.  

Þangað til næst !

Myndbandið hér fyrir neðan er af mér (sko í þykjó) að fara kynna BA verkefnið mitt. Ef þið horfðuð á lokaþátt fyrstu IDOL seríunar þegar Kelly Clarkson var krýnd fyrsta Idol stjarnan – þá munið þið eflaust eftir því  þegar hún brast í grát í lokin og söng…..oh I cant believe this is happening to me – some people wait a lifetime for a moment like this!


Facebook


Instagram