UNGA FÓLKIÐ OKKAR

… og andlega heilsa þeirra

Ég hef mikinn áhuga á andlegri heilsu, eins og oft hefur komið fram. Undanfarið hef ég lesið mig til um unga fólkið okkar og hvernig við getum „gripið þau“, þegar þeim t.d. líður ekki nógu vel eða eru á tímamótum í lífinu. 

Það hafa ekki allir tök á því að fara til sálfræðings eða markþjálfa og þar af leiðandi þurfa þau svolítið að treysta á sjálfa sig þegar kemur að því að tala um líðan sína. Andleg heilsa hefur lengi verið hálfgert tabú, þó það hafi lagast til muna undanfarin ár. 

Þegar ég tilheyrði hópnum „unga fólkið okkar“, þá átti ég í stríði við andlegu heilsuna mína. Ég var greind með þunglyndi og kvíða og var skellt á lyf. Hvergi stóð mér til boða að fá aðra aðstoð. Að sjálfsögðu á ég fjölskyldu sem ég gat reitt mig á, en aðstoð eins og samtöl við óháðan aðila, ráðleggingar og aðstoð við að lifa án kvíða, aðtoð við markmiðasetningu og þess háttar, sem hefur sýnt sig að reynist mjög vel við að efla andlega heilsu sem og almennt í lífinu.   

Ég las grein á netinu (mbl.is) um könnun sem Landlæknisembættið gerði um líðan Íslendinga á milli ára þar sem skoðuð er andleg heilsa, einmanaleiki, streita, svefn og hamingja á öllum aldursstigum íslendinga. Það sló mig verulega að lesa það að andleg heilsa er verst á meðal ungra kvenna. Ekki nema helmingur ungra kvenna metur andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Einnig er mesta breytingin á hamingju hjá ungum konum á milli ára, en þar er marktæk lækkun á hlutfalli þeirra sem telja sig hamingjusama.          

Í greininni kemur einnig fram:

„…ef litið er á yngri ald­urs­hópa kvenna kem­ur í ljós að um 46% kvenna á aldr­in­um 18-24 ára

greina frá mik­illi streitu í dag­legu lífi og hlut­fallið er litlu lægra meðal 25-34 ára (42%) og 35-44 ára (39%)“. 

Hvað er það sem veldur þessu? Og hvernig á að bregðast við þessu?

Ég geri mér grein fyrir því að síðasta árið höfum við verið meira og minna innilokuð og einangruð vegna Covid-19 og kann það mögulega að útskýra eitthvað af þessum breytingum, en þess ber að geta að mælingar á einmanaleika eru eins eða svipaðar núna og árið 2018, en þá var hvorki heimsfaraldur né jarðhræringar í gangi. 

Við þurfum að vera til staðar og grípa unga fólkið okkar þegar ástandið sýnir sig vera svona slæmt eins og það raunverulega er. 

Já, mér finnst þetta mjög slæmt ástand, miðað við þessar niðurstöður. 

Unga fólkið okkar eru mjög mikilvægir einstaklingar, okkar næsta kynslóð og það eru þau sem munu taka við af okkur við að byggja upp land og þjóð, þegar okkar tími kemur.

Ég er nokkuð viss um að við séum flest öll sammála því að fólki eigi að líða vel og það fái að upplifa hamingjusamt og streitulaus líf, ekki satt? Sérstaklega í samfélagi eins og á Íslandi, litla landið með öllu góða og duglega fólkinu.

Það er fátt eins vont og einmanaleika tilfinningin, þegar manni líður eins og maður tilheyri ekki eða fái ekki sitt pláss. 

Ég ætla að leggja mitt af mörkum og beita mér í því að finna lausnir sem munu hjálpa þessum hópi. Lausnir sem eru varanlegar og raunverulega aðstoða fólkið við það að líða betur. Ég á mikið af verkfærum í minni verkfærakistu sem ég veit að munu reynast vel. Verkfæri sem ég hefði sjálf viljað hafa aðgang að í þá daga, en við þá kistu þarf sannarlega að bæta og verður það gert. 

Ekki síst myndi ég gjarnan vilja vita hvernig bregðast eigi við niðurstöðum þessarar könnunar? Mun Landlæknisembættið bæta „kerfið“ og sjá til þess að unga fólkið fái viðeigandi aðstoð eða leiðbeiningar? 

Ég ætla að gera það, leita leiða til þess að skoða þetta enn frekar. 

Að lokum langar mig til þess að biðla til ykkar „unga fólksins“, ég skil þig og ég veit hvað þú ert að ganga í gegnum. Þetta er vont og óþægilegt og þú ert alls ekki ein eða einn. 

Um leið langar mig að benda þér á samfélagsverkefnið Mín Leið Upp. Sá vettvangur er einmitt fyrir unga fólkið okkar, fólkið sem þarf mest á því að halda. 

…þangað til næst.

 


Facebook


Instagram