Til baka út í lífið

Mín leið upp

Það var í janúar árið 2019 sem ég lenti harkalega á botninum – aftur. Í fyrra skiptið gerðist það árið 2010, en þá var ég búsett í Danmörku og vann ekkert í mér heldur hélt ég áfram harkinu á hnefanum þar til ég datt aftur.

Ég hafði upplifað langa röð áfalla í um 4 ár, hvert á fætur öðru og gat ekki meira.

Ég var mjög þunglynd, kvíðin, neikvæð og erfið í samskiptum og streitan hafði rokið uppúr öllu valdi. Ég gat ekki hreyft mig fyrir verkjum í líkamanum og lifði á sterkum verkjalyfjum og svefntöflum, því ég var jú líka alveg hætt að sofa á nóttunni. Læknarnir vildu leggja mig inn á hvíldarstofnun, en þar sem ég var of veik fyrir það á þeim tíma og biðlistinn svakalegur, þurfti ég því að finna lausnina sjálf. Því ég varð að gera eitthvað strax!

Starfsendurhæfing 

Starfsendurhæfing VIRK tók við umsókn minni og var mér úthlutað dásamlegum ráðgjafa. Við náðum vel saman og hún hjálpaði mér og hvatti mig áfram, þó ekki væri hlaupið að úrræðum fyrir svona veika manneskju.

Ég las mikið og hlustaði á hljóðvörp, reyndi að hugleiða og finna leiðir til að byggja upp sjálfstraustið og trúna á sjálfa mig.

Ég ákvað að fókusa á andlegu heilsuna því líkaminn var verkjaður og það var nær ómögulegt að stunda hreyfingu.

Í maí árið 2019 fékk ég boð um að sækja námskeið hjá Saga Story house, þar sem fókusinn var á streitulosun, njóta náttúru og ganga í hljóði. Þetta námskeið var dásamlegt og tók ég með mér verkfæri þaðan, sem hjálpuðu mér yfir sumartímann, þar til ég komst að á námskeið hjá sjúkraþjálfara og til sálfræðings.

Ég get lengi skrifað um mína sögu og hvernig hún er, en ég hef lært það núna að það sem öllu máli skiptir er hvernig við komumst tilbaka út í lífið, þó svo að mörg okkar nái ekki að komast alveg í fullkomið form, þá er ágætis mælikvarði að horfa á „tilbaka út í lífið“.

Það sem hjálpaði mér hvað mest í öllu þessu ferli var án efa öll sjálfsvinnan, leitin að því hver ég í raun og veru er. Til þess að komast að því stundaði ég sjálfsvinnu mjög markvisst á hverjum einasta degi, þar til ég var farin að finna það að ég gat tekið eitt og eitt skref í viðbót nær lífinu.

Þegar ég tala um sjálfsvinnu, hvað er ég þá að meina?

Jú – ég skrifaði niður hugleiðingar mínar, tilfinningar og þakklæti. Ég vann stöðugt að því að hlusta á allar hugsanir mínar og breytti þeim úr neikvæðum í jákvæðar.

Ég vann stöðugt að því að losa mig við það sem hafði neikvæð áhrif á mig, hvort sem það var fólk eða hlutir, tónlist eða fréttir.

Ég fór til markþjálfa!

Ég fann út hver gildi mín í lífinu væru, ég fann út styrkleika mína, ég lærði að gera almennilegt plan og fara eftir því, ég setti mér skýr markmið og fór eftir þeim. Í hvert sinn sem ég sigraði markmið, stækkaði sjálfstraustið mitt um heilt númer.

Með þessari þrotlausu sjálfsvinnu hef ég núna, tæpum 2 árum seinna náð fleiri markmiðum en flest árin fyrir breakdown og náð að sigra sjálfa mig trekk í trekk.

 Ég brenni fyrir því að hjálpa fólki að gera enn betur í lífinu

Núna starfa ég sem markþjálfi með virkilega góðum árangri. Ég vinn við að aðstoða fólk við að komast skrefinu lengra út í lífið, setja sér markmið og ná þeim, finna réttan starfsvettvang, finna gildi þeirra og styrkleika – og auðvitað allt hitt líka, sem allir þurfa á að halda.

Sjálfsvinna, að þekkja sjálfan sig og hafa skýr markmið er lykillinn að góðum árangri í lífinu. Hvort sem þú ert að koma tilbaka frá kulnun, veikindum, slysi eða hverju sem er.

Settu þér markmið og fylgdu þeim.

Þegar þú hefur gert það nokkrum sinnum, þá finnur þú hvað sjálfstraustið þitt hefur stækkað og þar af leiðandi geta markmiðin stækkað samhliða.

Áður en þú veist af því, þá verður þú farin/n að lifa drauminn þinn.

Njóttu dagsins og líðandi stundar.

 

 

  

Facebook


Instagram